17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

163. mál, útsvarsinnheimta 1944

Flm. (Bjarni Benediktsson) :

Ég býst við, eins og hv. þm. Barð. sagði, að um það gangi dómur, hvað felst í l. frá því í fyrra, sem þetta frv. er flutt sem framlenging á. En ég sé ekki ástæðu til þess að vera með neinar yfirlýsingar um það efni. Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. sé efnislega það sama og l. frá í fyrra. En orðalagið er ótvíræðara í þessu frv. en í l. í fyrra, eins og hv. þm. Barð sagði.

Varðandi það, sem þessi hv. þm. sagði um 2. gr., vil ég einungis ítreka það, sem ég sagði og átti við þá gr. Hv. þm. mótmælti því yfirleitt, að heimtaðir væru dráttarvextir af útsvörum vegna þeirra gjalddaga, sem til eru teknir í frv. En þar er því til að svara, að ákvæði þessa frv. láta útsvörin vera fallin í gjalddaga á þessum þar tilteknu tímum, þó að hv. þm. Barð. vilji ekki viðurkenna það.

En varðandi það, hvort greiða eigi vexti af þeim upphæðum, sem menn hafa greitt sem útsvör í bæjarsjóð meira en þeim bar að greiða á þessum tiltekna tíma, en þó innan þeirra takmarka, sem þeir endanlega eiga að greiða í útsvör, það er annað atriði, og ég skal fúslega játa, að ég legg ekki höfuðáherzlu á það atriði. Það kemur fyrir í einstaka undantekningum og skiptir ekki verulegu máli. Ég sé þó ekki ástæðu til að greiða vexti af því fé, vegna þess að mennirnir eiga að greiða þetta á árinu og geta nokkuð séð fyrir fram, hvað þeir muni koma til með að þurfa að greiða. Og ef menn munar nokkuð verulega um þetta, hafa þeir sömu menn, að því er gera má ráð fyrir, ástæður til að sjá, hvort útsvör þeirra hækka eða lækka, og borga þá ekki meira en það, sem þeir gera ráð fyrir, að verði þeirra endanlega útsvar. Og þá koma ekki til greina neinir dráttarvextir, sem bæjarsjóður innheimtir hjá þeim, ef í ljós kemur, að þeir hafi goldið nóg. Þetta ákvæði verður því, ekki til neinna vandræða. Þess vegna legg ég til, að frv. verði samþ. óbreytt. En þó að þessu eina atriði frv. væri breytt, mundi það að vísu ekki gera skaða.

Ég vil afturkalla þá ósk mína, að frv, verði vísað til fjhn., og óska, að því verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn., sem málið heyrir öllu frekar undir.