09.12.1943
Efri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

157. mál, happdrætti

Jónas Jónsson:

Hv. 1. þm. Reykv. lauk ræðu sinni með því að segja, að það væri aðalatriðið fyrir happdrættið, að þetta frv. yrði samþ. sem fyrst og helzt á morgun. Mér finnst þetta vera nokkuð táknrænt fyrir meðferð málsins, og það er víst, að þeir menn, sem settu þessi l. fyrir 10 árum, hafa ekki gert ráð fyrir, að þannig yrði á málið litið nú, að það yrði talið aðalatriðið að flaustra málinu svo í gegn, og grunur minn er sá, að mjög margir af þeim hv. þm., sem hafa með málið að gera nú, hafi alls ekki munað eftir því, að það er ákveðin lína í l. nr. 44 frá 1933, sem nú er verið að brjóta. Til þess að gera það alveg ljóst, hvað hér er á ferðinni, ætla ég að segja fáein orð um málið almennt. Þegar afráðið var að láta háskólann fá þetta happdrætti fyrir 10 árum til þess að koma upp þessum byggingum, vissu menn það vel, að hér vantaði stjórnarráðshús og hús fyrir hæstarétt o. fl. Það var gert fyrir háskólann að leggja þetta fé í 10 ár til hans, en jafnframt var ákveðið, hvaða byggingar kæmu næst, þegar lokið væri við háskólann, og þess vegna lá það beinast við, að Alþ. ákvæði, að næsta bygging væri stjórnarráðshús. En út af þessu mun ég verja nokkrum orðum til þess að gagnrýna þessa aðferð, sem hér er höfð.

Til þess að það sé rétt að gera það, sem hv. 1. þm. Reykv. mælti með, verðum við að slá því föstu, að það sé meiri nauðsyn að koma upp byggingum á háskólalóðinni heldur en að byggja yfir hæstarétt og stjórnarráðið og menntaskólann. En ég neita því, að þetta sé rétt. Það hefur verið talið, að okkur vantaði peninga til þess að byggja yfir hæstarétt og stjórnarráðið. Áður en málið fer úr hv. d., er hún því spurð um það, hvort eigi heldur að girða háskólalóðina og slétta fyrir þessa peninga eða búa svoleiðis að stjórnarráðinu og hæstarétti og menntaskólanum, að það sé að einhverju leyti frambærileg aðstaða, að maður ekki tali um opinberar byggingar annars staðar á landinu. Ég ætla þá, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp fáein orð úr stofnlögum happdrættis Háskóla Íslands, sem gerð voru fyrir 10 árum. 2. gr. hljóðar svo: „Þegar nægilegs fjár hefur verið aflað til þess að reisa hús handa háskólanum, skal ríkið taka happdrættið í sínar hendur og reka það á þann hátt, sem fyrir er mælt í lögum þessum. Hreinum tekjum af happdrættinu skal varið til þess að mynda sjóð, sem nefnist Byggingarsjóður Íslands. Skal tekjum sjóðsins varið samkvæmt ályktun á fundi í sameinuðu þingi í hvert skipti, til þess að reisa opinberar byggingar, eftir því, sem til vinnst og þörf krefur.“

