25.10.1943
Neðri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

105. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar þetta mál var hér síðast til umr. 18. þ. m. Tilefnið til þess, að ég bað um orðið, er sú brtt., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 186.

Áður en ég fer að lýsa tilefni þess, að ég flyt þessa brtt., vildi ég segja örfá orð um þetta mál almennt. Ég hlustaði að vísu ekki á nema nokkurn hluta framsöguræðu hv. 1. flm. málsins, en mér skilst, að þau rök, sem hann færir fyrir því. að frv. er fram komið, séu hin mikla þörf á vinnuhæli fyrir berklasjúklinga. Ég er í flestum atriðum sammála um nauðsyn þessa hælis, en hins vegar getur það orkað tvímælis, hvort sú leið, sem hér er farin, sé hin æskilegasta, en ég fyrir mitt leyti mun samt ekki leggja stein í götu þess, að þessi leið verði farin. En ég get ekki neitað því, að í rauninni finnst mér þetta vera mál, sem ríkinu beri skylda til að styrkja mjög ríflega. Ég lít á þetta hæli sem einn lið í berklavörnunum, og þegar hnigið verður að því ráði að koma því upp, þá mun ríkið leggja drýgstan skerf þar til. Og ég býst við, að það verði svo um vinnuhælið sem berklahælin, að reksturinn verði kostaður af ríkinu í framtíðinni.

En þó að ég hafi sagt það hér, að ég vilji ekki leggja stein í götu þess, að þeir sjóðir, sem nú eru fengnir, megi vera sem ríflegastir, þá er mér það ljóst, að hér er um mál að ræða, sem er fjárhagsmál og nokkurt tilfinningamál fyrir hv. þdm., hvort heimila eigi slíkar upphæðir til skattfrádráttar, því að hér er opnuð leið til þess að menn geti dregið verulegar fúlgur undan skatti. Þó að það sé að vísu til menningarfyrirtækis, þá getur það vel haft áhrif á skattstiga sumra einstaklinga.

Ég hef nú leyft mér að flytja brtt. þá, sem ég hef áður lýst, þ. e. til hvíldarheimilissjóðs. Ég heyrði það á hv. 1. flm. málsins, að hann gerði þarna nokkurn mun á. Hann taldi þessa till. mína allt annars eðlis en þetta mál, sem hér er til umr., en ég finn ekki svo mikinn mun þarna á milli, nema ef síður skyldi. Ég hef lauslega drepið á það, að ég teldi vinnuhæli berklasjúklinga vera mál ríkisins, sem því bæri skylda til að koma upp. En það verður alltaf umdeilt, hvort ríkinu sé nauðsyn á því að koma upp hvíldarheimili fyrir sjómenn, sem sjómannastéttin hefur beitt sér fyrir. En það var svo til ætlazt af okkur, sem stóðum að þessari fjársöfnun, að hægt væri að afla nægilegs fjár, til þess að slíkt hvíldarheimili gæti risið upp, og draumur okkar er sá, að við getum komið því þannig fyrir, að rekstur þess þurfi ekki að hvíla á hinu opinbera. Nú verð ég að geta þess, að á þinginu 1942, þegar við vorum komnir í fullan gang með öflun fjár til dvalarheimilisins, þá komu ýmsir menn, sem að því máli stóðu, til vissra þm. og spurðu þá um álit þeirra um það, hvort það mundi þýða að bera fram till. um, að gjafir til slíks hvíldarheimilis yrðu undanþegnar skatti. Mér er kunnugt um það, að þetta mál var rætt við ýmsa áhrifamenn í þinginu og þá sérstaklega þá, sem fjölluðu um fjármálin, og undirtektirnar undir það mál voru mjög neikvæðar, án tillits til þess, hvaða flokki menn fylgdu. Töldu menn þá, að þetta væri svo viðkvæmt skattamál, að ekki væri gerlegt að fara inn á þá braut. En mér var þá einnig kunnugt, að það buðust verulega stórar upphæðir frá ýmsum mönnum og fyrirtækjum til þessa hvíldarheimilis, ef hægt væri að fá þær undanþegnar skatti. Okkur var það ljóst og er enn, að ef við gætum fengið slíka heimild fyrir hvíldarheimilið, sem hér er gert ráð fyrir til vinnuhælisins, þá mundi okkar sjóður stækka verulega.

Ég ætla nú ekki að skýra nánar frá þessu, en þegar það var kunnugt, að fram var komið frv. um að undanþiggja gjafir til vinnuhælis berklasjúklinga frá skatti, þá fékk ég áskoranir úr mörgum áttum um það, að slíkt hið sama mætti gilda fyrir hvíldarheimili sjómanna. Um nauðsyn þessa hvíldarheimilis skal ég ekki fara mörgum orðum, en ég vil benda á það, að undirtektir almennings hafa sýnt, að þetta mál á mikinn hljómgrunn meðal sjómanna og margra annarra borgara í landinu, sem hafa styrkt þetta málefni með stórum gjöfum. Í ýmsum nágrannalöndum hefur þessi stefna verið uppi um langt skeið, og eftir því sem ég veit bezt, er nokkuð aukin vakning fyrir því, að slík hvíldarheimili, sem hér um ræðir, verði reist. Ég hef að vísu ekki nákvæmar upplýsingar um það, hvað gerist í Svíþjóð í þessum efnum, en ég veit, að ríkið stendur á bak við það að koma upp slíkum hvíldarheimilum fyrir sjómannastéttina. Í Noregi, þar sem þjóðin byggir fjárhagsáætlun sína á sjómannastéttinni, þar hefur þegar mikið verið gert að því að koma upp slíkum hvíldarheimilum víða um lönd, sérstaklega þar, sem norskir menn dveljast að staðaldri, t. d. í hafnarbæjum í Bandaríkjunum. En hér hjá okkur er það svo, að þeir menn, sem hafa gert sjómennskuna að lífsstarfi sínu, eiga oft og tíðum mjög ófullkomin heimili. Það þarf því að vinna að því að skapa þessum mönnum í ellinni góð hvíldarheimili fyrir það þjóðnytjastarf, sem þeir hafa unnið. Ég hygg því, að þessi hv. d. gæti vel fallizt á þá stefnu mína, að hér mætti leggja nokkuð að jöfnu hvíldarheimili sjómanna og vinnuhæli berklasjúklinga.

Ég hef flutt þessa till. nú við þessa umr., og það gerði ég vegna þess, að ég taldi æskilegt, að n., sem fjallar um þetta mál, heyrði þau rök, sem ég hef að flytja fyrir þessu máli og hún getur þess vegna tekið tillit til, um leið og hún fjallar um frv., og ég vænti þess, að hún geti fallizt á að taka þessar tvær stofnanir upp í einu. Ég geng þess ekki dulinn, að það eru mörg menningarfyrirtæki í þessu landi, sem eru að vinna að slíkri fjáröflun og mundu æskja slíks hins sama um skattfrelsi, en ég hygg, að það sé vandi fyrir þingið að greina, hvað sé nauðsynlegt og hvað ónauðsynlegt í þessum efnum. Ég sé, að ríkisstj. hefur lagt hér fram frv., þar sem hún fellst á þá stefnu að heimila vissar upphæðir undan skatti í mannúðarskyni, og gæti ég hugsað, að sú n., sem fær þetta frv. til athugunar, gæti á einhvern hátt samrýmt þessar stefnur því, sem stj. leggur til.

Að svo mæltu tel ég ekki nauðsynlegt að fara fleiri orðum um þessa brtt. mína, en vil vænta þess, að hv. n. taki hana til velviljaðrar athugunar.