21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

57. mál, jarðhiti

Flm. (Finnur Jónsson) :

Við höfum, flm., orðið sammála um að leggja þetta frv. fram sem breyt. á gildandi l. um eignar- og notkunarrétt jarðhita. Í þeim l. er svo ákveðið, að ríkið veiti ókeypis leiðbeiningar um notkun jarðhita, og hefur það starf undanfarandi verið í höndum rannsóknaráðs ríkisins, en rannsóknaráð ríkisins hefur ekki haft neinum sérfræðingi á að skipa til þess að veita þessar leiðbeiningar, og ekki hefur heldur verið veitt til þess fé sérstaklega í fjárl. Nú er enginn vafi á því, þar eð jarðhiti er mjög mikilvægur eða a. m. k. getur orðið það, ef hann er notaður sæmilega, að þá þarf að búa öðruvísi að þessum málum en hingað til hefur verið gert. Í þessu frv., sem ég er hér fyrri flm. að, er það nýmæli, að ríkisstj. fái sérstakan ráðunaut eða sérfræðing um notkun jarðhita og taki hann í þjónustu sína, en geti hins vegar látið jarðhitaframkvæmdir viðvíkjandi borunum og slíku heyra undir ríkisstofnun, er nú starfar. Enn fremur er það nýmæli í frv., að ríkið greiði helming kostnaðar við jarðboranir, sem framkvæmdar eru af bæjar- og sveitarfélögum, eftir því sem fé er veitt til í fjárl.

Það hefur allmikið verið skrifað um nýtingu jarðhita nú, og er í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands, 1. hefti 1943, grein um þetta efni. Segir formaður rannsóknaráðs ríkisins þar, að orka sú, sem felst í jarðhitanum, jafnist fyllilega á við orku fossanna. Nú skal ég ekki segja um, hvort svo er, en jafnvel þótt þessi orka væri kannske minni, er hér um svo mikið mál að ræða, að flm. hafa talið rétt, að ríkið verði til þess að hrinda þessu máli hraðar áleiðis en enn er gert. Í þessari yfirlitsgrein Steinþórs Sigurðssonar er drepið á það, að það hafi hina mestu þýðingu, að gerð sé rannsókn á eðli og uppruna jarðhita, og enn fremur, að ýmsar framkvæmdir, sem gerðar eru viðvíkjandi notkun jarðhita, hafi farið í handaskolum, vegna þess að þessi mál eru ekki nægilega rannsökuð og nægilega undirbúin. Það er kunnugt, að jarðhiti er notaður til virkjunar í mörgum löndum, sem hafa ekki líkt því eins mikinn jarðhita og Ísland hefur, t. d. á Ítalíu. Þessir möguleikar jarðhitans hafa lítt eða ekki verið rannsakaðir hér enn, en það mundi verða verkefni þess ráðunauts eða stofnunar, sem ríkið væntanlega setti á fót og framkvæmdi slíka rannsókn.

Rannsóknaráð ríkisins hefur nú umráð yfir 2–3 jarðborum og hefur látið bora á nokkrum stöðum, en þessi rannsókn hefur ekki verið sett í neitt kerfi enn þá og er mjög í lausu lofti, enda leggur formaður rannsóknaráðs ríkisins, Steinþór Sigurðsson, til í þeirri tímaritsgrein, sem ég nefndi áðan, að ríkið kosti sérstakan sérfræðing til þess að kynna sér jarðhita hér á landi og erlendis eftir því, sem þess er kostur, og að þessi sérfræðingur yrði síðan starfsmaður ríkisins, enn fremur, að nákvæm rannsókn færi fram, bæði frá vísindalegu og eðlisfræðilegu sjónarmiði.

Það hefur verið starfandi nú um nokkurt skeið sérstök ráðunautskrifstofa rafmagnseftirlits ríkisins, og þótt jafnvel hafi verið ágreiningur um stofnun þessarar skrifstofu, þegar hún var sett á fót, held ég ekki, að neinn mundi vilja, að hún yrði lögð niður. Ætlun okkar er, að með samþykkt þessa frv. verði lögð undirstaða undir, að sett verði á fót sams konar stofnun fyrir nýtingu jarðhita og rafmagnseftirlit ríkisins er fyrir nýtingu fossaflsins.

Ég læt þetta nægja í þessu máli, en óska, að málinu verði vísað til 2. umr. og væntanlega allshn.