Þessi stofnlög happdrættisins ætlast til þess, að reist verði hús handa háskólanum, og það hefur verið gert á meðan stjórnarráðið vantaði hús. Það er ekkert einsdæmi, þó að till. sem þessi komi fram. Hér stendur nokkuð líkt á og með þjóðleikhússjóðinn, sem ríkið stofnaði með l. 1923. Þá gekk þingið inn á þá braut að stofna sjóð með því að taka skemmtanaskatt — til þess að koma upp leikhúsi fyrir Íslendinga. Það mætti gagnrýni, og menn sögðu, að það væri ekki þægilegt að missa þennan styrk, en gengu inn á þetta. Síðan kom hlykkur á þennan sjóð og honum var ekki varið til að byggja, en nú hefur Alþ. rétt það við aftur og lýst því yfir, að eftir tvö ár sé hægt að gera ráð fyrir, að leikhússjóðurinn geti lokið við húsið. En þá leiðir af sjálfu sér, að það var eðlilegt, að þetta fé væri notað til annars. Ég býst við, að sumir staðir utan Reykjavíkur vildu, að þeim væri með l. fengin þessi aðstaða, t. d. í kaupstöðunum. Það gat komið til mála að halda þessu áfram til þess að safna fé til þess að byggja fyrir opinberar byggingar í Reykjavík og annars staðar. En í staðinn fyrir það kemur tillaga frá leikfélagi hér í bænum, sem er hliðstæð við þá hugsun, sem hv. 1. þm. Reykv. er hér með, fundarályktun frá félagi leikara um að stofna 15 föst embætti við þjóðleikhúsið, þegar húsið er tilbúið. Þetta getur varla verið hugsanlegt, að leikarar hafi getað látið koma sér til hugar öðruvísi en þannig, að skemmtanaskatturinn gengi áfram, þegar búið er að byggja húsið, til þessara manna, sem vildu vinna við það. Nú hefur þetta að vísu ekki verið samþ. En ég tek þetta sem táknrænt dæmi fyrir Alþ. um, að þegar það leggur fé fram til þess að koma upp fyrirtækjum eins og háskólanum og leikhúsinu, og gerir það með stórhug, þá koma þeir, sem að þeim stofnunum standa, og vilja gera þetta að eilífu bitbeini fyrir sig. Hér í þessu máli hefur hæstv. Alþ. verið beinlínis að láta leika á sig, og það er aðeins þessi hv. d., sem getur rétt þetta við. Og ég mun færa rök fyrir því, að það er ekki frambærilegt að samþ. það, eins og sakir standa. Ég hef nefnt leikhúsið til þess að sýna, að Alþ. verður að vera á verði um það, að hlunnindi, sem veitt eru um stutta stund, eiga ekki að verða persónuleg réttindi þeirra, sem hafa fengið þessi réttindi á réttmætan hátt um stund fyrir atbeina þess opinbera. Það, sem réttlætti ákvæði laga nr. 44 frá 1933, var það, að sú tekjuöflunarleið var fyrir hendi hér, en ekki notuð hér áður, að reka happdrætti, heldur höfðu útlend lotterí fengið tekjur með því frá Íslendingum um langt skeið. Það var því sjálfsagt að leyfa þeim, sem vildu spila áhættuspil, að gera það hér heima. Og Alþ. ákvað að gera það til þess að stofna sjóð til þess að byggja opinberar byggingar til margra þarfa. Svo er háskólinn tekinn og látinn fá tekjur þess til 10 ára. Og þegar dýrtíð gerði það óframkvæmanlegt að ljúka við húsið nema með því að framlengja þessi hlunnindi til háskólans, þá var það gert, og það með fullkomnum höfðingsskap. En nú er búið að fullnægja þeim tilgangi að byggja myndarlegt hús fyrir háskólann, og meira að segja ákaflega myndarlegt hús. Og þar af leiðir, að eftir upprunalega tilganginum með stofnun happdrættisins og þörfum þjóðarinnar á að fara að sinna öðrum málum með þessum tekjum.

Af því að hv. 1. þm. Reykv. kom inn á það, hvort háskólinn á að fá það fé áfram, sem með þessari tekjuöflun fæst, þá verð ég — þar sem hér er gert ráð fyrir að brjóta anda l. frá 1933 — að taka til meðferðar, hvað það er, sem vakað hefur fyrir löggjafanum fyrir 10 árum síðan. En áður en ég kem að því, þá vil ég víkja að því, hvernig rektor háskólans rökstyður það, að háskólinn fái þessar tekjur áfram. Hann neitar því ekki, að það sé búið að reisa byggingu háskólans. En hann hefur sagt: „Það er eftir að laga lóðina og girða hana, og svo vantar leikfimihús“, — og það er rétt, að það vantar leikfimihús. En svo kemur hann inn á hlut, sem er alveg óviðkomandi háskólanum, byggingu yfir náttúrugripasafn. En það er ekkert í l. um háskólann um það, að háskólinn eigi að blanda sér í það að koma upp söfnum. Háskólinn er menntastofnun. Og það er móðgun við Alþ., að hann tali um að koma sjálfur upp náttúrugripasafni. Það er eins og hann álíti, að Alþ. viti ekki, að það þarf að byggja yfir það. Og það er ekki í verkahring háskólans að skipta sér af því. Viðvíkjandi leikfimihúsinu vil ég segja það, að það er enginn, sem hefur sagt, að ekki sé hægt að hafa leikfimisal í háskólabyggingunni sjálfri. Þeir, sem hafa byggt háskólann, hafa haft ákaflega mikið fé handa á milli, og þeir hafa notað stórkostlega mikið pláss í háskólanum til þess að geyma í mannabein. Mjög mikill hluti af háskólanum er hafður til þess að geyma í mannabein og svoleiðis hluti. (BBen: Hvað fleira en bein af slíkum hlutum?) Það er væntanlega eitthvað meira úr manninum, sem ég býst við, að fyrrverandi prófessorinn hafi séð þar. En þessi fyrrverandi prófessor er kunnugur því, að það er mikið beinasafn, sem er í þessu húsi, sem er sjálfsagt gagnlegt, en sýnir, að meiri stund hefur verið lögð á bein þeirra dánu heldur en bein þeirra lifandi manna. (SBen: Eru ekki bein lifandi manna þar líka?) Ja, bein borgarstjórans eru komin þaðan burt, sem ég býst við, að hafi verið skaði, og önnur bein komin þangað í staðinn.

