18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

105. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. landsk. þm. (ÞG) og hv. 1. þm. Skagf. (SÞ) að bera fram þetta frv., sem hér liggur fyrir. Grg. þess er að vísu ekki löng frá okkar hálfu, en þar er frá því sagt, að þetta frv. sé borið fram að tilhlutun ýmissa forustumanna í samtökum þeim, sem mynduð hafa verið til þess að koma upp vinnuhæli fyrir berklasjúklinga. Og þessi samtök hafa náð mjög góðum árangri. Eftir því sem mér hefur verið frá skýrt, hafa safnazt hátt á 3. hundrað þús. kr. til byggingar þessa hælis. En til þess að koma upp slíku vinnuhæli, er samsvari kröfum, sem til þess þarf að gera, þarf miklu meira fé, og er þá sjálfsagt og eðlilegt, að íhugaðar séu allar leiðir til þess að safna fé til hælisins. Það hefur komið fyrir, að gefin hefur verið stórgjöf frá einu atvinnufyrirtæki þessa lands til þessa vinnuhælis, og mundu sjálfsagt slíkar gjafir hafa orðið fleiri, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að þeir, sem gefa slíkar gjafir til hælisins, verða að svara af því fé öllum sköttum og skyldum til ríkis og bæjar- eða sveitarfélags.

Með grg. þessa frv. fylgir umsögn Sigurðar Sigurðssonar berklayfirlæknis. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr umsögn berklayfirlæknisins um tvö atriði málsins. Hann lýsir fyrst fjársöfnuninni til vinnuhælisins og segir, hvernig hún sé á veg komin, og segir svo:

„Nauðsyn slíks vinnuhælis mun ljós öllum þeim, er til þekkja. Afkoma berklasjúklinga, er brautskráðir hafa verið frá hælum og sjúkrahúsum, svo og eftirmeðferð þeirra hefur hér á landi verið ærið misjöfn fram til þessa. En það er mjög mikilsvert, að sjúklingar, sem ef til vill hafa dvalið árum saman á heilsuhælum, hafi að einhverju að hverfa, er þeir loks losna þaðan. Því miður hefur þessa víða eigi verið gætt sem skyldi, jafnvel ekki þar, sem berklavarnir hafa verið reknar. Afleiðingarnar hafa fljótt komið í ljós. Margir sjúklinganna hafa eftir mánaðar eða jafnvel ára kyrrsetu og góða aðbúð orðið að hverfa að miður góðum kjörum og tekið að fást við erfiðisvinnu. Árangur sá, sem unnizt hafði við hælisvistina, hefur á þennan hátt ef til vill orðið að engu á skömmum tíma, og hinir brautskráðu sjúklingar hafa, fyrr en varði, orðið að hverfa aftur til hælisins. Sjúkdómurinn hefur blossað upp að nýju. Síðar segir hann:

Vinnuhælin hafa víðast hvar þótt gefast mjög vel. Sjúklingarnir eru valdir þangað eingöngu frá berklasjúkrahúsum eða heilsuhælum. Vistmenn þar geta verið tvenns konar : 1) Sjúklingar, sem eru að því komnir að brautskrást fyrir fullt og allt, en leita til vinnuhælisins um nokkurt skeið, áður en þeir hverfa út í lífið aftur, og 2) sjúklingar með langvinna (kroniska) berklaveiki, sem dvalið hafa á heilsuhælum árum saman, án þess að veruleg breyting yrði á sjúkdómi þeirra.

Vinnuhælin hafa með höndum margs konar starf eða iðn, sem jafnt hentar konum sem körlum. Er víða reynt með sérstöku prófi að velja fólk í þá iðn, er því hentar bezt. Er það gert í þeim tilgangi, að það megi læra hana á vinnuhælinu og stunda síðan á eigin spýtur, er það á að sjá fyrir sér sjálft. Skal eigi farið nánar út í það hér.

Stofnanir þessar eru reknar með margs konar sniði, en hafa yfirleitt þótt gefast mjög vel. Hafa þær orðið til að létta mjög á berklasjúkrahúsum og heilsuhælum og eru sjúklingunum til hins mesta gagns og ánægju.

