25.10.1943
Neðri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

105. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég skal vera stuttorður. Ég vildi aðeins benda á það, áður en þetta mál fer til n., að ég tel þetta frv. mjög varhugavert. Hér er gengið inn á þá braut að heimila mönnum að hafa nokkurn hluta tekna sinna skattfrjálsan í því skyni, að þeim sé varið til þess að reisa vinnuhæli fyrir berklasjúklinga, og það er lögð áherzla á það af 1. flm. þessa frv., hversu þessi starfsemi, berklavarnirnar, sé hafin yfir að vera sambærileg nokkurri annarri líknarstarfsemi hér á landi. Nú hefur hv. 4. þm. Reykv. borið fram brtt. og talað fyrir annarri líknarstarfsemi, sem hann telur, að sé alveg sambærileg, og ég efast ekki um, að fleiri muni á eftir koma með aðrar greinar líknarstarfsemi, sem þeir telji, að eigi að vera jafnréttháar í þessum efnum. En ég vil aðeins benda á það, ef fara á að ganga inn á þessa braut, að þá mun verða ákaflega erfitt að greina á milli og segja um það, hvaða tegund af líknarstarfsemi sé rétt að taka og hverja ekki. Það getur vel verið, að það séu einhverjir, sem treysti sér til þess að greina þarna á milli, en ég er alveg viss um, að það verður þá ekkert réttlæti í þeirri skilgreiningu. Nú hefur hæstv. ríkisstj. flutt frv. í svipuðum anda og frv. það, sem hér liggur fyrir, en mér er ekki alveg ljóst, hvað veldur því, að hún hefur flutt þetta frv. Það skyldi þó ekki vera flutt vegna þess, að stj. hafi fundið, að málið var komið í óefni, og þess vegna hafi hún heldur viljað hafa allar mannúðarstofnanirnar undir í einu, en takmarka á hinn bóginn, hvað mikið mætti gefa mest af tekjum hvers einstaklings? Ég vil alvarlega benda hv. n. á það, að með þessu er gengið inn á braut, sem hlýtur að leiða til þess, að tekjur ríkissjóðs minnki verulega, verði þetta ekki takmarkað við neina eina líknarstarfsemi, nema þá með því að taka upp stefnu ríkisstj. og leyfa aðeins, að litlum hluta af tekjum einstakra manna verði varið í þessu skyni, og efast ég þó um, að það komi ekki tilfinnanlega við tekjur ríkissjóðs, því að sá frádráttur, sem hér kemur til greina með gjöfum þessum, dregst frá skattstiganum á hæstu tekjum hvers einstaks gefanda.