Hv. 1. þm. Reykv. hefur fyrir skömmu haft þann vanda og ánægju að vera ráðh. Og honum er sjálfsagt ekki ókunnugt um það, að stjórnarráð Íslands er nú í 5 eða 6 deildum. Gamla stjórnarráðshúsið var upphaflega byggt fyrir fangelsi, em er orðið svo lítið, að ríkisstjórnin er farin á flótta út um bæinn. Og ef maður tekur stjórnarráðsbygginguna, sem var heiðarlegt tugthús á sínum tíma, en ekki miðað við þann metnað, sem okkar þjóð gerir til stjórnarráðshúsbyggingar, þá er sú bygging óhæfileg bygging fyrir það, sem á að nota hana til. Og vil ég sérstaklega benda á það, að það er ekki sennilegt annað heldur en að þetta gamla hús með öllu, sem í því er, gæti brunnið á 10 eða 15 mínútum, hvenær sem eldur kviknaði í næsta húsi, þar sem þetta er timburhús. Og í þessu húsi er aðalstöð stjórnar landsins. Að húsið er ófullnægjandi, hefur orðið til þess, að starfsemi stjórnarráðsins er dreifð út um allan bæ, og það er svo niðurdragandi fyrir alla vinnu þar sem mest má verða. Það er ekki vafi á því, að það er ekki samboðið virðingu landsins að ætla ríkisstj. að vinna í þessum húsakynnum.

Hv. 1. þm. Reykv. vill nú láta tekjur happdrættisins halda áfram að ganga til háskólans til þess að girða háskólalóðina og slétta hana. En af hverju er ekki búið að reisa stjórnarráðshús fyrir löngu? — Af því að ekki voru peningar til þess.

Og svo kem ég að hæstarétti. Hann er í þeim húsakynnum, að dómarar kveinka sér við því að láta t. d. útlenda stéttarbræður sína sjá sig í þessum húsakynnum, þó að þeir hafi verið svo þolinmóðir að vinna í þessum húsakynnum. En þeir vita, að þessi eymdaraðstaða getur ekki annað en kastað skugga á hæstarétt, a. m. k. í augum ókunnugra. Og nú er ekki sjaldan, sem þarf að fara til hæstaréttar með mál, sem ekki aðeins snerta okkur, sem þekkjum okkar fátækt, heldur snerta útlendinga líka. Og þá kemur að þessu. Er hv. 1. þm. Reykv. sannfærður um það, að girðing utan um háskólann og sléttun á lóð hans sé nauðsynlegri framkvæmd heldur en að byggja yfir hæstarétt? Og hvers vegna hefur ekki verið byggt yfir hæstarétt? — Vegna peningaleysis.

