25.11.1943
Efri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

163. mál, útsvarsinnheimta 1944

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Það var í raun og veru rætt um þessar brtt. við 1. umr. málsins hér í þessari hv. d. Og ég vil ítreka það, sem ég benti á þá þegar, að ég hygg, varðandi dráttarvextina, að það er vitanlega sjálfsagt að láta sömu reglur gilda um dráttarvexti í þessum l. eins og öðrum l. Ef hv. þm. Barð. bæri fram frv. um, að dráttarvextir, sem ætlaðir eru til þess að knýja fram greiðslur á opinberum gjöldum, væru lækkaðir og fengi því máli framgengt, þá væri sjálfsagt að hafa þessa dráttarvexti í samræmi við þá reglu. En meðan hann gerir ekki einu sinni tilraun til þess að fá slíka almenna lækkun á dráttarvöxtum, þá er engin ástæða til þess að gera það í þessu tilfelli, vegna þess að það er ekkert annað gert með þessu frv. en að færa gjalddaga útsvaranna til. En hv. þm. Barð. getur aldrei skilið þetta. En efni frv. er þetta, og úr því að gjalddaginn er færður til, þá eiga sömu viðurlög að gilda hér og almennt gilda um dráttarvexti til þess að greiða á réttum gjalddögum. Og ég veit það, að þegar hv. þm. Barð. veit, að hér eru ákveðnir sérstakir og nýir gjalddagar útsvaranna, þá hlýtur hann að átta sig á því og taka afleiðingunum af því.

Annars þýðir ekki mikið að deila um þetta atriði. Þessum hv. þm. hefur svo oft verið á þetta bent, að ef hann skilur þetta ekki nú, býst ég varla við, að hann geri það síðar.

Þessi hv. þm. sagði, að það væri sjálfsagt óþarfi að taka dráttarvexti af mönnum vegna útsvarsgreiðslna, þar sem ég hefði látið af því, að menn hefðu verið svo mjög ánægðir með að greiða útsvör sín á þessum gjalddögum. Það er rétt, að það kom í ljós almenn ánægja yfir því hjá gjaldendum að greiða útsvör sín á þessum gjalddögum, sem ákveðnir voru á síðasta þingi, og sannleikurinn er sá, að dráttarvextir hafa engin áhrif á fúsleik alls þorra manna til þess að greiða gjöld sín, því að flestir greiða þau án lagaþvingunar. En þó að allur þorri manna sé ánægður með það að skipta greiðslunum eins og hér er ráðgert, þá eru eftir þeir, sem dráttarvöxtunum þarf að beita gegn, og það eru skuldaþrjótarnir og þeir, sem aldrei fást til þess að greiða gjöld sín nema með illu. Og það er ekki ástæða til að taka vægilegar á þeim en öðrum.

Varðandi síðari brtt. á þskj. 497 get ég vitnað til ummæla minna við 1. umr. Það sýnist ekki ástæða til þess, að bæjarsjóður greiði vexti af útsvarsupphæðum, ef gjaldandinn hefur ekki greitt meira en hann endanlega á að greiða í útsvar á því ári, enda þótt hann hafi borgað einhvern hluta af því fyrr á árinu en hann endilega var skyldugur til. En eftir frv., eins og það er, ber bæjarsjóði ekki að greiða vexti af slíkum upphæðum, ef gjaldandinn hefur ekki greitt meira en honum ber endanlega að greiða á því ári. Og mér virðist það liggja alveg í augum uppi, að stefna frv. sé rétt í þessu efni. Þetta skiptir að vísu ekki ákaflega miklu máli. En brtt. um þetta atriði er til ills og er byggð á röngum forsendum. Ég vonast því til, að hv. d. felli báðar þessar brtt. hv. þm. Barð., en samþ. frv. óbreytt.