29.11.1943
Efri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

57. mál, jarðhiti

Hermann Jónasson:

Það, sem þm. sagði, er í aðalatriðum villandi, því að í b-lið 2. gr. stendur, að ríkið skuli styrkja boranirnar. Þegar sérfróðir menn hafa rannsakað og sagt um, hvar gerlegt er að ráðast í boranir, þá vil ég, að ríkið gangi ekki lengra í þessu máli. Það var t. d. álitið, þegar Reykjavík keypti jarðhitasvæðin á Reykjum á 150 þús., að jarðhitinn væri þess virði. Það má líka benda á stað eins og Krýsuvík, þar sem um er að ræða eitthvert stórkostlegasta gróðafyrirtæki, sem hér þekkist, og þessu fylgir engin áhætta fyrir bæina. Þess vegna er það rangt að styrkja þessa staði, sem hafa svo góða möguleika. Sama máli gegnir um Húsavík, enda þótt þar sé það ekki nærtækt. Hafnarfjörður fékk Krýsuvíkurland á 35 þús. kr., og með þeim möguleikum, sem þar eru að skapast, þá tel ég ekki réttlátt, að ríkið taki þátt í þeim framkvæmdum. Í einstökum tilfellum getur þetta verið verjandi, en yfirleitt tel ég, að svo sé ekki, og mun ég því greiða atkv. á móti frv.