11.11.1943
Efri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

152. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil þakka hv. þm. Barð. fyrir þessar ábendingar. Mér er ljúft, að frv. sé tekið til athugunar og bent á það, sem betur mætti fara.

Hv. þm. sagði, að hann sæi ekki, að frv. hefði verið sent atvinnurekendum til umsagnar, og það er alveg rétt hjá honum, að það hefur ekki verið gert, og var það af því, að n. taldi það ekki kleift. Áður en gengið var til starfa, var leitað álits margra aðila, þar á meðal Alþýðusambands Íslands og Landssambands atvinnurekenda, og óskað till. og ábendinga frá þeim, en frv. sjálft var engum sent, hvorki Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi atvinnurekenda né neinum öðrum, og var varla hægt til þess að ætlast, eftir það sem á undan var gengið. Ég vil enn fremur benda á, að n. er skipuð með það fyrir augum, að ýmis sjónarmið gætu átt þar sína fulltrúa, og ef hv. þm. athugar, hvernig n. er skipuð, mun hann sannfærast um, að svo er.

Ég tek undir það með hv. þm., að það er mjög mikilsvert í sambandi við framkvæmd slíkra l. sem þessara, að hún megi njóta skilnings beggja aðilanna, bæði þeirra, sem l. eiga að njóta, og hinna, sem leggja fram féð.

Ég skal þá víkja örfáum orðum að einstökum atriðum, sem hv. þm. minntist á. Hann spurði, hvernig á því stæði, að tryggingin væri látin ná til bygginga í sveitum almennt, en þó ekki til húsa, sem gerð eru úr grjóti og torfi, og taldi hann þetta óeðlilegan mismun, ef til slysa kæmi. Ég skal játa, að þetta er rétt, en ástæðan er sú, að erfiðara er að hafa eftirlit með slíkri húsagerð en annarri og því örðugra að framkvæma l. hvað þetta snertir, enda áhætta þar minni en þegar unnið er að smíði margra hæða húsa, þar sem oft er notaður pallur í allmikilli hæð frá jörð.

Þá taldi hv. þm. það óeðlilega takmörkun í 11. gr., þar sem sagt er, að tryggingin skuli því aðeins ná til ferða milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar, að þær séu farnar samdægurs. Ég er honum ekki samdóma um þetta. Ég álít þetta ákvæði eðlilegt, því að annars væri ekki hægt að hafa eftirlit með þessu. Enn fremur taldi hann, að ákvæðin um tryggingarsvið sjómanna væri óeðlilega þröngt, t. d. að því leyti, að fyrir menn, sem ráðnir væru á skip, en færust með öðru skipi á leið til vinnunnar, fengjust engar bætur samkvæmt þessum l. Þetta er alveg rétt, en ég skal benda á það, að tryggingin er hér miðuð við skráningartímann, enda væri eftirlit með framkvæmdinni ókleift að öðrum kosti.

Þá talaði hv. þm. um það, að viðurlög þau, sem getið er um í 24. gr., séu allt of ströng. Slíkt getur verið álitamál. Ég bendi á það, að viðurlög, sem nema aðeins fimmfaldri iðgjaldagreiðslu, eru næsta smávægileg, þar sem yfirleitt er um fyrirtæki að ræða, sem eru smá eða nýtekin til starfa, þegar svona stendur á. Ég álít því einmitt, að þessi viðurlög séu fjarri því að vera fullnægjandi. Að því er snertir kröfurétt á hendur atvinnurekanda, er náttúrlega hugsanlegt, að þetta geti riðið honum að fullu, ef um stórslys væri að ræða og hann ekki megnugur að greiða bæturnar, en ég sé ekki, hvernig hægt væri að setja sérákvæði, að því er snertir þessar kröfur frekar en aðrar, til að afstýra slíku. Með þessi mál hefur jafnan til þessa verið farið þannig, að tryggingaráð hefur úrskurðað, að hve miklu leyti þessum rétti skuli beitt, og mér er ekki kunnugt um, að nokkru sinni hafi verið gengið svo nærri atvinnurekanda, að honum hafi skapazt fjárhagslegur voði af. Enn fremur vil ég benda á ákvæði það, sem bætt er við 24. gr., þar sem dregið er úr þessum viðurlögum, þar sem um er að ræða starfsemi, sem telst ekki sjálfstæður atvinnurekstur.

Ég skal viðurkenna með hv. þm., að sumt, sem hér hefur verið drepið á, er álitamál, og væri athugandi, hvort ekki væri unnt að víkka tryggingasviðið enn meir. En mér er ljóst, að af því mundi leiða aukinn kostnað, fyrst og fremst vegna þess, að eftirlitið með framkvæmd trygginganna mundi torveldast.

Ég er sammála hv. þm. um, að æskilegt væri, að sem mest samræmi gæti orðið í tryggingum hér á landi. Það er eðlilegt, ef ein stétt fær tryggingu, eins og hér er gert ráð fyrir, að aðrar stéttir æski þá hins sama eða svipaðs. Ég er honum sammála um, að æskilegt væri, að tekið yrði til athugunar, hvort ekki væri hægt að bæta öll slys. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, hafði n. þetta til athugunar og hefur safnað skýrslum um dauðaslys, en niðurstaðan varð sú, að ekki var talið fært að fella ákvæði um þetta inn í slysatryggingal. í núverandi ramma þeirra, sem er sá, að tryggingarnar séu aðeins bundnar við ákveðin störf. Slíkar almennar tryggingar er torvelt að taka upp og veita t. d. bætur fyrir það, ef kona brennir sig við heimilisstörf eða læzt af barnsburði. En ég tel sem sagt, að sjálfsagt sé að taka þetta til athugunar.

Hv. þm. sagði, að þegar samið var um stríðsslysatryggingarnar og l. um þær sett, hafi ástæðan ekki verið sú, að bæturnar hafi verið of lágar, heldur hafi tilgangurinn verið sá að koma í veg fyrir, að kauphækkun yrði of mikil. Ég hygg, að þetta sé ekki nema að nokkru leyti rétt. Það var almenn skoðun, að slysabætur þær, sem greiddar voru, væru of lágar, og mun það hafa ráðið mestu um, svo og það, að hér var að ræða um bætur fyrir stríðsslys eins og þau, sem orðið hafa hér alloft að undanförnu. Eins og hv. þm. er kunnugt, eru bæturnar tvenns konar, annars vegar vegna slysa, sem verða í siglingum með ströndum fram, og svo helmingi hærri bætur vegna slysa í siglingum milli landa. Í till. n. er ekki farið lengra en það, að gert er ráð fyrir, að bæturnar nemi ekki að meðaltali hærri upphæð en samanlagðar bætur vegna slysa á minna áhættusvæðinu og bætur samkvæmt slysatryggingum alþýðutrygginganna, en sú upphæð hefur numið að meðaltali 28.000–30.000 kr. fyrir hvert slys á undanförnum árum.

Annars þakka ég hv. þm. fyrir þessar ábendingar og lýsi yfir því, að þær munu verða teknar til greina, eftir því sem ástæða þykir til.