09.12.1943
Efri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

157. mál, happdrætti

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. f. þm. Reykv. tók að mestu af mér ómakið við að svara því, sem þurfti að svara. Hitt er annað mál, að það er alltaf gaman að eiga orðastað við hv. þm. S.-Þ., en hann tekur svo sjaldan til máls nú orðið, það er munur eða hér áður, þegar hann var alltaf talandi og flestir leiðir á honum. Hann hefur þessa Stróbl-hæfileika, að færa hið rétta nokkuð úr lagi, þegar honum býður svo við að horfa. Ég vil benda hv. þm. á, að við háskólann starfa menn, sem láta sér mjög annt um hann og hafa gott lag á því að sjá hag hans borgið. Það er áreiðanlegt, að dugnaður háskólaráðs hefur aflað háskólanum mikils álits, og almenningur metur það mikils. Ég get líka sagt það með öruggri vissu, að það er ekki víst, að happdrættið nyti svo mikilla og öruggra vinsælda, ef almenningur sæi ekki, til hvers féð er notað og að peningarnir skila sér eins affallalítið og verða má. Ég er ekki viss um, að menn fyndu hjá sér sömu hvöt til þess að skipta við happdrættið, ef peningarnir ættu að renna almennt í einhvern byggingarsjóð, sem svo yrði notaður til ýmissa byggingarframkvæmda. Meðan happdrættið er notað eins og það nú er, þá er það mjög vinsælt, og skýrslur sýna, hvernig vinsældir þess fara jafnt og stöðugt vaxandi, í stað þess, að gert var ráð fyrir, að það mundi aðeins vaxa 4–5 fyrstu árin. En þegar þau voru liðin, þá fóru menn þegar að sjá árangur af starfi þess. Það er því bersýnilega ekki sama, til hvers fénu er varið.

Þá er það vottorðið, sem hv. þm. S.-Þ. gaf próf. Alexander Jóhannessyni um, að hans orð væru alveg áreiðanleg, svo að þau gætu ekki brugðizt. Mér þykir vænt um, að þessi vinur minn skuli eiga þarna svona sterkan hauk í horni, og ég tek undir þessi ummæli með hv. þm. S.-Þ. Hitt er annað mál, að hann er ekki upphafsmaður að þessu happdrætti. Ég bar þetta fyrst fram hér á Alþ. Það hafðist þá ekki í gegn, að háskólinn fengi þetta einkaleyfi, en það var dugnaður fylgismanna málsins, sem síðast hafði það fram.

Ég skal staðfesta þá sögu hv. þm. S.-Þ., að ég var hræddur við það, þegar málið kom hér fyrst fram, að það þýddi ekkert að bera það fram þá, m. a. vegna þess, að um það leyti var verið að veita þjóðleikhúsinu tekjustofna, sem það þurfti og mjög á að halda, og áleit ég því, að betra væri að bíða nokkuð, þar til betur blési. En þetta hefur farið gæfusamlega fram að þessu og er þegar búið að bæta mjög úr hinni miklu þörf.

Ég vil annars taka það fram, að þessi 10 ára frestur háskólans til þess að reka happdrættið, hefur þegar verið framlengdur nokkuð af Alþ., og er það vel gert.