19.11.1943
Neðri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

135. mál, áveita á Flóann

Frsm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Landbn. hefur haft frv. þetta til athugunar og reynt að afla sér svo ýtarlegra upplýsinga sem unnt er. M. a. fékk hún umsjónarmann Flóaáveitunnar til viðtals við sig og hjá honum mikilsverðar upplýsingar, sem n. byggir mikið á. Samkv. skýrslum, sem n. hefur aflað sér, eru það samtals 1455 ha. lands frá 56 jörðum í 6 hreppum á Flóaáveitusvæðinu, sem ríkinu hafa verið afhentir. Verð þessa lands er að meðaltali 47 kr. hver ha. af áveitulandi og um 30 kr. af þurrlendi. Af þessu landi hefur ríkið tekið um 230 ha. til framræslu sem undirbúning undir fyrirhugaða ræktun og nýbýlastofnun, hina svokölluðu Síberíu. Eftir eru allstórar landspildur, sem liggja að jörðum ríkissjóðs í þessum sveitum, svo sem Stokkseyrartorfunni o. fl. N. telur ekki rétt að ráðstafa þeim, því að enn er óráðið, hvernig með þau skuli fara, og er sennilegt, að á ýmsum stöðum sé aðstaða til nýbýlastofnunar, en það mál hefur ekki verið athugað sérstaklega, svo að n. sé kunnugt.

Þá eru nokkur lönd, þar sem svo hagar til, að sameina má nokkrar spildur með makaskiptum, svo að skilyrði sköpuðust til nýbýlamyndunar. Þar, sem svo hagar til, telur n. ekki rétt að selja þær spildur. Loks eru eftir smáspildur á víð og dreif, áveitusvæði, sem bæði eru svo lítil og liggja þannig, að allir eru sammála um, að ekki sé hægt að reisa á þeim nýbýli, og er ekki annað að gera við þær en sameina þær nágrannajörðunum. Þessar smáspildur hefur ekkert verið gert fyrir síðan ríkið eignaðist þær. Á sumum voru komnir flóðgarðar, en þeim hefur ekki verið haldið við, og ekkert hefur verið gert til að fullnægja þeim kröfum, sem gera verður til landeiganda. Eignarráð ríkissjóðs á þessum spildum hafa valdið því, að bændur, sem eiga land að þeim, hafa tæplega getað fengið fulla áveitu á lönd sín. Það er því eðlilegt, að þeir óski eftir breyt., helzt á þennan veg. N. telur eðlilegast, að þetta verði leyst svo, að þessar smáspildur verði seldar, en ekki þó, eins og frv. gerir ráð fyrir, eingöngu þeim, sem létu land af hendi á sínum tíma, heldur þeim, sem hafa mesta þörf fyrir það að dómi Búnaðarfélags Íslands og hreppsn., því að n. leggur til, að hreppsn., sem hlýtur að vera einna kunnugust högum og háttum, hafi atkv. um þetta.

Ég gleymdi að geta þess, að n. ætlazt til, að þar, sem lönd liggja svo, að kauptúnin hafa mikla þörf fyrir þau og geta notfært sér þau fyllilega, verði þeim lofað að sitja fyrir.

Að endingu leggur n. til, að sett verði lágmarkssöluverð á það land, sem selt verður samkv. frv.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið. Brtt. n. skýra sig sjálfar, og vænti ég, að frv. verði samþ. með brtt. n.