29.11.1943
Neðri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Forseti (JörB) :

Þá hafa ekki fleiri kvatt sér hljóðs, og er umr. lokið.

Hv. þm. Ísaf. hefur bent á, að brtt. sú hin skrifl. komist kannske ekki að, sökum þess að líkt ákvæði hafi verið numið burt úr frv. og þessi brtt. fjallar um. Það er að vísu svo, að þessi ákvæði eru nokkuð svipuð. En bæði er nú það, að þetta ákvæði, sem burt var numið, er ekki alveg sams konar og það, sem er í brtt., og hins vegar er ekki beinlínis hægt að segja, að það hafi verið fellt, þó að því væri breytt í frv. Í frv. við 2. umr. stóð: „Stórstúka Íslands velur tvo stjórnarnefndarmenn, en ráðherra skipar þriðja manninn, og skal hann vera formaður nefndarinnar.“ En þessu var breytt við 2. umr. hér í hv. d., svo að það er nú í frv. þannig: „Ráðherra skipar stjórnarnefndina, formann og tvo meðstjórnendur, og skal annar þeirra valinn eftir tilnefningu stórstúku Íslands.“ Nú er fram komin skrifl. brtt. um að breyta þessu þannig, að í staðinn fyrir orðin „skal annar þeirra valinn“ komi: „skulu meðstjórnendur valdir“. Dálítill munur er á þessu að efni til, en ég játa með hv. þm. Ísaf., að hann er mjög smávægilegur, en þó það mikill, að ég vil láta hv. d. um það, hvort hún vill hafa þetta ákvæði þannig nú eða ekki, þannig að þessi brtt. kemur til atkvæða, stafl. a. í skrifl. brtt.

Annar stafliður brtt. er um, að við bætist orðin: „Stjórnarnefndin starfar kauplaust,“ og mun ég bera upp báða liðina saman, ef ekki verður mótmælt. (BÁ: Ég óska, að þeir verði bornir upp hvor í sínu lagi.) Þá verður það gert.