07.12.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

27. mál, fjárlög 1944

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að hafa mörg orð um fjárl. að þessu sinni. Það er aðeins vegna þess að ég flyt hér nokkrar brtt., að ég tek til máls. Reyndar kynni einhverjum að hafa orðið það á að minnast nokkuð á samanburð, sem hér hefur nokkur verið gerður á því, hve miklu væri varið til einstakra héraða. Það var hv. þm. Barð., sem hér fór nokkuð út á þá braut, þótt það væri hvorki sundurliðað né greinilegt, en það var látið skína í það, að viss héruð væru tekin fram yfir önnur, sem þá væru látin sitja á hakanum. Þegar hv. þm. fer út í þennan samanburð, þá tilnefnir hann ætíð Suðurland sem þann landshluta, sem hirði mest af því fé, sem varið sé til verklegra framkvæmda. Það hefur alltaf legið heldur fjarri mér að vera með slíkan samanburð, enda þótt ég þori vel að fara út í það, því að ef þetta væri gert, þá mundi það koma í ljós, að Suðurlandsundirlendið fær sum árin ekki meira, heldur miklu minna en sum önnur héruð landsins. Þótt ég drepi á þetta, þá er það samt ekki vegna þess, að ég öfundist yfir því, sem önnur héruð hafa fengið. Ég hef ætíð hér á Alþ. reynt að mæta helzt þeim óskum landsmanna, sem ég hef talið, að væri mest þörf á að uppfylla, og eftir því sem geta ríkissjóðs hefur verið á hverjum tíma. Ég vil einnig í fullri vinsemd benda hv. þm. Barð. á það í sambandi við það, að hann var að tala um framlag til Suðurlandsbrautarinnar um Krýsuvík, að þessi vegur er ekki eingöngu í þágu þeirra, sem búa í Árnes- og Rangárvallasýslum. Hann er einnig í þágu íbúa Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og þeirra, sem búa hér suður með sjó. Með öðrum orðum, þessi vegur er í þágu nærfellt helmings allrar þjóðarinnar. Þetta verður hv. þm. að taka með í reikninginn. Svo verður hann einnig að taka það með í reikninginn, að þær greiðslur, sem fara til samgangna á sjó, koma mjög í þágu þeirra héraða, sem hann ber mest fyrir brjósti. Það er rétt, að fram til síðustu ára hefur nær ekkert verið veitt til samgöngubóta á Vestfjörðum, og samgöngur þar hafa því verið mjög ófullkomnar. En ég vil líka benda á það, að í tvö ár eða þrjú hefur engu fé verið varið til Suðurlandsbrautarinnar, sem er þó í þágu helmings þjóðarinnar.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég vil aðeins í fullri vinsemd benda hv. þm. Barð. á það, og mér gengur gott eitt til þess, bæði vegna hans og íbúa Barðastrandarsýslu, að hann ætti ekki að vera með svona eftirtölur í fjárveitingum til annarra héraða, því að það er hætt við, að með því æsi hann aðra upp á móti sínum till. Ég mun þó ekki láta íbúa Barðastrandarsýslu gjalda þess, en það er ekki víst, að allir séu eins innrættir. Nú væri freistandi að telja það saman, hvað mikið fé fer til Barðastrandarsýslu, en ég mun þó ekki fara út í það, heldur snúa mér að þeim till., sem fyrir liggja.

Það er þá fyrst till. á þskj. 517, XIII. liður, um framlag til þess að gera brú á Hvítá hjá Iðu í Biskupstungum. Eins og hv. þm. vita, þá skiptir Hvítá læknishéraði í tvennt, þannig að það eru þrír hreppar austan árinnar og aðrir þrír vestan hennar og voru áður fjórir, en Þingvallasveitin leitar nú alltaf læknis til Reykjavíkur, enda er það mikið styttra. Nú er það svo, að Hvítá er ekki brúuð nema á einum stað, en það er nærri uppi við Gullfoss eða uppi undir fjöllum. Sú leið er gersamlega ófær bílum að vetrarlagi og alltaf nema þegar allra þurrast er að sumrinu. Svo er engin önnur brú á þessu vatnsfalli nema niður hjá Selfossi. Þegar svo vitja þarf læknis austan yfir Hvítá, — en læknir héraðsins er fatlaður og á erfitt með að ferðast nema í bíl —, ef hans er vitjað úr Hreppum eða af Skeiðum, þá verður hann að fara 160 km. krók, af því að það er engin brú á Hvítá nær. Það má nærri geta, hvað það kostar að kaupa bíl alla þessa vegalengd, enda má heita, að það sé ókleift og ekki á færi annarra en vel efnaðra manna, og þá því aðeins, að þess þurfi ekki oft á ari. En það er þó ekki það versta, heldur er hitt verra, að oft ber svo við, að leiðin er ófær bílum, og þá er einnig svo ástatt, að ekki er heldur hægt að komast yfir Hvítá, hún er þá ófær og það líka bátum. Þá verður héraðið austan Hvítár alveg læknislaust, ef ekki heppnast að fá lækni frá Eyrarbakka, en hann hefur stórt hérað og er oft mjög önnum kafinn, og þá verða menn austan Hvítár að deyja drottni sínum. Því miður kostar þessi brú mikið fé, eða um 600 þús. kr. Hún hefði ekki kostað meira í fyrra, en það má vera, að hún kosti meira nú. Mig langar til þess að beina því til hv. frsm. fjvn., hvort hv. fjvn. hefur ekki haft eitthvað sérstakt í huga viðvíkjandi þessari brú, og ég vildi vita, hvort n., — ef hún ekki sér sér fært að gera till. um smíði hennar nú —, hvort hún þá teldi ekki, að ekki þyrfti að líða á löngu þar til framlag fengist til þessarar brúargerðar. Ég þykist vita, að fyrst fjvn. hefur ekki tekið till. um þessa brúarsmíði upp í sínar till., þá telji hún sér ekki fært að mæla með henni að svo stöddu, en ég vildi gjarnan fá að vita, hvort hv. fjvn. telur ekki, að hægt verði að veita fé til þessarar brúargerðar nú á næstunni.

