08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

27. mál, fjárlög 1944

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég á ekki margar brtt. hér og sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þær, sem fyrir liggja. Í rauninni er hér aðeins ein brtt., sem ég flyt, á þskj. 517, XV, og vil fara nokkrum orðum um. Hún er um 75 þús. kr. framlag til að gera brú á Stjórn á Síðu. Hv. fjvn. hefur lagt til, að á næsta ári verði gerð brú á Hörgsá, sem er skammt þaðan, og til þess, að torfærulaust sé mikið til austur á Síðu, þarf að brúa þessa á. Það er ekki mikið mannvirki að brúa hana, en það væri mikið hagkvæmi, að þessar tvær brýr yrðu gerðar samtímis, bæði vegna vinnuafls og flutnings á efni og öðru. Öll líkindi eru til, ef allt verður með felldu, að þessi brúarfjárveiting verði sett í fjárl. á næsta ári, verði það ekki gert nú, og gefur að skilja, að mikið fé mundi sparazt með því að gera báðar brýrnar samtímis.

Ég sé, að hv. 10. landsk. hefur flutt brtt., sem fer í sömu átt og mín, um að þessar tvær brýr verði undir sama lið. Mér finnst engu máli skipta, hvor till. verður samþ., því að þær stefna báðar að sama marki, og munurinn á þeim er aðeins orðalagsmunur. En ég vildi mega vona, að hv. þm. vildu líta á nauðsynina á því, að þessi torfæra verði brúuð sem fyrst og ríkið spari sér fé með því að láta gera báðar brýrnar samtímis.

Enn fremur er ég meðflm. að till. á sama þskj.; XXVI, um framlag til Bændaskóla Suðurlands. Það er þegar búið að setja l. um þennan skóla, og nú í haust hefur verið unnið að því að velja honum stað. Er það þegar ákveðið eða um það bil og ekkert því til fyrirstöðu, að byrja mætti á verkinu á næsta vori, nema skortur á fé. Höfum við nokkrir þm. lagt til, að veittar verði 200 þús. kr. til þessara framkvæmda. Ég tel víst, að hv. þm. líti á þetta mál með sama skilningi og þegar l. voru sett. Það er leikur einn að setja l. um stofnanir, ef síðar á að neita um framlög til framkvæmdanna. Það er því eðlilegt framhald lagasamþykktarinnar, er hér er farið fram á fjárveitingu til að hefjast handa um að reisa skólann. Tel ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta.

Ég er ekki meðflm. að fleiri till. en þessum tveimur, og vænti ég, að hér sé svo hóflega í málin farið af minni hálfu, að þess megi vænta, að Alþ. líti með skilningi á þær.