29.11.1943
Efri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

57. mál, jarðhiti

Gísli Jónsson:

Það er bert af ummælum hv. þm. Str., að það er ekki af umhyggju fyrir réttlætinu, heldur af fjandskap við Rvík og öll þorp á landinu, þar sem von er um hitaveitu, að hann leggst gegn þessari brtt. Hann gat ekki stillt sig um að kasta kápunni og sýna sinn rétta mann. En það er ekki til neins að ræða mál við þá, sem eru fjandmenn þeirra frá upphafi. Hv. þm. talaði um, að ég hefði sagzt vilja styrkja hvað, sem væri, ef það aðeins sparaði gjaldeyri. Ég sagði það ekki. Ég sagði, að rétt væri að styrkja jafnmikilvægt mál og það, sem hér hefur verið unnið, þar sem aflazt hefur sú reynsla, sem án efa mun spara margar þúsundir króna í framtíðinni. Er þetta ekki í samræmi við þá stefnu, sem hann sjálfur hefur stutt? Hefur hann ekki ásamt öðrum þm., já, jafnvel ásamt mér, verið að styrkja þá, sem unnið hafa að jarðabótum, vegna þeirrar afkomu, sem betri ræktun tryggir landbúnaðinum? Hér stangast á rök hv. þm. Str. Og þetta er gert á öðrum sviðum. Ég veit ekki betur en verið sé að styrkja sjávarútveginn, vegna þess að það er viðurkennt, að hann er ein aðalundirstaðan undir tekjum ríkissjóðs, — hann launar styrkinn fyrr eða síðar. Það, sem hér er um að ræða, er að styrkja framkvæmdir, sem mega verða þjóðarheildinni til góðs, og munu, þegar til lengdar lætur, spara alþjóð stórkostlegt fé í erlendum gjaldeyri.

Mér finnst það mikið atriði að meta það brautryðjendastarf, sem Rvíkurbær hefur unnið starf, sem síðar mun spara ríkissjóði fé, af því að hér er fengin mikilvæg reynsla. En kannske vill hv. þm. Str. gefa Rvíkurbæ einkarétt til framkvæmda við boranir um land allt vegna þeirrar reynslu, sem hér er fengin? Ekki býst ég þó við, að hann mundi veita því stuðning sinn.

Viðvíkjandi því, sem hv. 9. landsk. þm. sagði, þá vil ég benda honum á, að Alþ. er alltaf að semja l., sem verka aftur fyrir sig, t. d. skattal. Ég er ekki að mæla með því, en úr því að þetta er viðtekinn háttur, hvar á þá að draga línuna? Hér er farið með skattaálagningar svo langt aftur í tímann, að vafasamt er, hvort hæstiréttur mundi ekki dæma það brot á stjórnarskránni.