10.11.1943
Neðri deild: 43. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

149. mál, hlutatryggingarfélög

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta er að sönnu gamalt mál hér í hv. d., en þarf þó skýringa við, vegna þess að það er hér í nokkuð öðru formi en það hefur áður verið flutt. Ég skal ekki fara langt út í forsögu málsins, en aðeins geta þess, sem reyndar er tekið fram í grg. frv. á þskj. 341, að mál þetta hefur verið flutt fjórum sinnum áður hér í hv. Nd., fyrst 1939, á næsta þingi fyrir stríðið, síðan árið 1940 og árið 1942 og svo síðast á þingi árið 1943. Örlög frv. hafa orðið þau á þessum undanförnu þingum, að það komst, að mig minnir, í tvö fyrstu skiptin til hv. Ed. og dagaði þar uppi. Á þinginu 1940 vísaði þessi hv. d. málinu til ríkisstj. og svo var beðið eftir aðgerðum hennar árið 1941, en það kom ekkert frá hæstv. ríkisstj. þá um þetta mál, svo að fyrri flm. tóku frv. aftur upp á fyrra þinginu, sem háð var á þessu ári, og þá komst það enn ágreiningslítið til hv. Ed. og var þá vísað til aðgerða ríkisstj.

Nú þarf ekki að taka það fram, að áður en frv. var flutt fyrst og á þessu tímabili síðan hafa farið fram umr. og verið gerðar samþykktir og áskoranir um þetta mál. Frv. var flutt fyrir áskoranir ýmissa samtaka útgerðarmanna og sjómanna og líka fyrir tilmæli og bendingar margra einstaklinga. En það, sem lá til grundvallar fyrir þessu, var auðvitað það, að vegna aflaskorts og verðfalls á sjávarafurðum urðu hlutir sjómanna sífellt lægri og lægri. Og þeir, sem sjó stunduðu, sáu sér ekki fært að ráða sig í skiprúm, nema þeim væru tryggðar einhverjar lágmarkstekjur. En þá var svo komið fyrir útgerðinni, að þó að hún vildi gera þetta og gerði það að nafninu til, þá var engin trygging í því, vegna þess að útgerðin gat því aðeins staðið við tryggingarnar, að annaðhvort aflaðist vel eða þá að lánardrottnar aðstoðuðu til þess. Nú þótti það þess vegna nauðsynlegt, að til væri einhver sjóður, sem hægt væri að taka til í sérstökum aflaleysis- eða verðfallsárum, svo að ekki þyrfti að koma til þess ágreinings milli útgerðarmanna og sjómanna, að útgerðin stöðvaðist að meira eða minna leyti, auk þess sem það er alveg nauðsynlegt fyrir fólkið, sem að þessu vinnur, að það sé ekki í algerri óvissu um það, hver árangur þess verði af vinnu sinni eftir vertíð ársins.

En á meðan á þessum barningi hefur staðið hér í þinginu, hafa auðvitað farið fram mjög miklar umr. um þetta mál utan þings, og við þær hefur það komið æ betur í ljós, að þeir menn, sem bezt til þekkja, álíta, að það þurfi einhverjar tryggingar að vera til gegn aflaleysis- og tekjurýrðarárum vegna verðfalls.

