29.11.1943
Efri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

57. mál, jarðhiti

Hermann Jónasson:

Það hefur verið sagt af athugulum manni, sem þekkir hv. 6. þm. Reykv., að hann mundi ef til vill vera fær um að halda uppi kennslu í lögfræði, þegar ofstækið og skapsmunirnir hlypu ekki með hann í gönur, þá sjaldan svo stæði á. Kenningar hans í lögfræði eru frægar að endemum og bornar fram af skapsmunum, sem hann ræður ekkert við. Það er fróðlegt fyrir þm. að hlusta á hann, þegar ofstopinn og bræðin hlaupa með hann út á villigötur, — en það er daglegt brauð.

Út af því, sem deilt er um, í 2. gr. frv., hvort gera eigi að almennri reglu að styrkja bæjar- og sveitarfélög, ef þörf þykir að gera boranir, án tillits til aðstæðna, eða hvort gera skuli ákvarðanir um það jafnóðum, eftir því sem ástæður standa til, — út af þessu verður þessi hv. þm. dökkur í framan, eins og jafnan þegar hann fær þessi köst, og tekur að ófrægja mig. Hann segir, að það sé óþarfi að bæta á þá fyrirlitningu, sem þjóðin hafi á mér, og að ég hafi stjórnað af oflátungshætti og ranglæti. Þetta er orðbragð borgarstjórans í Rvík, þegar hann fær reiðiköstin, hvort heldur er á Alþ. eða á skrifstofu sinni. Heldur hann, að þau verði málstað hans til bóta - eða staðfesti bara þau orð, sem hinn athuguli maður mælti, að ef til vill gæti hann kennt lög, en ekki stjórnað skapi sínu eða orðum?

Þessi hv. þm. veður um hér með þeim vinnubrögðum, sem enginn tekur hátíðlega og eru ekki til að auka virðingu hans. Sá, sem er ekki fær um að stjórna skapi sínu, er ekki heldur fær um að stjórna öðrum.

Það m. a. sýnir, hvaða vit er í því, sem hann segir, þegar þessi hv. þm. talar um það í einu orðinu, að ég hafi „velzt úr völdum“ og sé einangraður maður á þingi, en í hinu orðinu kennir hann mér um, að mér hafi tekizt í heilt ár að koma í veg fyrir samvinnu á þingi.

Fyrst er þess að geta, að þegar ég lét af völdum, þá sagðist ég ekki vilja bera ábyrgð á þeim vinnubrögðum, sem Sjálfstfl. tók upp, því að ég taldi, að með þeim væri stefnt í ógöngur. Þeir hafa ekki linnt látum í heilt ár að deila á mig fyrir, að ég skyldi hafa sagt af mér. Ég á í einu orðinu að vera einangraður, en í hinu að hafa staðið í vegi fyrir samvinnu, af því að ég vildi ekki vinna með Sjálfstfl. Þetta er því allt sundurgrafið af eintómum mótsögnum, og læt ég mér það í léttu rúmi liggja, því að á þeim átta árum, sem ég var ráðherra, hef ég oft mætt mönnum, sem létu út úr sér orð, sem þeir vildu sízt sagt hafa, þegar kastið var runnið af þeim.

Ég ætla ekki að misnota leyfi hæstv. forseta til þess að bera af mér skröksögurnar um afstöðu mína til hitaveitumálsins hér í Rvík., sem alltaf er staglazt á til þess að veita flóði annarra eins svívirðinga, með afsökun hæstv. forseta, og dónalegra orða yfir d. og hv. 6. þm. Reykv. lét sér um munn fara. Það vita allir, að þessi skröksaga var borin út, ekki vegna þess, að innflutnings- og gjaldeyrisn. vildi, að efnið væri keypt í Þýzkalandi, en ekki í Svíþjóð, heldur vegna þess að Sjálfstæðisfl. gerði þetta að pólitísku hagsmunamáli sínu, svo að það er orðið að orðtaki um land allt, hvort það eigi að gera þetta mál eða hitt að „hitaveitumáli“. Það var ekki einu sinni látið spyrjast í bæjarstjórn, að menn hefðu farið utan til að leita láns, — það var gert að launmáli. Sjálfstæðisfl. reyndi að gera þetta að uppsláttarmáli fyrir sig. Það var þessi meðferð málsins, sem olli töfinni á framkvæmdunum, en ekki afstaða innflutningsn.

En þetta verður ekki rakið hér. Það væri að misnota þann rétt, sem ég hef fengið til að gera stutta athugasemd. Það verður gert síðar.

Viðvíkjandi stjórn landsins þá tíð, sem ég var forsrh., þá er það vitað mál, að sú stjórn, sem nú er við völdin og tók við, eftir að Sjálfstfl. hafði ráðið miklu um fjármál ríkisins, getur borið um, hvernig ástatt var fjárhag ríkisins. T. d. voru lausaskuldir svo miklar, að varla var hægt að standa í skilum frá degi til dags.

Þann tíma, sem ég var forsrh., var lögð megináherzla á að byggja upp atvinnuvegina í landinu. Og Íslendingar hafa aldrei verið betur undir það búnir að selja útflutningsvörur sínar sér til hagnaðar en í þessu stríði.

Ástandið 1939, þegar hv. þm. segir, að við höfum komið ,.skríðandi á maganum“ til að biðja Sjálfstfl. um hjálp, er mönnum kunnugra en svo, að nokkur taki orð hans trúanleg. Við báðum ekki um samstarf við Sjálfstfl. Við settum honum kosti um það, hvort hann vildi samstarf eða ekki eða hvort ganga skyldi til kosninga. Það varð til þess, að flokkurinn næstum því klofnaði, því að hann kemur sér aldrei saman um neitt. En hv að um það — og hvaða vonir, sem Framsfl. hefur gert sér um frið í landinu, þá er saga Sjálfstfl. í ríkisstj. næstu ár á eftir og allt, sem utan um það er, þannig, að þegar allt eða flest er gleymt í þessu sambandi, mun þátttöku þessa flokks í stj. verða minnzt og hún vera fræg að endemum. Því ætti hv. þm. ekki að minnast á, hvernig Sjálfstfl. kom í ríkisstj. né hvernig það samstarf var.