25.11.1943
Sameinað þing: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

27. mál, fjárlög 1944

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, lék sína gömlu plötu um árásir á Alþfl., og voru blekkingarnar hinar sömu og áður um afstöðu Alþfl. til þjóðmála. Væri það óþarfa stagl að svara því nánar, enda er það margsinnis áður gert.

Ég hirði ekki um að ræða nánar um allt það þvogl, sem flutt hefur verið í þessum útvarpsumræðum um dýrtíðarmálin. Í hinum rökföstu ræðum þeirra hv. þm. Ísaf. og Hafnf., Finns Jónssonar og Emils Jónssonar, er þetta mál rækilega skýrt.

Ég vil aðeins taka það fram, að þau endurteknu ósannindi, er þeir 2. og 5. þm. Reykv., Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, fluttu um það, að Alþfl. hefði viljað ganga að kauphækkunarkröfum Framsóknar til stjórnarmyndunar, eru marghrakin, og urðu kommúnistar að renna þessum ósannindum niður í útvarpsumræðum á s.l. vori, er hv. 3. landsk., Haraldur Guðmundsson, rak þetta ofan í þá.

Þá vil ég geta þess út af ummælum hv. 2. þm. Rang., Ingólfs Jónssonar, að í fjárveitinganefnd hafa til þessa engar till. komið fram um það, hvernig verja skuli þeim 8–9 millj. kr., sem telja má tekjuafgang, nema till. hv. þm. Ísaf. (FJ) um að nota þessa upphæð til kaupa á nýjum fiskiskipum. Við 2. umr. fjárl. lýsti hv. þm. Ísaf. yfir því, að Alþfl. mundi bera fram till, um kaup nýrra fiskiskipa við 3. umr.

Hv. 2. landsk. þm., Þóroddur Guðmundsson, sagði, að alltaf hefði verið unnt og vitað, að hægt mundi að fá ný fiskiskip í Svíþjóð. Þetta er rangt. Fulltrúar Alþfl. hafa hvað eftir annað gert fyrirspurnir um þetta. Í marz í fyrra var t. d. ekki unnt að fá skip þaðan. Og fyrir rúmum mánuði komu þær fregnir fyrst frá Svíþjóð, að þetta væri unnt. Og ég mundi ráðleggja hv. þm. V.-Húnv. (SkG) að kynna sér tillögur Alþfl. um kaup og byggingu nýrra fiskiskipa. Það er gert ráð fyrir, að þau verði sumpart keypt frá útlöndum og sumpart smíðuð í landinu.

Hv. 2. landsk. þm. (ÞG) var að bera blak af kommúnistum út af þeim margendurteknu sannindum, að sá flokkur væri háður erlendu valdi. Vildi hann gefa í skyn, að Alþfl. lyti stjórn erlendis frá, og afstaða Alþýðuflokksmanna, er rætt hafa um skilnaðinn við Dani, mótaðist af hlýðnisafstöðu. Alþfl. játar það af fúsum vilja, að í flestum höfuðatriðum falla saman skoðanir norrænna jafnaðarmanna, en flokkarnir þar í löndum eru algerlega óháðir hver öðrum. Hins vegar vita menn, að einn þátturinn í stuðningi rússneskra kommúnista við íslenzka flokksbræður sína hefur meðal annars komið í ljós á þann hátt, að símskeyti fyrir tugi eða hundruð þús. undir króna hafa borizt Þjóðviljanum ókeypis frá Rússlandi. Og sem dæmi um áhrif Alþjóðasambands kommúnista á stefnu og starfsaðferðir íslenzkra kommúnista má nefna það, að á öðru þingi kommúnistaflokksins, sem haldið var fyrir nokkrum árum undir forustu þeirra Brynjólfs Bjarnasonar og Einars Olgeirssonar, var komizt þannig að orði í áliti „þjóðernisnefndar“ flokksþingsins:

„Frá Komintern (þ. e. Alþjóðasambandi kommúnista) hefur oftar en einu sinni komið gagnrýning á afstöðu Kommúnistaflokks Íslands til þjóðernismálsins, t. d. í bréfi POLSEKR í nóvember 1931 og nú nýlega í bréfi SKLS. Aðfinnslurnar hafa aðallega verið fólgnar í því, að Kommúnistaflokkurinn hafi vanmetið þýðingu þeirrar hreyfingar móti sambandinu við Danmörku, sem varð út af þingrofinu 1931, og því ekki gert skyldu sína í henni.“

Síðar í sama áliti, sem samþykkt var á flokksþinginu, segir, að Kommúnistaflokkurinn verði að láta skilnaðinn við Danmörku til sín taka, af þeim ástæðum, sem þar eru tilgreindar og endar sá þáttur ályktunarinnar á eftirfarandi orðum:

„Þess vegna verður flokkurinn, sem gerir kröfu til að taka völdin í landinu í sínar hendur, að láta sig þetta miklu skipta, ekki aðeins að fylgjast með hinum flokkunum, heldur fyrst og fremst að taka að sér forustuna úr höndum yfirstétta Sjálfstæðisflokksins.

Þannig mæltu þeir, og allir vita, hvað orðið hefur.

Þessar eldhúsumræður eru nú brátt á enda. Ég veit ekki, hversu mikið þjóðin hefur grætt á þeim. En Alþfl. hefur í þessum umræðum sem alltaf endranær flutt fram rök fyrir málstað sínum og látið afstöðu sína eingöngu mótazt af málefnunum, sem fyrir liggja, og látið sér í léttu rúmi liggja orðhákshátt og illkvittni, er einkum hefur komið fram af hálfu kommúnista og þá sérstaklega frá hv. 2. landsk. (ÞG). Eru vopnin þar í fullu samræmi við málstaðinn.

Alþfl. óskar einskis frekar en þess, að kjósendur landsins athugi með ró og athygli stefnur og störf stjórnmálaflokkanna og kynni sér það til hlítar, áður en dómur er felldur. Ef svo er og óhlutdrægt dæmt, þarf Alþfl. ekkert að óttast.