07.12.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

27. mál, fjárlög 1944

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að ég er hv. 1. þm. Árn. mjög þakklátur fyrir það, sem hann hefur lagt til málanna hér við þessar umr., eins og reyndar oft fyrr. Hann mæltist til, að þeim, sem hlut eiga að máli, verði veittur stuðningur og fólksflutningar milli Vestmannaeyja og meginlandsins verði gerðir eins viðunandi og hægt er. En þessir fólksflutningar hafa lagzt í þann farveg á síðustu tímum, að Stokkseyri er nú endastöð sjóleiðarinnar milli Vestmannaeyja og lands. Þessi hv. þm. minntist á tvær till., sem þeir þm. Árn. og ég sem þm. Vestm. stöndum að, og má segja, að báðar þær till. séu fluttar í þágu allra landsmanna, þó að okkur beri mest skylda til að benda á nauðsyn þeirra. Það er sannast að segja, að gistimöguleikar á Stokkseyri voru komnir í hið mesta óefni fyrir fólk víðs vegar að, sem átti leið til Vestmannaeyja og varð að bíða á Stokkseyri, og eins fyrir það fólk, sem kom frá Eyjum og ætlaði lengra. Menn geta ímyndað sér, hversu gistimöguleikar hafa verið erfiðir á Stokkseyri, þegar stórkostlegir fólksflutningar leggjast allt í einu á þetta sjávarþorp, sem ekki var við slíku búið, því að á Stokkseyri var engin opin greiðasala. Hins vegar var þar margt gott fólk fyrir, eins og alltaf hefur orðið raun á, þegar ferðamenn hafa átt þar leið um, bæði frá Eyjum og annars staðar að, en þessi ferðamannastraumur varð samt ofurefli fyrir þorpsbúa, svo að um tíma áttu ferðalangar sér einskis annars úrkosta en að sitja og bíða milli bátsferða. Þá réðust nokkrir dugnaðarmenn í það að greiða fram úr þessum vanda, eins og hv. 1. þm. Árn. lýsti svo prýðilega, að ég þarf þar ekki miklu við að bæta. Þeir leystu þetta svo vel af hendi, að sá, sem kemur nú til Stokkseyrar, á þess kost að komast strax í notalegt og hlýtt gistihús, sem hefur herbergi til reiðu með góðu rúmi, ef þarf, og hefur á boðstólum allan venjulegan hversdagsmat, sem menn þurfa á að halda. Þessi breyting frá því, sem áður var, er svo stórkostleg, að maður þarf að hafa reynt hvort tveggja til þess að verða hennar var. Stórhugur þessara manna hefur verið svo með afbrigðum, að ég býst við, að þeir hafi kannske reist sér hurðarás um öxl, með því að kostnaður hefur orðið of mikill eins og hv. 1. þm. Árn. hefur lýst, og um vetrartímann, þegar ferðir falla niður með öllu, er afkoman auðvitað mjög rýr, þegar svo stórt gistihús á í hlut. Ég vona því, eins og þm. sá, er um þetta talaði, að till. okkar um að veita þessum mönnum lítils háttar byggingarstyrk í eitt skipti fyrir öll fái byr hér á Alþ.

