11.11.1943
Efri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

152. mál, alþýðutryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þessu frv. hefur verið útbýtt hér í d. aðeins fyrir fáum dögum, og er því varla hægt að vænta þess, að þm. hafi haft tækifæri til að kynna sér allan þennan mikla bálk. Og þótt frv. sé flutt af heilbr.- og félmn., er mér ekki ljóst, hversu mikil vinna í raun og veru hefur verið lögð í frv., og kom það heldur hvergi fram í ræðu hv. frsm.

Ég hef rekið mig á nokkur atriði í þessu frv., sem ég vil minnast á, einkum það, að ég sé ekki, að frv. hafi verið sent til umsagnar einum mikilvægum aðila þessa máls, en það er félag atvinnurekenda. Að vísu er sagt, að leitað hafi verið álits þeirra, en ekki er að sjá, að frv. í heild hafi verið sent þeim til umsagnar. Vil ég mælast til, að n. taki til athugunar að lokinni þessari umr., hvort ekki er unnt að senda þessum aðilum frv. til athugunar, þar sem þeim er þessi breyt. ekki óviðkomandi, nema upplýsist, að þeir hafi haft frv. til athugunar eins og það liggur fyrir og þeir hafi ekkert haft við það að athuga.

Ég vil þá leyfa mér að fara út í nokkur atriði þessa frv., sem ég vænti, að hv. n. sé fáanleg að taka til athugunar.

Í 10. gr. er ákveðið, að undanþegin tryggingarskyldu séu útihús í sveitum, sem byggð séu úr torfi og grjóti, önnur en heyhlöður. Ég sé ekki, hvaða rök liggja til þess, að maður, sem slasast við að byggja torfhús, skuli ekki vera tryggður, nema ef nota á það torfhús fyrir hey. Ég held, að þessi lína sé dregin óeðlilega. Ef það er viðurkennt af löggjafanum, að þessir menn eigi að vera tryggðir sem mest, finnst mér, að ekki eigi að misjafna þannig hluta manna, sem vinna á sama túni, við sama bæ og að sams konar störfum, við að byggja hús úr torfi og grjóti, að annar þeirra fái bætur, ef slys ber að höndum, en hinn engar.

Þá vil ég minnast á 11. gr. Þar er ætlazt til, að menn séu tryggðir, ef þeir eru á ferðalagi nauðsynlegra erinda fyrir þau fyrirtæki, sem þeir vinna við, milli vinnustaðar og heimilis, þó aðeins í ferðum, sem farnar eru samdægurs. Ég vil benda á, hvort ekki sé ástæða til að hafa þetta víðtækara. Það kom fyrir á síðasta vetri, að starfsmenn utan af landi fóru fyrir fyrirtæki sín til Reykjavíkur og fórust á leiðinni, og fengust engar slysabætur greiddar fyrir þá, og mundu ekki heldur hafa fengizt eftir ákvæðum þessa frv., þó að það hefði verið komið í l. Ég vil biðja n. að athuga, hvort ekki sé rétt, að menn, sem greitt hafa tryggingargjöld sín, eigi ekki að fá bætur fyrir slys, sem að höndum kann að bera, er þeir eru á ferðalagi vegna embættis síns eða fyrirtækis, hvort sem það er lengra eða skemmra.

Þá eru í sömu gr. ákvæði um, að sjómenn séu tryggðir fyrir slysum á sjó eða þegar þeir eru í landi, annaðhvort við störf í þarfir útgerðarinnar eða fyrir sjálfa sig, í erindum, er leiðir beint af starfi þeirra sem sjómanna. Það kom einnig fyrir í fyrra, að sjómenn, sem voru lögskráðir eða fastráðnir á skip og höfðu verið í sama skiprúmi mánuðum saman, voru á ferðalagi milli heimilis síns og útgerðarstaðar og fórust, án þess að bætur fengjust fyrir, og höfðu þó verið greidd tryggingargjöld mánuðum og árum saman fyrir þessa menn. Ég vil biðja hv. frsm. að athuga, hvort ekki sé rétt að bæta úr þessu frekar en gert er með þessu frv.

Í 13. gr. er ákvæði um, að ef slasaður maður missir rétt til slysabóta vegna vanrækslu atvinnurekanda að tilkynna slys, sem ætla má, að þó hefði verið bótaskylt, og beri þá hlutaðeigandi atvinnurekandi ábyrgð á slysabótum hins slasaða eftir sömu reglum og slysatryggingin mundi hafa greitt, ef hún hefði bætt slysið. Ég tel vafamál, hvort rétt er eða viturlegt að hegna viðkomandi aðila, kannske aðeins fyrir vanga, svo róttækt sem hér er gert ráð fyrir. Það gæti farið svo, að viðkomandi aðili yrði gjaldþrota fyrir það. Ég vil aðeins benda á þetta, ekki af því að ég vilji veikja ábyrgðartilfinningu viðkomandi manna, heldur vil ég aðeins mælast til, að athugað sé, hvort ekki sé rétt að setja um þetta einhver önnur ákvæði. Það kynni að koma fyrir, að þessi aðili gæti alls ekki greitt þessar bætur. Það stendur að vísu í sömu gr., að slysatryggingunni sé heimilt að bæta slíkt slys, en henni er það ekki heldur skylt. Með þessu móti finnst mér, að sá, sem fyrir slysinu verður, sé ekki tryggður að fullu og kannske gengið óhæfilega langt í að hegna viðkomandi aðila fyrir þá vanrækslu, sem hér á sér stað.

