02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

135. mál, áveita á Flóann

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Herra forseti. Þetta frv. hefur nú verið samþ. í Nd., og hefur það orðið niðurstaða landbn. þessarar d. að mæla með því óbreyttu. Ég tel óþarfa að rekja feril þessa máls. Það gengur út á mjög einhliða aðgerðir, þ. e. a. s. að gefa jarðeigendum Flóaáveitusvæðisins kost á því að kaupa af ríkinu landspildur þær, er þeir hafa á sínum tíma afhent upp í áveitukostnað. Þessi málaleitan, sem nú er farið fram á með þessu frv., á rót sína að rekja til þess, að það hefur komið á daginn, eftir því sem tímar hafa liðið, að þessar smáspildur, sem ríkið hefur eignazt á þennan hátt, eru mjög óhentug séreign, hvort heldur það er fyrir ríkið eða einstaklinga, af því að þær liggja svo óhentuglega og kljúfa í sundur jarðir, svo að þær í raun og veru verða hvorki fugl né fiskur. Hér er einungis átt við smæstu spildur, svo að ætla má, að þær verði óhæfar til sérnotkunar, enda kemur það ekki til greina, því að engin söluheimild er veitt til þess samkvæmt þessu frv. Það er Búnaðarfélag Íslands, sem er falið að taka ákvarðanir um það, með hvaða verði þessar landspildur verða seldar og að jörðunum verði ekki afhentar svo stórar spildur, að hægt verði að hagnýta sér þær út af fyrir sig, og samkvæmt 1. gr. þessa frv. eru sett þau skilyrði, sem eiga að tryggja þetta.

Það er eitt atriði, sem vert er að minnast á og getið er um í grg. landbn., en það er hið óhentuga orðalag, sem kemur fram í 2. gr. frv., vegna þess að það getur gefið í skyn, að þessar spildur megi selja hverjum, sem vera vill. Við vildum því taka þetta fram, vegna þess að við álítum, að það geti orðið mjög óhentugt í framkvæmdinni að opna svo víðar dyr með þessari afhendingarheimild og geti það jafnvel leitt til togstreitu um það, til hvaða jarða spildurnar eiga að lenda. Við gerum því ráð fyrir því, að eina skýringin á þessu atriði sé sú, að þeir sömu jarðeigendur, sem spildur voru upprunalega teknar frá, eigi þennan forkaupsrétt og aðrar jarðir komi ekki til greina, því að vitað er, að kæmi til uppboðsþinga, gætu rísið upp hinar illkynjuðustu deilur, eins og oft hefur komið fyrir.

Að því athuguðu, að landbn. gerir ráð fyrir því, að hér verði um endurkaup að ræða til þeirra jarða, sem spildur voru teknar frá, get ég því lokið máli mínu og legg til, að frv. verði samþ. eins og það er, þrátt fyrir þessa ágalla, sem á því eru með óljósu orðalagi.