Þá kem ég að þriðja atriðinu, þessari stofnun, sem við erum hér í. Hún hefur um langan tíma sýnt háskólanum gestrisni með því að hleypa honum inn í sitt hús, sem hefur verið til óþæginda fyrir Alþ. Nú hefur rýmkazt húsrúm Alþ., þó að það sé fjarri því, að þetta hús sé fullnægjandi fyrir Alþ., sem er ekki von. Þetta hús var ákaflega virðuleg bygging fyrir 60 árum og til sóma þeim, sem að þeirri byggingu stóðu. En nú er þingið miklu stærra en þá og margar tekniskar breyt. orðnar. Nú er sú breyt. orðin á t. d. síðan húsið var byggt, að við höfum 4 til 5 menn í ríkisstjórn, en í öllum húsakynnum þingsins er ekki einn einasti krókur, sem þessir 4 til 5 ráðh. hafa til þess að vinna í. Þegar einhverjir þm. vilja tala við ráðh., verða þeir að biðja þá að koma með sér út í gluggakistu og tala við þá þar. Þetta er eitt atriði, sem sýnir, hve gífurlega fjarstætt er að bera saman þörf þessarar stofnunar til húsabóta og það, sem háskólinn hér fer fram á. En að því slepptu, hvernig ástandið er um þetta, sem ég hef nefnt, er skrifstofuaðstöðu þingsins til þess að vinna hér, þá er enn ótalið, að aðkomuþingmenn þurfa að eiga tryggt húsnæði. Og ef byggt væri yfir Alþ., þá væri ekkert eðlilegra en að þingmannabústaðir fyrir utanbæjarþingmenn væri einnig í þeirri byggingu. Þessu hefur alveg verið gleymt. Og ég vil spyrja hv. 1. þm. Reykv., hvort honum finnist girðing í kringum náskólalóðina og sléttun hennar nauðsynlegri heldur en það að ganga svo frá þessu húsi, að t d. ráðh. gætu haft einhverja aðstöðu til að vinna hér, og að þm., sem verða kannske fleiri heldur en færri með tíð og tíma, væru ekki alveg eins og útlagar í þessum bæ. En þingið hefur verið svo elskulegt, að það hefur hugsað miklu meira um háskólann en sjálft sig, að það virðist nú vilja láta hann hafa peninga, sem að réttu lagi hefði átt að verja annaðhvort til að byggja stjórnarráðshús eð þinghús. (BBen: Er ekki fallegt að vera óeigingjarn? ) Jú, og þess vegna álít ég rétt af Alþ. að kenna háskólanum óeigingirni. — Úr þessum húsaskorti þess opinbera held ég að mætti bæta á skynsamlegastan hátt með því að nota tekjur happdrættisins til þess að byggja hús fyrir stjórnarráðið og alþingishús, og gæti þá hæstiréttur væntanlega notað það húsnæði, sem Alþ. nú hefur. Þó að þetta hús sé orðið ófullnægjandi sem þinghús, mundi það vera mjög heppilegt sem dómhöll. Með þessu móti væri þetta mál leyst á viðunandi hátt.

Ég held, að hóf sé bezt á hverjum hlut. Það er búið — til ills eða góðs — fyrir 20 árum að stofna sjóð til þess að byggja leikhús í Reykjavík. Og mér virðist ekki rétt, að næsta sporið sé að setja 15 menn á föst laun fyrir skemmtanaskattinn, sem innheimtist í landinu, heldur mætti það fé ganga áfram til opinberra bygginga í Reykjavík og annars staðar á landinu. Og enn fremur hefur fyrir 10 árum verið stofnaður sjóður til þess að háskólinn fengi þak yfir höfuðið, sem hann er búinn að fá mjög virðulegt. Og þá á hann ekki að sýna þann ágang að taka þessa peninga, sem framvegis koma með þessari tekjuöflun, happdrættinu, frá Alþ., sem þarf að nota þá til þess fyrst og fremst að bæta sín starfsskilyrði og í öðru lagi stjórnarráðsins, og er ekki rétt ráðstöfun á þessu fé að láta fremur háskólann hafa það en þessar stofnanir. Þess vegna álít ég, að það eigi að vísa þessu máli frá afgreiðslu, og mun ég koma með rökst. dagskrá um það, þar sem það verður að teljast heppilegra að fylgja stofnlögunum frá 1933 og háskólabyggingunni er nú lokið, og þá verði fénu varið fyrst og fremst til að byggja yfir stjórnarráðið og Alþ. eða aðrar slíkar stofnanir, en minna í girðingu kringum lóð háskólans suður á Melum.