01.11.1943
Neðri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

84. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Emil Jónsson:

Herra forseti. Höfuðuppistaðan í viðleitninni með þessu frv. miðar að því að tryggja það, að hver einstakur ættliður, sem á jörð og býr í sveit, þurfi ekki að kaupa hana út að nýju, þegar hann tekur þar við búi. Þetta er viðleitni, sem ég tel mjög heilbrigða og allrar virðingar verða. Og eitt af því allra nauðsynlegasta fyrir sveitabúskapinn í landinu er, að ráðstafanir verði gerðar, sem tryggi þetta á einhvern hátt. Ég vil leggja þetta atriði að líku við það, að bændur fái að mestu véltækt land og möguleika til þess að nota sem mest vélavinnu á búum sínum. Það, að hver ættliður þurfi ekki að borga út jarðirnar, og hitt, að bændur geti notað sem mest vélar á búum sínum, mundi geta sparað bændum mikil útgjöld árlega og létt af þeim tveim þyngstu förgunum, sem íslenzkur sveitabúskapur hefur stunið undir. Ef þessu tvennu væri kippt í lag, hygg ég, að íslenzkur landbúnaður mundi vera miklu betur settur en hann hefur nokkru sinni áður verið. Þessum árangri er reynt með frv. að ná með ýmsu móti. Þar eru farnar ýmsar leiðir, sem allar stefna að sama marki, mismunandi þó. Fyrsta leiðin er óðalsaðferðin, að gera allar jarðir að ættaróðulum, sem tryggir, að sá, sem við jörð tekur, þurfi ekki að svara neinum gjöldum af þeim arfahlut, sem hann tekur við. Önnur leiðin eru ákvæðin um ættaróðal, í þriðja lagi með erfðaábúð, og í fjórða lagi er snert við því atriði, að ríkissjóður eigi jarðir og leigi þær síðan.

Ég skal ekki neita því, að ég var upphaflega nokkuð tortrygginn gagnvart óðalsaðferðinni, og mér flaug í hug, að hér væri að myndast nokkurs konar yfirstétt í bændahópi, sem hefði forréttindi fram yfir aðra, og má vera, að svo sé að nokkru leyti. Þó eru í frv. ýmis ákvæði, sem tryggja, að þetta verði ekki nema a. m. k. að mjög litlu leyti til skaða. Í frv. er t. d. slíkt tryggingarákvæði, sem ákveður, að óðal megi ekki vera stærra en svo, að það verði að mestu fullnytjað af ábúanda, og er á þann hátt komizt fram hjá því, að þessir menn hafi of stór lönd undir og verði nokkurs konar gósseigendur, en það munu hafa verið aðalrökin á móti frv., þegar málið kom fyrst fram, að ákvæði þess frv. gætu jafnvel miðað að því, að menn yrðu slíkir gósseigendur. En ég tel, að með takmörkunum þeim, sem í frv. eru, sé að mestu leyti girt fyrir þessa hættu.

Ég skal ekki fara langt út í að ræða um málið, það hefur verið reifað ýtarlega af hv. frsm. En ég vildi aðeins láta þetta álit mitt koma fram.

Það var hér af hv. síðasta ræðumanni, 1. landsk. þm. (SG), sem gat ekki orðið samferða okkur hinum í landbn., minnzt á, að með þessu væri börnum mismunað, og virtist mér það vera aðalrök hans fyrir því að geta ekki fylgt frv. Og það má að vissu leyti segja, að þetta er rétt. Með þessum ákvæðum eru einum erfingjanum fengin í hendur réttindi og þá líka skyldur, ef hann tekur að sér jörðina, því að hann á að halda uppi góðu búi á jörðinni, enda fær hann jörðina í hendur fyrir ekki neitt, ef ekki hvíla á henni skuldir. En þessi forréttindi koma honum því aðeins að gagni, að hann nytji jörðina, því að hann verður þá að búa á henni sjálfur. Uppfylling þeirra skyldna, sem á honum hvíla, er skilyrði fyrir þeim forréttindum, sem l. ákveða honum.

Ég skal svo enn geta þess, að ég tel, að sá tími, sem nú er valinn til þessara aðgerða, sé heppilegur, vegna þess að nú mun yfirleitt vera það rýmst um efnahag bænda, sem hefur verið um langan tíma. Þess vegna álít ég það mjög vel til fallið, ef einmitt yrði tryggt með þessum l., að eitthvað af því fé, sem bændum og þeim, er bændur vilja gerast, hefur aflazt, verði þó kyrrt í sveitunum og verði til gagns þeim, sem í framtíðinni nytja jarðirnar, en verði ekki flutt úr sveitunum til kaupstaðanna, — því að það er eitt hið mesta böl, sem ég get hugsað mér, að sveitabúskapurinn eigi við að stríða, ef hver kynslóðin fer með sinn afrakstur á burt úr sveitinni og nýir menn verða að kaupa jarðirnar aftur frá stofni. Ef hægt væri með þessum l. að draga úr þessu, álít ég það mjög vel farið, þó að á þennan hátt gætu ekki allir orðið þessara sömu fríðinda aðnjótandi. En meðan allar jarðir hafa ekki verið tryggðar á þennan hátt, þá tel ég þó, að stefnan sé í rétta átt, og því hika ég ekki við að fylgja þessu frv.

Í síðasta kafla frv. er farið inn á það, að jarðir í opinberri eign megi selja ábúendum, ef þeir hafa búið þar ákveðinn tíma og ef þeir um leið gera jörðina að óðali. Fyrir mér er það ekkert aðalatriði beinlínis, að ríkið endilega eigi jörðina, ef það er tryggt, að ábúandi sá, sem nýtir hana og hirðir hana, fær að sitja við þau kjör, sem honum eru lífvænleg. Það hlýtur fyrir mér alltaf að vera aðalatriðið. Þess vegna er það fyrir mér ekkert aðalatriði, hvort það heitir á pappírnum, að ríkið eigi jörðina eða jörðin sé gerð að óðali, ef það er bara tryggt, að ábúandinn á henni fær að nota hana á eins heppilegan hátt og ódýran fyrir búskapinn og mögulegt er og það er tryggt, að jörðin á ekki eftir að fara í brask. Því að það, sem hefur orðið mestur þyrnir í augum þeim, sem hafa verið á móti sölu þjóð- og kirkjujarða, er að þær hafa stundum eftir þá sölu lent í braski, þannig að þær hafa verið seldar fyrir of fjár af þeim, sem af þeim hafa flutt. En fyrir það hygg ég að sé girt með þessu frv., því að ef slíkar jarðir eru seldar, hefur ríkið forkaupsrétt að þeim aftur fyrir fasteignamatsverð.

Ég skal svo ekki fara mörgum orðum frekar um þetta mál. Ég vildi aðeins, að afstaða mín yrði skýr til þess, vegna þess að ég hef áður verið nokkuð hikandi um þetta mál og lýst hér í þessari hv. d. þeirri afstöðu. Ég vildi lýsa fylgi mínu við málið, sem er mótað af því, að fyrir mér er það aðalatriðið, að hvernig sem að því er farið að koma í veg fyrir það, að jarðir lendi í braski, þá tel ég það gott og æskilegt.