17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

163. mál, útsvarsinnheimta 1944

Gísli Jónsson:

Þetta frv. er í aðalatriðum eins og frv., sem var afgreitt hér á þinginu í fyrra. Þó er eitt atriði í þessu frv., sem horfir til bóta frá því fyrra, þar sem hér er gert ráð fyrir 40% greiðslu í stað 50%. Er hér því um að ræða 10% minna ranglæti en þá.

En hér er annað atriði, sem horfir til hins verra, en það er, þegar einungis skal greiða ½% vexti af ofgoldnum útsvörum. Þykir mér helzt sem þar eigi að fara að refsa gjaldþega fyrir, að hann greiðir gjöld fyrir gjalddaga.

Í sambandi við 3. gr. frv. vil ég segja það, að þar er um nokkra breyt. að ræða frá l., sem sett voru fyrr um þetta atriði. Maður, sem greiddi í fyrra 50 þús. kr. í útsvar, en átti ekki að greiða nema 25 þús. og var því endurgreitt það, sem umfram var útsvar hans endanlega, hann átti að fá til baka vexti af öllu því, sem hann hafði greitt of mikið. Og mér er persónulega ljóst, að í þessu efni hefur bæjarsjóður Reykjavíkur hlunnfarið gjaldendur sína, þannig að hann hefur neitað að greiða samkv. þessum l. dráttarvexti af því fé, sem hann hefur tekið of mikið af gjaldendum í bili, fyrir þann tíma, sem það fé hefur verið í vörzlum bæjarsjóðs. En nú er hér sett inn, að ef ekki er þegar greitt allt útsvarið, þegar álagningu útsvara er lokið, þá þurfi ekki að greiða vexti af því fé, sem umfram hefur verið greitt af útsvarinu miðað við gjalddaga, þ. e. vexti af því fé, sem bæjarsjóður hefur í vörzlum sínum sem útsvör greidd fyrir gjalddaga. En ef maður er ekki skyldugur til að greiða meira en 40% af útsvari sínu fyrir vissan tiltekinn tíma, þá á hann ekki að bera vaxtabyrði nema af því fé, sem hann er skyldugur til að vera búinn að greiða. Hér er heimtað að maður greiði 40%o af útsvari sínu, áður en það er lagt á. Og ef 40 % af álögðu útsvari ná ekki því, sem áætlað var og gjaldandinn greiddi á þeim gjalddögum, sem til eru teknir í frv. 1. marz til 1. maí, þá á hann eftir frv. ekki að fá vexti af því fé, sem hann hefur raunverulega greitt umfram 40% af útsvarinu. Þetta er ekki annað en ágengni. Ég óska, að ákvæðin um þetta verði færð í það sama horf sem var í fyrra, ef þetta frv. verður samþ. á annað borð, — og síðan óska ég náttúrlega, að bæjarsjóður beygi sig undir l. og greiði þá vexti, sem greiða ber, því að það var ætlazt til þess, þegar 1. voru samin í fyrra, að þetta yrði haft á þann veg, sem ég hef hér haldið fram, að skyldugt væri. En þó að ég óski, að bæjarsjóður fari eftir þessum l., ef þau verða höfð áfram, þá er ég náttúrlega algerlega á móti því, að frv. verði samþ. En það er nú viðurkennt af hv. flm. frv., að hann vilji fá þessa breyt., sem 3. gr. felur í sér, til þess að tryggt sé, að málið megi taka á þennan hátt, sem þar ræðir um, þannig að það sé lögboðið að taka af mönnum gjöld, sem eru ekki fallin í gjalddaga. Og vísa ég þar um til ummæla minna um það á síðasta þingi, að hér er verið að skýra stjskr. á allt annan veg en gert var hér við umr. um annað mál. Hafði þá hv. 6. þm. Reykv. allt annan skilning á því atriði í sambandi við það mál en í þessu máli hér.