Svo skal ég ekki vitna frekar í það, sem yfirlæknirinn segir, en hv. þdm. hafa kost á að kynna sér það á þskj. nr. 183, þar sem frv. liggur fyrir. En ég vil benda á niðurlagið hjá berklayfirlækninum um árangur af slíkum vinnuhælum yfirleitt, þar sem hann segir, að þær stofnanir hafi orðið til þess að létta mjög á berklasjúkrahúsum og heilsuhælum. Og í sambandi við það vil ég mega benda á, að rekstur berklahælanna tveggja hér á landi og það, sem að öðru leyti er látið af hendi af opinberu fé til þess að berjast á móti berklaveikinni, nemur, eftir þeim áætlunum, sem fyrir liggja í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. nú, rúmlega 3½ millj. króna, sem búizt er við, að á næsta ári verði varið í þessu skyni. Nú er það viðurkennt bæði hér og annars staðar, að þessi miklu fjárútlát nái hvergi nærri tilgangi sínum, vegna þess að sjúklingar, eftir að þeir eru útskrifaðir af hælum, verða að taka vinna, sem er þeim eftir atvikum um megn. Og hælin sjálf eru yfirfull, vegna þess að þar eru sjúklingar, sem gætu verið á vinnuhælum, en sitja svo þar fyrir jafnvel smitandi sjúklingum, sem verða að dveljast á heimilum, vegna þess að þeir fá ekki hælisvist. En á hælunum er fjöldi sjúklinga, sem gætu verið á vinnuhæli, ef til væri, og gætu þar unnið að nokkru leyti fyrir sér. Það er því augljóst mál, að það er fjárhagslegt atriði og það þýðingarmikið — fyrir þessa þjóð, sem eyðir nú svo milljónum kr. skiptir til þess að berjast við þann vágest, sem berklarnir eru, að sú barátta fari fram á þann hátt og sé skipulögð þannig, að ekki sé að verulegu leyti til einskis barizt. Og einn liðurinn í þeirri skipulagningu hlýtur að vera sá, að séð sé fyrir því, að menn, sem dvalizt hafa á berklahælum og komnir eru það langt til bata, að þeir þurfa ekki daglegs lækniseftirlits eða daglegrar hjúkrunar við, gætu verið á stað, þar sem ekki er hætt við, að þeir smiti neitt frá sér, og þar, sem aðbúnaður er slíkur, sem á við heilsufar þeirra, og þar, sem þeir geta smátt og smátt unnið sig upp í það aftur að verða starfandi kraftur í þessu þjóðfélagi og unnið fyrir sér og sínum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki stórvægilegt, en það ber að skoða það sem einn lið í berklavörnunum með því, að löggjafarvaldið hliðri svo til, að þeir, sem af áhuga á þessu hælisbyggingar máli vildu gefa til þess nokkrar upphæðir, að hæli þetta komist upp, þurfi ekki að óttast, að þeir verði að borga af því fé, sem þeir þannig láta af hendi, stóra skatta að auki. Það gefur að skilja, að slíkar skattgreiðslur er ákaflega mikill hemill á framkvæmdir í þessu efni.

Nú er það vitað, að engar stéttir í þjóðfélaginu sýkjast frekar af berklum en þeir, sem eiga erfiða aðbúð, bæði verkamenn og sjómenn, og það eru einmitt þessir menn, sem eiga erfiðast með að hverfa aftur til sinnar fyrri iðju, eftir að þeir hafa fengið berkla og verið mánuðum eða árum saman á heilsuhæli. Ef þeir eiga einkis úrkosta annars en að fara aftur á sjóinn eða til erfiðisvinnu, án þess að geta haft hæfilegt millistig til þess að vinna sig upp líkamlega og andlega, er sýnilegt, að hælisvistin verður í mörgum tilfellum til lítils gagns. Rannsóknir hafa leitt í ljós, að það eru einmitt menn á bezta aldri, sem oft falla fyrir berklum. Rannsókn í Bandaríkjunum leiddi í ljós, að þegar 5% af dauðsföllum voru af völdum berkla, voru 20% af því fólki, sem féll í valinn, á aldrinum 20–30 ára. Berklaveiki er hins vegar sá sjúkdómur, sem vinna má bug á með réttum aðgerðum, og í því hefur þessi þjóð stigið stórt og merkilegt spor með því að koma upp berklahælum, og þeir forustumenn, sem hafa tekið höndum saman um að koma upp hæli til þess að gera mönnum léttari baráttuna; eru að stíga annað ekki ómerkara spor í þessu efni. Þeir eru að stíga það nauðsynlega spor, sem þarf að stíga til þess að hælisvistin og læknisaðgerðirnar komi þessum mönnum — og þá þjóðinni um leið — að gagni. Þetta mál er því borið fram af brýnni þörf og sem hagsmunamál þjóðfélagsins til þess að láta ekki sitja við hálfunnið verk í þessu efni, heldur stuðla að því af alefli, að þessi viðbót við heilsuhælin komi fyrir þann fjölda af ungu fólki, sem er berklaveikt, og hjálpa því þannig til þess að verða hraustir meðlimir þjóðfélagsins. Hér er alveg um einstakt atriði að ræða í þessu þjóðfélagi, þar sem það er þannig, að berklaveikin hefur verið tekin þeim tökum af hálfu hins opinbera, að ekkert hliðstætt spor hefur verið stigið gagnvart öðrum sjúkdómum. Hins vegar má segja, að þörfin hafi verið mest á þessu sviði og aðgerðir af hálfu hins opinbera við berklavarnirnar verði að skoða sem sérstæðar og ekki megi blanda þeim saman við almenn menningarmál, og fyrir þessa þjóð er nauðsynlegt fjárhagslegt atriði að stuðla að því, að sú mikla sóun á vinnukrafti, sem verður fyrir berklaveikina, stöðvist.

Ég sé, að hér hefur verið flutt brtt. frá hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ), og þótt ekki sé nema gott eitt að segja um það málefni, sem hann ber fyrir brjósti, er það ekki hliðstætt við þetta frv., og þess vegna verð ég að harma það, að hann skuli bera fram brtt. einmitt við þetta mál, vegna þess að það er ekki hliðstætt, en það er hægt að finna mál, svo að tugum skiptir af mannúðarmálum, sem eru hliðstæð við brtt. hv. 4. þm. Reykv., og yrði það þá þessu frv. sá fjötur um fót, er nægði til þess að hefta framgang þess. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, en geri ráð fyrir, að hv. 4. þm. Reykv. og þeir, sem kynnu að vera sama sinnis og hann, láti sér skiljast, að hér er um fjárhagslegt atriði fyrir berklavarnirnar í landinu að ræða, og geri það ekki að kappsmáli að hnýta aftan í frv. till., sem yrðu því til hindrunar.

Ég vil að lokum mælast til þess, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.