10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

153. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Mþn., sem haft hefur alþýðutryggingalöggjöfina til athugunar, lauk ekki endurskoðun eins kaflans, en hún gerir ráð fyrir að vinna áfram að endurskoðun hans. Hins vegar var hún á einu máli um, að aðkallandi væri að gera þá breyt. á elli- og örorkubótum, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu.

Fjhn. hefur athugað þessar breyt. á nokkrum fundum og orðið sammála um, að rétt sé að gera þessar breyt. nú þegar. En efni frv. er, að í stað þess, að nú eru greiddir af Tryggingastofnun ríkisins 30 hundraðshlutar af heildarúthlutun samkv. 2. tölulið 8. gr . l., þá skuli framvegis framlag Tryggingastofnunar ríkisins vera 50 hundraðshlutar eða helmingar heildarúthlutunar samkv. 80. gr. fyrir bæði 1. og 2. flokks.

Ég gerði grein fyrir því við fyrstu umr., hversu miklu munaði á framlagi ríkissjóðs á yfirstandandi ári, ef farið væri eftir ákvæðum þessa frv., en það verður 800 þús. kr. meira en samkv. gildandi l. Vitaskuld breytist þessi upphæð með breyt. á því, sem bæjar- og sveitarfélög leggja fram í þessu skyni.

N. var ásátt um að mæla með því, að þessi breyt. yrði gerð, en telur ekki nógu skýrt tekið fram í 1. gr., að sú flokkaskipting, sem felst í 1. og 2. tl. 80. gr., falli niður. N. leggur til, að þetta sé skýrt fram tekið, og gerir því brtt. í þá átt á þskj. 581. En þessi takmörkun, sem þarna er um að ræða, er, að tillag bæjar- og sveitarfélaga megi ekki nema meira en ¼ af heildartillagi ríkissjóðs til ellilauna, og að því, er styrk til einstaklinga snertir, ekki fram úr ½ sama tillags. N. hefur orðið sammála um, að um leið og framlag verður hið sama í 1. og 2. flokki, þá sé þessi gr. fallin úr l. Því er till. þessari bætt við.

Þessi 50%, sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram, eru miðuð við tvennt. Í upphafi, þegar tryggingal. voru sett og ekki var vitað, hvað mikið þyrfti, þá var ákveðið, að framlag bæjar- og sveitarfélaga skyldi ekki vera meira en 50%. En síðan dýrtíðin hefur vaxið, hefur tillagið farið fram úr þessu og komst upp í 75%, en er nú um 70% í 2. flokki, en 50 í 1. flokki. En það er gert ráð fyrir, þegar gengið er frá endurskoðun þessa kafla, að miðað sé við, að framlög ríkis og sveitarfélaga séu nokkuð hliðstæð, svo að lífeyris- eða tryggingarsjóður geti staðið undir greiðslunum. M. ö. o., n. er sammála um og leggur áherzlu á, að frv. sé samþ. með þessum breyt., sem hér er um að ræða, þótt þær komi ekki til framkvæmda fyrr en við úthlutun ellilauna á næsta ári.