29.11.1943
Neðri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Finnur Jónsson:

Ég get ekki fallizt á röksemdir hv. 8. þm. Reykv., sem talaði hér áðan út af því, að hann var ekki samþykkur brtt. þeirri, sem ég bar hér fram í hv. d. og hv. d. féllst á. Ástæðan fyrir því, að ég bar hana fram, var sú, að ég taldi eðlilegt, að í stofnun, sem að öllu leyti er rekin á kostnað ríkisins, eigi ríkið að hafa meiri hluti í stjórninni. Það er sjálfsagt ýmislegt rétt, sem hv. þm. sagði viðvíkjandi áhugamönnum, en hins vegar verður ríkið að gæta þess, að það hafi umráð yfir stofnunum, sem eru reknar fyrir kostnað þess. Þetta var því ástæðan fyrir brtt. minni við þetta frv. Ég taldi, að þessi skipan á stjórn stofnunarinnar væri í samræmi við það, sem tíðkast um aðrar ríkisstofnanir, en stórstúkunni væri þó gefin þau hlunnindi að tilnefna einn mann í stjórnina. Ég er ekki viss um, að þessi brtt. hv. þm. komist að, þar sem d. er þegar búin að fella, að stórstúkan tilnefni tvo menn í stjórnina, þó að það að vísu sé orðið nokkuð öðruvísi í hans till.

Ég geri ráð fyrir, að rétt sé að samþ. frv. óbreytt, en fella skrifl. brtt., a-lið, eða vísa henni frá, vegna þess að hér er gert ráð fyrir, að ríkið kaupi þessar eignir hælisins, og móttakandi verður þá væntanlega þessi stjórnarnefnd, og tel ég viðkunnanlegra, að ríkið sjálft hafi meiri hluta í þeirri n., sem tekur við stofnuninni.