08.11.1943
Neðri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

84. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Það eru hér þrjár smábrtt., sem n. ber fram, og eru þær að nokkru leyti í sambandi við umr., sem fóru fram við 2. umr. Fyrsta brtt. er við 28. gr., og er það nokkru nánari ákvörðun um þau atriði, þegar kaup eiga sér stað, og þá sérstaklega viðvíkjandi því, sem hreyft var hér við fyrri umr., að það væri of langt gengið að ætla öllum ættmennum að geta fengið slíkar jarðir keyptar, ef nánari ættmenn gengju frá. Hér er þess vegna gengið á móts við þetta, því að hér er ætlazt til, að ekki komi aðrir ættmenn til greina en afkomendur í 1.–3. lið. Við þetta fækkar tölu þeirra manna, sem koma til greina, en þó má segja, að það séu allmargir, sem eiga kost á því að eignast jörðina með þessum kjörum. Ég hef átt tal við þá, sem hreyfðu þessu sérstaklega, og mér hefur skilizt, að þeir sættu sig við þessa brtt. Þá er 2. brtt., og er hún á þá leið, að það var fellt niður ákvæðið um, að jörðin skyldi verða að ættaróðali. Í staðinn fyrir þetta var sett ákvæði, sem tryggir, að ættmenn hafi forgangsrétt að ábúð eftir sömu reglum og um kaup væri að ræða, og eiga þeir við sömu leigukjör að búa og þeir, sem búa á ríkisjörðum, eftir þessu ákvæði.

Loks er brtt. við 38. gr. Það er í rauninni aðeins orðabreyt. Það er aðeins skýrar kveðið á um það, að á meðan sama ætt heldur jörðinni, skuli afgjaldið ekki hækka. Þegar við jörð tekur ný ætt, skal afgjaldið miðast við þágildandi fasteignamat á landi, húsum og mannvirkjum, er landeigandi á. Þá getur hvor aðili krafizt millimats fasteignamatsnefndar, ef liðin eru 3 ár eða meira, frá því að síðasta fasteignamat fór fram. Með þessu ætti það að vera tryggt, að menn hafi aðstöðu til að neyta réttar síns, og mætti vænta þess, að þarna væri um fulla sanngirni að ræða. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vil leyfa mér að vænta þess, að frv. verði samþ. með þessum smávægilegu breytingum.