08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

27. mál, fjárlög 1944

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. flutti ég brtt. um vegabætur milli Ólafsvíkur og Hellissands og tók hana aftur. Ég vil þakka hv. fjvn., að hún hefur tekið hana upp og flytur hana sem heimildartill.

Ég á hér nokkrar brtt., sem ég vil gera stuttlega grein fyrir. Á þskj. 517 flyt ég till. um hækkun á framlagi til hafnargerðar í Stykkishólmi úr 25 þús. kr. í 50 þús. kr. Í fyrra var sótt um 80 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni. En hv. fjvn. féllst þá á að veita aðeins 40 þús. kr. til þessa í fjárl. fyrir yfirstandandi ár. Og ég skildi hv. fjvn. svo þá, að hún ætlaðist til þess, að þetta yrði veitt í tvennu lagi, 40 þús. kr. þá og 40 þús. kr. í næsta árs fjárl. En n. hefur ekki séð sér fært að veita nema 25 þús. kr. til þessa mannvirkis, og geri ég því þessa brtt. Bryggjan, sem staðið hefur þarna um langan aldur, er mjög fúin, og er viðbúið, að hún kunni að hrynja. Hún var byggð 1908 eða 1909, og sérstaklega er fremsti partur bryggjunnar úr sér genginn. Aðallega hefur trjámaðkur unnið á henni, og mun ekki veita af þessari fjárveitingu í þessu skyni.

Önnur brtt. mín er á sama þskj., 517, XXIV, um styrk til kirkjubygginga, 15 þús. kr. til Hellnakirkju á Snæfellsnesi og 5 þús. kr. til Ingjaldshólskirkju á Snæfellsnesi. Um Hellnakirkju er það að segja, að sú kirkja, sem þar hefur staðið undanfarin 60 ár, var orðin gersamlega ónóg, og þótti óhjákvæmilegt að ráðast í nýja kirkjubyggingu. Á þessu var svo byrjað á síðasta vori, og um miðjan júní var grind kirkjunnar fullreist. En þá stóð á efni til þess að gera hana fokhelda. Þá var hættulegast á þeim tíma árs að láta hana standa þannig. En aðfaranótt 26. júlí gerði aftaka norðanveður, er lagði að velli það, sem búið var að byggja af kirkjunni. Söfnuðurinn réðst í að byggja kirkjuna að nýju. En þetta er fátækur söfnuður, og er honum því ókleift að rísa undir kostnaðinum, sem af þessu leiðir. Þess vegna fer ég fram á, að veittar verði 15 þús. kr. til þessarar kirkju. Að því er snertir 5 þús. kr. framlagið til Ingjaldshólskirkju, sem ég hef gert till. um, þá er það viðgerðarstyrkur. Það var gert við þessa kirkju fyrir skömmu, og mun það hafa kostað um 20 þús. kr. Þessi kirkja stendur á hinum fegursta og glæsilegasta stað á Ingjaldshóli á Snæfellsnesi. Og auk þess að þjóna sínum höfuðtilgangi hefur hún það líka til síns ágætis, að hún sést á haf út af öllum Breiðafirði og er hið ágætasta mið fyrir sjómenn.

Þá eru tvær brtt., sem ekki hefur verið útbýtt enn þá, en ég stend að. Önnur er um að veita „Vatnsveitufélagi Grafarness“ í Grundarfirði ábyrgð fyrir 30 þús. kr. láni til vatnsveitu. Grafarnesi hefur verið veitt fé til endurbóta á hafnarskilyrðum í sumar. Hreppurinn hefur ráðizt í að leggja vatnsveitu fyrir staðinn, hefur fengið efni til hennar, svo sem pípur, hingað til landsins. En þá skortir fé til þess að leysa það út, og þurfa þeir þess vegna þessarar ábyrgðar við, sem hér er farið fram á. Ef hv. þm. telja fordæmalaust að veita ríkisábyrgðir til vatnsveitna, þá er því til að svara, að árið 1934 var vegna eins kauptúns veitt slík ábyrgðarheimild til vatnsveitu.

