11.12.1943
Neðri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

160. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. Af því að ég var starfsmaður þessarar n. um tíma, finnst mér málið vera mér ofurlítið skylt og langar að segja nokkur orð um það. — Að ég varð starfsmaður þessarar n., kom til af því, að mig minnir, að í þáltill. er tekið fram, að nota skuli þá verkfræðinga eða þær skrifstofur, sem ríkið hefur, til aðstoðar n. En mér er kunnugt um, að leitað var til ríkisstofnana um aðstoð við þessa n., áður en leitað var til mín, en ríkisstofnanir þessar töldu sig ekki hafa þeim mönnum á að skipa, sem þær sæu fært, að tækju að sér þetta verk. Það, sem ég gerði fyrir n. í þessu máli, var lítilfjörlegt, því að eins og hv. þm. Hafnf. tók fram, var ekki gerð tilraun til að gera kostnaðaráætlun um málið, ekki einu sinni byrjað á slíkri áætlun, enda var ekki hægt um vik. Fyrir n. lá mikið starf, einnig í því að skipuleggja þetta svæði til skipasmíðastöðvar. Mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar vitamálastjóri vill stöðva málið á því, að ekki liggi fyrir kostnaðaráætlun. Eins og hv. 7. þm. Reykv. (SK) tók fram, er í 1. gr. ákveðið framlag ríkissjóðs og ákveðið, að það fari ekki fram yfir þessar 2 millj. Okkur er kunnugt um, að þegar hafnargerðir eru samþ., liggja fyrir kostnaðaráætlanir, en það er samt ekki nema stundum, sem þessar áætlanir standast, og það er alltaf sú hætta, sem þarf að reikna með. Það skal viðurkennt, að áætlun liggur ekki fyrir, en eins og málið er í pottinn búið, var ekki hægt að gera áætlun, því að kostnaðurinn var svo mikill, tíminn enginn og ekki nægilega miklum mannafla á að skipa.

Ég held, að d. geti samþ. þetta. Það hafa áður verið samþ. fjárveitingar til gagns fyrir landbúnaðinn, hærri en þessi fjárveiting til skipasmíðastöðvarinnar og án þess að það lægi fyrir áætlun, og er þar skemmst að minnast uppbótanna á afurðirnar. Ég get satt að segja ekki séð, að þingið standi sig ekki við að samþykkja þessi l.