29.11.1943
Efri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

57. mál, jarðhiti

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Hv. 9. landsk. sagði, að ég hefði fallizt á, að hér mundi hættulegt fordæmi skapast. Ég er tvisvar eða þrisvar sinnum búinn að taka fram, að ég teldi þetta fordæmi ekki hættulegt, svo að hér var óþarfi að hafa rangt eftir, ef vilji var til að hafa rétt eftir. Hér er ekki um hættulegt fordæmi að ræða, því að þetta hefur verið gert áður. Eins og hv. þm. Barð. tók fram, hefur þetta verið gert í sambandi við hafnarbætur, sem hv. 9. landsk. þm. gerði sér tíðræddast um. Í því tilfelli er því búið að skapa fordæmi, og því hníga öll rök að því, að brtt. sé sanngjörn.

Varðandi andmæli hv. þm. Str. gegn frv. vil ég benda á, að því fer mjög fjarri, að það sé rétt, sem hann sagði, að það væri fyrir fram hægt að reikna út, hvort borun á einhverjum stað borgi sig eða ekki. Við skulum vona, að þeir tímar komi, að hægt verði að rannsaka þetta fyrir fram, en enn þá er það ekki hægt. T. d. hefur einn maður hér í bæ honum nákominn ráðizt í jarðborun ekki alls fjarri bænum, þar sem ytri skilyrði sýndust fyrir fram benda til, að heitt vatn yrði fyrir hendi og þetta yrði arðbært, en enn þá hefur þessi maður og hans nákomni vinur ekki haft af þessu nema tjón þrátt fyrir eigin athugun og rannsókn sérfróðra manna. Hitt er annað mál, að það getur verið, að það borgi sig að kaupa jarðir vegna jarðhita. Hann segir með réttu, að Krýsuvík sé góð eign, og það getur verið, að hitaveita þaðan og til Hafnarfjarðar borgi sig. En það gæti verið, að það borgaði sig betur að verja miklu fé til að leita að jarðhita nær Hafnarfirði, t. d. úti á Álftanesi, ef það gæti orðið til þess að spara sér alla þá löngu leiðslu frá Krýsuvík. En það breytir engu, að Krýsuvík er verðmæt eign. En þessar rannsóknir eru að mestu eða öllu leyti út í óvissuna, jafnvel þótt á mjög miklu jarðhitasvæði sé, og þær eru alls ekki hluti af framkvæmd verksins, heldur rannsókn á því, hvort fært sé að ráðast í framkvæmd hitaveitu síðar. Þetta liggur í augum uppi fyrir alla, sem það vilja sjá og hugleiða. Þessar boranir eru því alltaf meira og minna út í bláinn, og er því eðlilegt, að þær séu styrktar vegna þeirrar óvissu, sem þeim er samfara, þó að það verði hins vegar að játa, að sú óvissa er nú orðin miklu minni, eftir það brautryðjendastarf og frumrannsóknir, sem gerðar hafa verið og kostað hafa hlutfallslega meira en síðari rannsóknir mundu gera, og því fullkomin ástæða til að styrkja slíkar frumrannsóknir enn meira en síðari rannsóknir.

Varðandi það, sem hv. þm. Str. sagði, að ekki ætti að styrkja nema það, sem ekki borgaði sig, þá er það skýring á því, hvers vegna öll stjórnmálastefna hans hefur leitt til þvílíks hruns og eyðileggingar, sem raun ber vitni. Hann hefur aldrei stutt að því, að góð mál næðu fram að ganga, sem gætu orðið til þess, að landslýðurinn lifði á því, en hann hefur viljað styrkja það, sem vonlaust var, að gæti staðið undir sér. Því hefur hann viljað halda við. Það var ákaflega gott að fá þessa játningu, að ekki megi greiða fyrir, að það, sem blómlegt er, dafni enn betur. Hann vill ekkert styrkja nema það, sem verður endalaust að halda við á styrkjum og styrkja því meira, því lengur sem það á að hjara.