09.12.1943
Efri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

157. mál, happdrætti

Frsm. (Magnús Jónsson):

Frv. þetta var flutt í Nd. af fjórum þm. þar, og var það þá upphaflega um 10 ára framlengingu á einkaleyfi háskólans til þess að reka happdrættið. Þetta frv. fór þá til fjhn. Nd., sem mælti með því og framlengdi leyfið til ársins 1960. Frv. er svo komið hér til þessarar hv. d. og var athugað af fjhn., og er hún sammála um að mæla með frv. að öðru leyti en því, að einn nm., hv. 3. landsk., óskaði að hafa óbundnar hendur um það, taldi sig á fundi n. ekki geta tekið afstöðu til þess að svo vöxnu máli, án þess að hann tilgreindi ástæður fyrir því. Ég held því, þar sem svo einróma undirtektir hafa verið á Alþ. um þetta mál, að ég geti verið fáorður um það, ef ekki kemur fram neitt sérstakt tilefni til umr.

Happdrættið hefur verið rekið af háskólanum í 10 ár, og eru það svo nákvæmlega 10 ár, að á morgun mun fara fram síðasti dráttur 10. ársins. Ég held, að happdrættið hafi á engan hátt brugðizt vonum manna, það hefur verið notað í því skyni að reisa þau hús, sem háskólinn þarfnast. Aðalbyggingin, háskólahúsið sjálft, er komin upp og sömuleiðis atvinnudeildin. En það er svo langt frá því, að lokið sé því verkefni, sem gert var ráð fyrir að leysa af hendi samkvæmt l. eins og þau voru upphaflega, að reisa hús fyrir háskólann. Alþ. hefur jafnan orðið við óskum háskólaráðs og happdrættisstjórnarinnar, um nauðsynlegar breyt., sem hefur þurft að gera á þessum l., t. d. árið 1940, þá var einkaleyfið framlengt um 3 ár vegna hinnar óvæntu dýrtíðar, því að það var þá sýnilegt, að 10 ára afrakstur gat ekki enzt til þess að ljúka við þau mannvirki, sem þá var verið að koma upp. Sömuleiðis hefur Alþ. tvisvar orðið við óskum happdrættisstj. um að breyta verði á miðum, þegar séð var, að tekjur happdrættisins mundu verða rýrar vegna dýrtíðarinnar, ef haldið yrði sama verði á miðunum.

Þegar litið er á rekstur happdrættisins, þá kemur það í ljós, að hann hefur verið svo að segja óbreyttur hvað starfsfólkið snertir, þrátt fyrir hina miklu veltuaukningu. Kostnaður við rekstur happdrættisins, ef frá eru taldir vinningarnir, sem hafa verið um 70% af reksturskostnaðinum, hefur verið: Til umboðsmanna 7% af söluverði miðanna; allur annar kostnaður, stjórn happdrættisins, happdrættisráð, auglýsingar o. s. frv., hefur verið á milli 6 og 7% öll árin, og féð hefur því farið, eins úrgangslítið og unnt hefur verið, til þess að vinna það hlutverk, sem því var ætlað að vinna. Það, sem helzt kemur þá til greina, er það, hvort menn telja rétt að halda happdrættinu áfram og reisa hús á háskólalóðinni, sem ríkið þarf að koma upp, eða hvort heppilegra þyki að fara nú að verja þessu fé til einhvers annars. Nd. hefur einróma fallizt á að halda happdrættinu enn um sinn í sama horfi eins og verið hefur, á meðan nóg verkefni eru fyrir það, svo sem að koma upp leikfimihúsi, náttúrugripasafni og þjóðminjasafni.

Ég vil fyrir hönd fjhn. mælast til þess, að hv. d. afgr. þetta mál sem allra fyrst, og án þess að það skipti nokkru máli vil ég geta þess, að það hefði auðvitað verið mjög skemmtilegt að geta afgr. þetta mál nú, þar sem happdrættið á 10 ára afmæli á morgun. En aðalatriðið er auðvitað, að happdrættið fái þessa framlengingu.