09.12.1943
Efri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

157. mál, happdrætti

Bjarni Benediktsson:

Það er kunnugt, að fáir valdamenn hér á landi hafa sýnt meiri áhuga á ýmsum byggingamálum en hv. þm. S.-Þ. Það eru áreiðanlega margar stórbyggingar á Íslandi, einkum utan Reykjavíkur, sem eiga honum tilveru sína að þakka, og hans verður lengi minnzt fyrir það. En það er eftirtektarvert, að á því starfi hans öllu hefur orðið einhver brotalöm þrátt fyrir mikinn áhuga. Eitthvað þótti alls staðar á bresta, að verkið yrði fullkomið. Gagnvart háskólanum hefur eitthvað svipað komið fram. T. d. hér áðan kom fram, að hann vildi ekki láta háskólann fá happdrættið áfram, af því að það þyrfti að venja háskólamennina á ósíngirni og mannkærleik. En Englendingar segja: „Charity begins at home.“ Mér fyndist eðlilegra, að þingið hefði forgöngu um þennan „mannkærleik“ og veitti háskólanum þetta af sinni miklu óeigingirni, og þá óeigingirni veit ég a. m. k., að hv. þm. S.-Þ. hefur í nægum mæli til að bera. Ef brotalöm yrði þar á mannkærleikastarfsemi hans, er hætt við, að kærleikur hans, áður auðsýndur háskólanum, kæmi að minna liði en hugur hans stendur til.

Eins er það með byggingar, sem þessi hv. þm. hefur haft áhuga á að koma upp, að á þeim hefur verið verulegur galli, að það hefur vantað ýmislegt það, sem er talið nauðsynlegt við venjulegar byggingar. En það er eins og hv. þm. hafi gleymt því, að umhverfið tilheyrir hverri byggingu. Ef stórbygging er sett niður í mýri eða holt og ekkert gert fyrir umhverfið, þá verður það að svaði, og ég hygg, að slíkt verði ekki til þess að bæta smekk almennings, eins og þessi hv. þm. hefur þó lagt mikla áherzlu á, að þurfi að gera. Það verður að velja hverri byggingu það umhverfi, sem henni sæmir. Ef á það er litið, þá fer því fjarri, að byggingu háskólans sé lokið, enda vitað, að umhverfið tilheyrði uppdrættinum frá því fyrsta og þar á meðal hin gífurlega skál fyrir framan háskólann og hinn hái veggur, sem á að hlaða í kringum hana, og það er viðbúið, að þetta komi til með að kosta tugi eða hundruð þús. í framkvæmd. Byggingarmeistarinn, sem fyrir þessu stóð, hafði auga fyrir umhverfinu og taldi það hluta af byggingunni, en þetta hefur þessum hv. þm. sézt yfir, en hann viðurkennir þó nú að vísu, að þetta þurfi að gera, en það verði bara að verja til þess öðrum peningum og þá helzt ágóðanum af rekstri Tjarnarbíós. Mér er kunnugt um það, að þegar bæjarstjórn veitti háskólanum leyfi til bíórekstrar, þá var það alls ekki gert í þeim tilgangi að létta byrðum af ríkinu, því að við það væri háskólinn engu bættari, heldur var þetta gert til þess að efla vísindastarfsemi við háskólann, en alls ekki til þess, að ríkið gæti dregið að sér höndina um leið og bærinn rétti sína út. Það verður að ganga eins frá háskólanum og ætlazt var til, og það getur kostað ekki tugi heldur hundruð þús., en það verður að gera, ef byggingin á að líta sæmilega út, og það verður að gera eins og til var ætlazt, en þessi kostnaður tilheyrir sjálfri byggingunni, og háskólanum var gefið loforð um það, að happdrættið skyldi standa undir öllum byggingarkostnaðinum. Þegar Tjarnarbíó var opnað, þá var ekki ætlazt til þess, að fjárstyrkur ríkisins yrði dreginn til baka. Með því væri verið að svíkja þetta fé út úr bænum og verja því öðruvísi en til var ætlazt. Þetta veit ég, að hv. þm. dettur ekki í hug, að rétt sé að gera, og þess vegna er nauðsynlegt, að háskólinn hafi happdrættið áfram, því að það er sjálfsögð skylda að ganga eins frá byggingunni og húsameistari lagði til. Til viðbótar þessu hefur reynslan leitt í ljós, að til þess að háskólinn verði fullkominn þarf fleiri byggingar en háskólann sjálfan. Ég vil benda á það, að á meðan á byggingu háskólans stóð, þá var þröngvað upp á hann að hafa hús atvinnudeildarinnar þar á lóðinni. Það má vera, að það hafi verið rétt ráðið, en reynslan hefur sýnt, að það hefur þótt ástæða til þess að tengja fleiri byggingar við hann, og svo mun verða í framtíðinni. Það verður nauðsynlegt að bæta við náttúrufræðideild í háskólanum, og í sambandi við það verður að koma upp söfnum, og er því hér enn þá ekki farið fram á meira en lofað var í upphafi, er happdrættiseinkaleyfið var veitt.