Hv. 1. þm. Árn. minntist einnig á brtt. þá, er við flytjum við 22. gr., þar sem um er að ræða heimild til þess, að stj. hafi einhver afskipti af því, að viðunandi skip fáist til að annast þessar fólksflutningaferðir. Hér er um brýna nauðsyn að ræða, og þar sem fordæmi eru fyrir því, að Alþ. hefur heimilað stj. að styðja þess háttar fyrirtæki, vona ég, að þessi heimild fáist veitt. Svo er mál með vexti, að það er ákaflega vandfundinn fararkostur í þessar ferðir, sem fullnægjandi er, því að hann verður að sigla 36 sjómílur í hvaða veðri sem er fullur af fólki, en má ekki vera dýpri en það, að hann fljóti alltaf inn á Stokkseyri á flóði, jafnvel þó að smástreymt sé. Eins og þm. öllum mun vera kunnugt um, er innsiglingin inn á Stokkseyri mjög vandfarin. Að undanförnu hefur verið notaður fiskibátur í þessar ferðir, sem að vísu er góður, en þó nokkuð lítill, en nú hefur honum verið ráðstafað annað, og er því nokkuð óvíst um, hvað við tekur. Nú er þó verið að leita fyrir sér um bát, og fer það fram í samráði við Skipaútgerð ríkisins, og eins hefur þessum ferðum alltaf nokkuð verið haldið uppi í samráði við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins. Fáist þessi bátur, er nauðsynlegt að innrétta hann dálítið öðruvísi en bát, sem fer daglega í róður, til þess að hann fullnægi þeim skilyrðum, sem hér er þörf á. En þar sem kostnaður er mjög mikill á þessum tímum við að breyta skipum, þá er sennilegt, að þetta reynist erfitt í framkvæmdinni, nema einhver styrkur verði til þess veittur samkvæmt mati forstjóra Skipaútgerðar ríkisins og þess ráðh., sem með þessi mál fer. Málið liggur því þannig við, að ef þess verður ekki kostur að fá slíkan bát keyptan eða leigðan, en hér í þessari till. er mest miðað við það, að fenginn verði bátur til kaups, þá getur vel farið svo, að þessar ferðir falli niður, því að þeim verður ekki haldið uppi nema á góðum og traustum bát. Þarf þessi bátur hvort tveggja í senn að vera nægilega stór til þess að flytja 60 manns og má ekki vera dýpri en svo, að Stokkseyrarinnsiglingin nægi honum í venjulegu hásævi. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt, getur það leitt til hinna mestu vandræða, og það eru fullkomin vandræði, eins og stundum hefur komið fyrir, að skip hlaðið fólki, sem er búið að fara alla leið frá Vestmannaeyjum, verði að leggja frá Stokkseyri, eftir að það er búið að bíða þar, einmitt vegna þess, hvernig innsiglingunni þar er háttað. Þetta er mikið volk, sérstaklega fyrir þá, sem sjóveikir eru, svo að ég nú ekki tali um kvenfólk og börn. Það er því von okkar flm., að Alþ. vilji stuðla að því að fá þessar ferðir í gott lag og að þær verði framkvæmdar á þann hátt, sem öruggast er undir þeim kringumstæðum, sem fyrir hendi eru. Auðvitað er aldrei hægt að sigla fyrir öll sker, en það eru viss skilyrði, sem verður að krefjast. Samvinna milli Stokkseyvinga og Vestmannaeyinga í þessum efnum hefur verið með ágætum, og vil ég því við þetta tækifæri láta þess getið, að frá sjónarmiði okkar Vestmannaeyinga hefur framkoma Stokkseyringa í einu og öllu gagnvart þessum flutningum og því fólki, sem þarna fer um, verið hin prýðilegasta frá byrjun.

Ég vil svo víkja fáum orðum að öðrum till. hér, sem ég er meðflm. að og hv. 1. þm. Árn. hefur vikið að, en við eigum svo oft samleið um ýmis áhugamál. Hvað snertir till. um byrjunarframlag til bændaskóla sunnanlands, þá verð ég að viðurkenna, að ég kann svo illa um þau mál að kveða, en vil þó stuðla að því og leggja mitt liðsinni til þess, að sá skóli komist á. Því að mín skoðun er sú, að menntun bænda, eins og annarra stétta þjóðfélagsins, sé lífsskilyrði fyrir þjóð vora.

Á þskj. 517, XXX flyt ég till. ásamt nokkrum öðrum þm. viðvíkjandi Páli Ísólfssyni tónskáldi. Eins og kunnugt er, er honum ætluð dálítil fjárupphæð í fjárl., að ég held 2 þús. kr. grunnlaun, fyrir það að annast ýmis störf, þar á meðal að kenna prestum að tóna o. fl. Það eru margir, sem líta svo á, að slíkir hæfileikamenn eins og Páll Ísólfsson hefur sýnt að hann er, séu þjóðinni mjög mikils virði og meira virði en svo, að kröftum þeirra megi slíta út á hverju sem er, og sérstaklega á því, sem menn með minni hæfileika geta annazt. Páll Ísólfsson er ákaflega vel þekktur um land allt og vel kynntur, ekki sízt fyrir hin fögru tónverk sín og afskipti í söngmenntun þjóðarinnar gegnum útvarpið. Ég er þó sízt til þess hæfur að lýsa því með réttum orðum, hvaða þýðingu slíkur maður hefur raunverulega fyrir þessa þjóð, en hitt vildi ég mega láta uppi sem mitt álit, að ég tel hann mikils góðs maklegan og að það eigi því að sjá honum fyrir góðum launum án þess að binda hann við sérstök skyldustörf, sem hægt er að fela öðrum mönnum með minni hæfileika, eins og ég sagði áður. Ég veit að vísu, að það er nauðsynlegt að þroska tónhæfileika presta, en nú höfum við fengið sérstakan söngmálastjóra fyrir kirkjuna, og ég treysti honum vel til þess að sjá þeirri menntun borgið, þó að Páli Ísólfssyni sé hlíft við að þurfa að snúast í því og ýmsu öðru. Þarf ég svo ekki að fjölyrða frekar um þessa till. eða hina, sem er í sambandi við hana, en vil vekja athygli hv. þm. á því, að fyrri till. er um heldur lág grunnlaun til Páls Ísólfssonar með aukauppbót og verðlagsuppbót, en verði hún felld, þá er till. hér frá sömu mönnum um að láta þann lið, sem nú er í fjárl. til viðkomandi manns, algerlega falla niður, af því að hann óskar ekki eftir því að njóta góðs af þeim lið með þeim skilyrðum, sem honum fylgja.

Ég held, að ekki sé rétt af mér að reyna meira á þolinmæði hv. þm., þar sem nú er áliðið dags, og mun því láta máli mínu lokið að sinni.