Ég flyt hér ásamt nokkrum öðrum þm. brtt. á þskj. 517, XX, um byrjunarframlag til bændaskóla Suðurlands. Eins og kunnugt er, viljum við takast á hendur að koma upp nýjum bændaskóla sunnanlands, því að það lætur nærri, að ekki nema helmingur þeirra, sem um búnaðarmenntun sækja, komist á þá búnaðarskóla, sem fyrir eru. Ég vona því, að Alþ. sjái sér fært að fara að sinna þessum málum, því að ég álít, að menntun bændastéttar landsins sé það þýðingarmikið atriði, að Alþ. eigi ekki að láta undir höfuð leggjast að sinna því sem skyldi. Bændastéttin er það þýðingarmikil fyrir þjóðfélagið og störf hennar svo mikilvæg og vandasöm, að það er ekki viturlegt af hálfu hins opinbera að greiða ekki fyrir því, að þessi stétt geti orðið vel menntuð, svo að hún verði sínum miklu vandastörfum vel vaxin, og það því fremur, þar sem margt virðist benda til þess, að bændastéttin verði fáliðuð við störf sín í framtíðinni. Mun ég svo ekki fjölyrða um þetta atriði frekar, því að ég veit, að meðflm. mínir munu gera það nánar.

Þá er ég meðflm. að brtt. á sama þskj., sem fjallar um áhaldakaup og úrkomumælingar á hálendi Íslands og vatnsmælingar í fallvötnum. Ég veit einnig, að aðalflm. mun gera grein fyrir þessu og sýna fram á nauðsyn þessa máls, svo að ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það.

Einnig er ég meðflm. að brtt. á sama þskj., sem fjallar um lítilfjörlegan styrk til handa Jóni Gestssyni, spunavélasmið í Villingaholti, í viðurkenningarskyni í eitt skipti fyrir öll. Mér þykir vel til fallið, að Alþ. sýni honum viðurkenningu, því að hann hefur mikið dagsverk að baki sér, og er starf hans þýðingarmikið í þágu þjóðarinnar.

Loks er á sama þskj. brtt. XLVIII, sem ég flyt ásamt tveim öðrum þm. Kveður hún á um, að greiða eigi eigendum. gistihússins á Stokkseyri í eitt skipti fyrir öll 24 þús. kr. stofnkostnaðarstyrk. Eins og ég hef vikið að áður, hefur nú um nokkurt skeið verið haldið uppi fólksflutningum milli Stokkseyrar og Vestmannaeyja, og tóku því nokkrir menn sig til á Stokkseyri og reistu þar myndarlegt gistihús, en kostnaður við þetta varð meiri en þeir gerðu ráð fyrir. Þarna er alveg nauðsynlegt, að sé gott gistihús, því að þarna ber menn að garði allan sólarhringinn, og koma þeir oft kaldir og hraktir, og er því þýðingarmikið, að þar séu góð húsakynni. Það er mikil óvissa um þessi ferðalög, bæði hvenær menn koma og hvenær menn komast þaðan, t. d. ef vont veður skellur á, svo að þetta veldur því, að rekstur gistihússins er nokkuð óviss og verður miklu kostnaðarsamari, og má benda á það, að lítið er upp að hafa á veturna. Einnig vildi ég geta þess, að tekjur þeirra manna, sem réðust í þetta, verða mun minni en þær þyrftu að vera, vegna þess að byggt var á svo dýrum tímum. Ég vænti því þess, að Alþ. sjái sér fært að veita þeim þennan lítilfjörlega styrk, því að það var af mikilli nauðsyn gert, að þessum ferðalögum var komið á, og því þurfti að koma þarna upp gistihúsi. Menn þeir, sem í þetta réðust, gerðu það af miklum myndarskap, og mér finnst því, að það færi mjög vel á því, að Alþ. virði þessa viðleitni þeirra og orku og komi til móts við þá með því að veita þeim þennan styrk, svo að þeir geti haldið áfram starfi sínu.

Á þskj. 546, X hef ég gerzt meðflm. ásamt hv. 2. þm. Árn. og hv. þm. Vestm., sem er þar aðalflm. Fjallar þetta um heimild til að greiða fyrir fólksflutningaferðum milli Stokkseyrar og Vestmannaeyja, þar sem stj. hefur heimild til þess að hjálpa til að útvega fararkost, ef á því stæði að fá góðan bát. Ég veit, að aðalflm. till. mun gera frekari grein fyrir þessu, svo að ég ætla ekki að fjölyrða um þetta. Eins og ég gat um áður, er óhjákvæmilegt að hafa þarna góðan bát í förum, en tekjur af slíkum ferðum eru ekki svo miklar, að hægt sé að búast við því, að menn geti staðið straum af kostnaðinum án þess að fá nokkur hlunnindi, og er því nauðsynlegt að hlaupa undir bagga með þeim mönnum, sem taka þetta að sér. Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frekar, en vona, að Alþ. taki þessari till. vel og meti þá nauðsyn, sem er til þess, að hún er fram borin.