08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

27. mál, fjárlög 1944

Sigurður Þórðarson:

Ég flyt ásamt tveimur öðrum hv. þm. lítils háttar brtt. við brtt. XVIII. á þskj. 599, og vildi ég með fáum orðum mæla með henni. Hún telst fremur til viðauka en breytingar, og er á þann hátt, að við brtt. á þskj. 599 komi nýr málsliður, sem hljóðar þannig: „Enn fremur verði á sama hátt gert upp leiði Bólu-Hjálmars í Miklabæjarkirkjugarði í Akrahreppi.“

Þessir menn voru báðir stórskáld, en Bjarni Thorarensen var viðurkenndur af alþjóð, á meðan hann lifði, hafinn „hefðar upp á jökultind“ eins og hann sjálfur orðaði það. En Bólu-Hjálmar var alþýðumaður, sem bjó við þröng kjör og var „hjábarn veraldar“ og af sinni samtíð troðinn ofan í skarnið.

Leiði Bjarna amtmanns hefur verið hirt vel, eftir því sem um er að gera, og er sjálfsagt að halda því við og endurbæta. Eins er sjálfsagt að gera að leiði Bólu-Hjálmars, og var það á seinni árum gleymt af flestum. Þó er nú vitað, hvar það er í Miklabæjarkirkjugarði, og í sumar var merkt við það, svo að það týndist ekki aftur. Það er aðallega fyrir atbeina eins manns, Stefáns Jónssonar fræðimanns á Höskuldsstöðum, að leiði Bólu-Hjálmars fannst. Hann aflaði sér óyggjandi vissu um legu þess. Það hafði ekki verið svo mikið sem hlaðið upp, — það er sem næst hola ofan í jörðina. Ég efast ekki um, að þeir, sem vilja láta halda við leiði Bjarna, vilja ekki láta leiði Bólu-Hjálmars glatast. Vitaskuld kostar þetta nokkurt fé, en ekki svo mikið, að nokkur geti séð eftir því að þannig verði varðveitt leiði þessara tveggja stórskálda.

Ég veit ég þarf ekki að hafa um þetta langt mál. Ég lýsi yfir fylgi mínu við aðaltill., en ég hygg, að enginn geti haft á móti því, að þessari till. sé bætt við.

Það varð nokkur árekstur milli þessara tveggja manna í lifanda lífi. „Klögumálin gengu á víxl,“ eins og það var orðað. Nú vona ég, að klögumálin gangi ekki á víxl, þegar um er að ræða að heiðra minningu þeirra beggja.