Nú fór þetta svo um frv. í þessi fjögur skipti sem ég hef greint. Og ég sem upphaflega flm. þess hlýt að harma það, að útgerðin hefur misst í þessu tilliti tekjuhæstu ár, sem komið hafa yfir sjávarútveginn og sennilega tekjuhæstu ár, sem koma yfir hann í okkar tíð. Útgerðin hefur tapað þessum árum til þess að koma upp þessum tryggingum, sem eiga að verða til gagns og öryggis á komandi tímum. En það þýðir ekki að sakast um orðinn hlut, og sízt getum við í þessari hv. d. mikið að þessu gert, því að aðallega hefur staðið á hv. Ed. um afgreiðslu þessa máls. Nú, þegar málinu var vísað frá umr. í hv. Ed. á síðasta þingi, þá var svo fyrir mælt, að það væru gerðar ráðstafanir til þess, að ríkisstj. léti væntanlega mþn. í sjávarútvegsmálum afla allra nauðsynlegra upplýsinga snertandi þetta mál og að þeim fengnum undirbyggi frv. um jöfnunarsjóð aflahluta. Nú sendi Alþ. mþn. í sjávarútvegsmálum mál þetta til meðferðar, — og það er kannske sá formgalli á því, að í sjálfu sér hefði átt að senda hæstv. ríkisstj. málið fyrst og hún svo mþn. En það ætti að koma í sama stað niður. En mþn. reyndi að afla sér upplýsinga um málið. Hún sendi mörgum mönnum og félagasamtökum útgerðarinnar beiðnir um umsögn um málið, og einnig reyndi hún að afla annarra gagna, sem kvartað hafði verið undan að væru ekki fyrir hendi, svo sem það að reikna út, hver útgjöld ríkissjóðs mundu verða af þessum tryggingum miðað við þá reynslu, sem fyrri ár hafa gefið um verðmæti afla. Það bárust nokkrar umsagnir um þetta til mþn. En annars voru þær umsagnir mjög margar og miklu fleiri, sem áður höfðu komið til hæstv. Alþ. og flm. frv. í formi áskoranná um að flytja og samþ. frv. um þetta efni. En allt hefur þetta hnigið í þá átt, að allir, sem um þetta hafa fjallað, hafa álitið, að setja ætti löggjöf til þess að tryggja aflahluti. — Að þessum upplýsingum fengnum reyndi mþn. í sjávarútvegsmálum að gera sér grein fyrir, eftir hvaða leiðum væri líklegast að koma þessu máli gegnum Alþ., því að mótstaðan gegn þessu máli virðist einungis hafa verið í þinginu. Og nm. sáu strax, að það, sem aðallega, — a. m. k. að því er séð varð, — hafði orðið málinu að fótakefli áður, var ágreiningur um það ákvæði, hvort þessar tryggingar ættu að vera frjálsar og styðjast við heimildarl. eða þær skyldu vera lögboðnar sem skyldutryggingar. Og með því að mþn. leit svo á, að vonlaust væri að koma málinu gegnum þingið, nema látið yrði undan þeim mönnum, sem vildu ekki aðhyllast lögboðnar tryggingar í þessum efnum, þá hneig n. að því ráði að semja frv. þannig að breyta því í það form, að tryggingarnar séu ekki lögboðnar, heldur séu sett um þær heimildarlög. En mþn. réð af að breyta þessu svo að hafa ekki skyldutrygging. Ef menn sjá hag sinn í að koma upp tryggingum eftir þeim reglum, sem hér eru tilgreindar, hljóta tryggingarnar brátt að verða almennar, og má þá breyta þeim í skyldutryggingar. Ég held mér sé óhætt að fullyrða, að flestir í n. hafi haft trú á þeirri framtíðarniðurstöðu, þótt réttara þætti í bili að afgreiða frv. í því formi, sem það hefur. Samþykkt frv. er leið til að fá úr því skorið, hverja framtíð þessar tryggingar eiga. Ef reynslan sýnir, að frjálsu samtökin duga ekki, getur það verið ástæða til að setja skyldutrygging í staðinn. Samkv. frv. á ekki að verða einn tryggingasjóður fyrir allt landið, heldur sjóður í hverjum hreppi eða kaupstað, þar sem samtökin myndast, og er þetta breytt frá því, sem fyrst var í frv. Í sjóðina skulu renna 0,7% af óskiptum afla eða meira samkv. félagssamþykkt. Ríkissjóður leggur á móti sem svarar 0,7% af verði óskipts afla, en aldrei meira. N. lét rannsaka, hver útgjöld ríkisins mundu hafa orðið af þessu þrjú næstu árin fyrir styrjöldina og enn fremur aflahæsta styrjaldarárið, 1942. Fiskifélagið gerði þetta og hefur farið allnákvæmlega í útreikningana. Útkoman er þessi:

Árið

1936

kr.

79765,00

1937

112070,00

1938

116494,00

1942

577465,00

Fyrsta frv. fylgdi nokkur rannsókn á því, hvaða ríkisútgjöld mundu stafa af samþ. þess, eins og það var þá úr garði gert. Rannsóknina gerði Fiskifélagið og flm., sem var ég. Árið 1938 taldist okkur, að útgjöldin hefðu orðið um 140 þús. kr. eða 23½ þús. hærri en nú er reiknað. Þetta kemur af því, að þá var reiknað með 1% af óskiptum afla og jafnháu ríkisframlagi.

Þegar málið var rætt síðast, létu þm. í Ed. þau orð falla, að ríkissjóður risi ekki undir þeim útgjöldum, sem af þessu gæti leitt, þau mundu skipta svo mörgum milljónum á ári. Hið sanna er, að aflahæsta árið hefðu þau orðið rúm hálf milljón, og ætla ég, að þetta sýni, hvílíkar fjarstæður þótti þurfa að bera fram gegn frv., en við afgreiðslu fjárl. hefur ekki ætíð sézt, að mönnum yxi mjög í augum hálf milljón. Ég veit af reynslu, að þetta mál fær góðar undirtektir hér í d. Þar sem það hefur verið rætt af sjútvn. d., ætla ég, að ekki þurfi að vísa því til n., og óska ég, að því verði vísað til 2. umr.