Loks er brtt., sem flutt er af níu hv. þm., sem sæti eiga í hv. Nd. og í menntmn. og heilbr.- og félmn. þeirrar d. (brtt. 609, XV). Á öndverðu þingi kom erindi frá Ágúst Sigurðssyni magister, þar sem hann sendi menntmn. ýtarlega rökst. till. um ráðstafanir til umbóta á skemmtanalífi og félagslífi landsmanna. Skemmtanalífi landsmanna er mjög ábótavant og fer fram mjög með öðrum hætti en æskilegt væri. Þetta er ekki sérmál kaups,taðanna, heldur á það einnig við um sveitir sumar. Ágúst hefur um tillögur sínar leitað umsagnar allmargra stofnana. Hefur fjvn. átt kost á að kynna sér till. þessar og umsagnir. Þessar stofnanir hafa eindregið mælt með þessum till. hans og hafa orðið sammála um, að hér væri brýn þörf umbóta. Þessar stofnanir eru Stórstúka Íslands, Íþróttasamband Íslands, Sambandsstjórn Ungmennafélaga Íslands, Prestafélag Íslands, námsstjórnin á Vesturlandi, biskupinn yfir Íslandi, íþróttafulltrúinn og fræðslumálastjórinn, sem mæla eindregið með þessu. Till. Ágústs Sigurðssonar voru í aðalatriðum þær, að sett yrði löggjöf um þetta efni og ráðinn sérstakur fulltrúi, sem starfaði í samráði við fræðslumálastjóra, sem næði svo sambandi við unga og efnilega menn í sem flestum hreppum, kauptúnum og kaupstöðum til þess að fá þá til þess að bindast samtökum um umbætur í skemmtanalífi landsmanna og koma á skemmtanirnar öðrum blæ en verið hefur. Menntmn. Nd. og heilbr.- og félmn. hafa nú haft þetta mál lengi til meðferðar og rætt það á fundum, m. a. á sameiginlegum fundum. Ýmsum hv. nefndarmönnum þótti ekki tímabært að svo stöddu að setja löggjöf um þetta efni, en hins vegar nauðsynlegt að gera eitthvað. Þess vegna varð það að ráði hjá þessum n. sameiginlega að flytja till. um að veita ríkisstjórninni í 22. gr. heimild til þess að verja fé í samráði við fræðslumálastjóra til þess að hefja þetta viðreisnarstarf. Og ætlun n. er, að þetta verði gert í tilraunaskyni um eitt ár, en ekki að þetta sé bundið til frambúðar. Ég geri ráð fyrir, að menntamrh. og fræðslumálastjóri mundu þá velja til þess starfs einhvern mann, sem starfaði í samráði við þá að þessu máli á næsta ári, til þess svo að sjá, hver árangur af því verður. Og þá mætti ákveða, hvort rétt þætti að setja l. um þetta efni eða ekki. — Það er ósk þeirra n., sem ég hef nefnt, sem standa að þessari brtt., að hún verði samþ. til tilrauna í þessu efni. Ég geri ekki ráð fyrir, að mikinn kostnað mundi leiða af þessu. Ég geri ráð fyrir, að það verði starfslaun eins manns, en þó ekki full starfslaun, því að ég geri ráð fyrir, að þessu starfi gæti maður gegnt, þótt hann hefði öðrum störfum að gegna, en það yrði á valdi fræðslumálastjóra og menntamrh. Þetta svífur nú ekki alveg í lausu lofti, því að Ágúst Sigurðsson hefur um nokkurra ára skeið stjórnað námsflokkum. Og þær samkomur, sem þeir hafa haldið, eru með sérstökum fyrirmyndarblæ. Og þegar maður ber þær samkomur saman við ýmsar aðrar samkomur, þá gefur það von um, að hægt sé með einhverjum ráðum að fá hér umbætur á.

Fleiri brtt. ætla ég ekki að gera að umtalsefni, a. m. k. ekki að sinni.