Þá vil ég minnast á 24. gr., sem er um líkt efni, vanrækslu í að tilkynna tryggingarskyldan atvinnurekstur eða að greiða iðgjöld. Þá á til að byrja með að greiða vangoldin iðgjöld fimmfalt, og er út af fyrir sig ekkert við því að segja, en hér við bætist svo það, að slysatryggingin hafi rétt til endurgreiðslu á bótum þeim, sem hún kann að verða fyrir vegna slysa, sem hinir ótryggðu, en tryggingarskyldu menn verða fyrir, og auk þess skuli atvinnurekandi sæta sektum. Mér finnst, að hér sé atvinnurekanda hegnt nokkuð hlífðarlaust fyrir vanrækslu sína, og vil eindregið biðja hv. frsm. að athuga, hvort ekki sé ástæða til að koma þessu öðruvísi fyrir. Ég sé, að þetta er í núgildandi l., ef treysta má, að aðeins það, sem prentað er með skáletri, séu ný ákvæði, en allt hitt standi í núgildandi l. En það þarf ekki síður að athuga það, sem nú er í gildi, fyrst verið er að endurskoða l. á annað borð.

Eins og ég tók fram í upphafi, hef ég ekki haft tíma til að lesa allt þetta frv. og grg. grandgæfilega, en ég vil þó ræða nokkuð um stefnu þessara mála almennt. Hún virðist vera sú að tryggja sem flesta þegna þjóðfélagsins gagnvart slysum, og er út af fyrir sig ekkert nema gott við því að segja, því að það er það, sem allir óska eftir. En því fylgir nokkur vandi. Því er ekki að neita, að þegar svo er komið, að nokkrum hluta þjóðarinnar er séð fyrir tryggingu, þá hlýtur það einnig að vera skylda þjóðfélagsins að sjá honum einnig fyrir réttindum. Spurningin er því sú, hvort ekki sé rétt að stíga sporið fullt, þannig að komið verði á almennri tryggingu í landinu. Hvers vegna á t. d. fremur að bæta það, ef kona slasast við þvottabala, en ef hún slasast við að ala upp börn eða fæða börn eða vinna önnur nauðsynleg störf í þarfir þjóðfélagsins?

Það hefur komið fram, að sjómenn og fjölskyldur þeirra eru óánægðar yfir því misræmi, sem er á slysabótum fyrir slys við millilandasiglingar og almenn sjóslys heima fyrir. En ég vil benda hv. frsm. á, að þær slysabætur, sem samið hefur verið um að greiða sjómönnum fyrir að fara um ófriðarsvæðið, komu ekki fyrir það eitt, að þá væri talið nauðsynlegt, að slysabætur sjómanna væru svona háar, þó að ég sé þar með ekki að segja, að þær séu of háar. Þetta kom til af því, að deila var milli útgerðarmanna og stéttarfélags sjómanna um, hvor leiðin væri skynsamlegri, að greiða háar bætur eða að greiða há laun og áhættuþóknun. Til samkomulags var síðan farin millileið, þannig að greidd voru að nokkru leyti há laun og áhættuþóknun og að nokkru leyti háar tryggingar, en hvorugt eins hátt og um var rætt, ef aðeins önnur leiðin hefði verið farin, því var skipt nokkurn veginn jafnt. En þá var það ekki hugsað af hálfu útgerðarmanna og sjómanna, að slíkar greiðslur væru grundvöllur undir framtíðartryggingum sjómanna yfirleitt. Ég vil taka þetta fram, af því að hv. frsm. benti á, að þetta þyrfti að samræma — og þá helzt á þann hátt að hækka tryggingar þeirra, sem nú eru lægra tryggðir, upp í það, sem þeir hafa, sem sigla nú á áhættusvæðinu. Það voru ekki heldur fullkomin rök, sem hv. frsm. hélt fram, að atvinnurekendum mundi lítið bregða við þessi gjöld, því að stríðsiðgjöldin eru byggð á því, að stríðsgróðinn geti staðið undir þeim. Ég vil ekki óska útgerðarmönnum eða sjómönnum annars eins árferðis og var í atvinnulífinu árin 1933–1939, en ég veit ekki, hvort nægilega er séð fyrir því, að hægt sé að greiða öll gjöld, ef slíkt árferði skyldi koma aftur. Ég skal ekki segja um það. En eitt er víst, að ef það er ekki hægt, þá hljóta að koma fram sterkar kröfur um kauplækkun hjá þessum sömu mönnum, sem á þessum tímum hafa fengið kauphækkun í annarri mynd, og því er ekki hægt að neita, að stórkostleg fríðindi eins og tryggingar eru kauphækkun til þeirra manna, sem njóta þeirra.

Þó að ég hafi látið þessi orð falla hér, þá bið ég samt hv. frsm. að taka orð mín ekki svo, að ég sé á móti því út af fyrir sig að hækka slysabætur, en ég vil, að það sé vel athugað, þegar er um að ræða ákvæði sem þessi, að þeim sé, ef mögulegt er, breytt með fullri samúð þess aðila, sem á að greiða gjöldin. Ég tel, að það sé langheppilegast, ef unnt er, að búa svo um, eins og hv. frsm. líka taldi nauðsynlegt, að fullkominn skilningur og samkomulag gæti orðið í þessu máli milli launagreiðenda og launþega í öllum þeirra málum, og ég vænti, að eins geti orðið í þessu máli. Þetta er í raun og veru mikilsvert þjóðfélagsmál, og má því ekki hraða því gegnum þingið meira en svo, að hægt sé að athuga það af öllum aðilum, sem við þessi l. eiga að búa. Vænti ég því, að ábendingar mínar verði teknar til athugunar af hv. n.