29.11.1943
Efri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

57. mál, jarðhiti

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þetta er aðeins stutt aths. Það hafa komið þau rök hér með þessu máli frá þeim, sem síðast talaði, að allshn. hefði verið sammála um þetta mál. Þetta eru hæpin rök út af fyrir sig, ef það er þá hægt að kalla það rök, því að það mun sennilega sýna sig eftir þetta þing og hefur sýnt sig eftir mörg þing, að þau mál, sem n. hafa verið sammála um, hvort sem það hefur verið allshn. eða einhverjar aðrar n., hafa stundum ekki verið nægilega athuguð, og það mun að mínu áliti sýna sig, að þetta ákvæði, b-liður 2. gr., hefur hvorki af n. né öðrum verið nægilega athugað.

Þá er það, sem hv. þm. Barð. sagði um þetta mál. Hann sagði, að það sé nauðsynlegt að styrkja bæjarfélög til að spara gjaldeyri, sem ég hafi þann tíma, sem ég var ráðh., lagt mikla áherzlu á að spara. Það er fyrst og fremst um það að segja, að það á ekki að þurfa að vera verðlaunaatriði frá hálfu ríkissjóðs til bæjarfélaga, þó að þau noti sér þær auðlindir, sem hagur er fyrir þau sjálf að nota, og á mörgum sviðum yrði að grípa til styrkja, ef þess þyrfti sérstaklega með. Í því sambandi má benda á, að vitanlega er það skoðun margra manna, að spara mætti gjaldeyri með því að byggja meira af gróðurhúsum en gert hefur verið. Það er meira að segja skoðun margra sérfróðra manna, að með því að bora eftir jarðhita og byggja meira af gróðurhúsum mætti spara stórkostlega innflutning, frá því sem verið hefur, en ekki er gert ráð fyrir slíkum styrk í frv., vegna þess að það er talið líklegt, að þeir, sem græða á að nota jarðhita, muni gera það, þó að styrkir komi ekki til. Þessi regla hv. þm., að styrkja hvað, sem er, ef það sparar gjaldeyri, mundi því draga ærið stóran dilk á eftir sér.

Það kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., sem mælti með að gera þetta ákvæði í b-lið 2. gr. að almennri reglu, að það væri fyrst og fremst, að því er manni skildist, að styrkja þá, sem hefðu jarðhita nálægt sér, og þar, sem það væri gróðafyrirtæki að nota jarðhita. Ég fæ satt að segja ekki skilið þessa reglu án tillits til þess, sem hann síðar sló fram, sem ég skal koma að. Ég benti á, að fyrir Reykjavík var það beinlínis gróðafyrirtæki að nota jarðhitann á Reykjum. En jafnvel þó að hann hefði ekki orðið nægilegur til að hita upp bæinn, hvaða ástæða hefði verið þrátt fyrir það til að styrkja hann, og hvaða ástæða er til að styrkja Hafnarfjörð til að bora eftir heitu vatni, þegar það er vitanlegt, að það er gróðafyrirtæki fyrir þessa bæi að bora eftir heitu vatni og nota það, hvort sem hægt er að hita upp bæina með því eða ekki?

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að ég hefði í minni stjórnartíð aðallega viljað styrkja það, sem aldrei hefði getað borið sig. Ég býst við, að hann hafi þar átt við landbúnaðinn með þessari venjulegu vináttu við hann. Hann sagði, að þessi stefna hefði leitt hrun yfir þjóðina. Hv. þm. hefði ekki átt að minnast á þetta, því að það er öllum kunnugt, hver það var, sem raunverulega leiddi hrunið yfir þjóðina árið 1942. Og nú er svo komið, að hann vill láta styrkja hitaveitu Reykjavíkur, það fyrirtæki, sem fyrir óstjórn og óforsjálni hans, þó að öll skilyrði væru til þess, að hún yrði stórkostlegt gróðafyrirtæki, hefur orðið þannig, að mestar líkur eru til þess, að það setji bæjarfélagið á höfuðið fyrir óforsjálni hans. Og að því leyti er till. um að styrkja hitaveitu Reykjavíkur till. um að styrkja fyrirtæki, sem getur ekki staðið undir sér sjálft vegna óstjórnar og óforsjálni. Ég held, að þeir þm., sem komu á óstjórninni 1942, ættu sem sjaldnast að minnast á það hrun, sem þeir stofnuðu til og er nú svo nálægt, að segja má, að við séum komnir fram á fossbrúnina.

Hitt er annað mál, að svo getur staðið á, að það sé áhættusamt að láta framkvæma borun. Það er t. d. ekki eðlilegt, að Akureyri vilji leggja í þá áhættu að bora í stórum stíl. Og þá er það atriði, sem þingið verður að gera upp við sig í hvert sinn, hvort það vill, að ríkið taki þátt í þeirri áhættu, og hvort svo mikil von sé um árangur, að gerlegt sé fyrir ríkið að leggja í það.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég vil ráðleggja hv. 6. þm. Reykv. að fara ekki að innleiða hér umr. um óstjórn, hvorki hjá ríkinu né Reykjavíkurbæ, því að það er sami aðilinn, sem þar á sökina, svo að ekki verður um villzt.