08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

27. mál, fjárlög 1944

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég leyfi mér að gera stutta grein fyrir brtt. á þskj. 599, sem ég er 1. flm. að. Hún er um að veita 250 þús. kr. til hvíldarheimilis sjómanna. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur verið hafizt handa um söfnun fjár í þessu skyni. Hefur sú söfnun gengið vel, og er álitleg upphæð komin, en eins og högum er háttað, þarf mikið fé til þessa, jafnvel þótt frestað verði að hefjast handa til betri tíma. Ég sé bæði þörf og ástæðu til að hugsa til þeirrar stéttar í landinu, sem á mestan og drýgstan þáttinn í því, hve þjóðarauðurinn hefur aukizt að undanförnu, en það er sjómannastéttin. Það er vitað mál, að aðbúnaður sjómanna er á þann veg, að þeir endast oft ekki lengi, og bíða þeirra þá stundum ömurleg elliár, er þeir þurfa að hírast hjá vandalausu fólki. Ég álít, að skylda ríkisins sé nú meiri en nokkru sinni fyrr að virða og viðurkenna ómetanlegt framtak, sem íslenzka sjómannastéttin hefur sýnt á þessum tímum, og þegar litið er á það, að þessi stétt hefur orðið harðar úti en nokkur önnur stétt í landinu, þykist ég mega vænta þess, að hið háa Alþ. líti með sanngirni á þær óskir, sem hér eru fram bornar.

Ég hef síðar veitt því athygli, að á þskj. 317 er brtt. frá hv. 8. þm. um 200 þús. kr. framlag í sama skyni, og getur þá sú till. orðið varatill. við till. okkar hv. 9. landsk., sem ég vildi þó mælast til, að yrði samþ.

Þá flyt ég litla brtt. á þskj. 605 ásamt fleiri þm. um hækkun á styrk til Soffíu Guðlaugsdóttur úr 1200 kr. upp í 2500 kr. Eins og þeir vita, sem kynnt hafa sér íslenzk leikhúsmál, hefur hún unnið að þeim málum af atorku og mikilli hæfni, en gengið illa að rækja listina eins og hugur stendur til, svo sem oft er um slíkt fólk. Okkur flm. er fullkunnugt, að hún hefur hlotið mikla viðurkenningu fyrir leikstarfsemi sína, og teljum við, að íslenzkri leiklist væri góður greiði gerður með því að samþ. þessa till.

Að öðrum brtt., sem ég er meðflm. að, mun ég ekki víkja, enda hefur þegar verið gerð grein fyrir sumum þeirra, og fyrir hinum munu aðrir hv. þm., sem eiga eftir að tala, eflaust gera grein síðar meir.