11.11.1943
Efri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

152. mál, alþýðutryggingar

Gísli Jónsson:

Ég skal ekki tefja tímann, en vil aðeins benda á það í sambandi við ræðu hv. frsm., að það er einmitt vegna þess, hvernig n. er skipuð, að ég hef óskað þess, að þetta verði gert. Ef litið er á 15. bls. frv., þá sést, að enginn nm. er atvinnurekandi. Í n. er að vísu einn maður frá Sjóvátryggingafélagi Íslands, sem er þó verzlunarfyrirtæki. Hann er þaulkunnugur tryggingastarfsemi, og má gera ráð fyrir, að sjónarmið þessa manns sé sjónarmið tryggingafræðings. Það eru því tilmæli mín, að málið sé sent atvinnurekendum til umsagnar með þeim ummælum, að svar verði að berast um hæl. Þetta þyrfti ekki að verða til að tefja málið. Svar gæti verið komið aftur á mánudag. Vegna málsins sjálfs er ekki rétt að láta það fara út úr þ. eftir þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram, án þess að þeir fái tækifæri til að segja álit sitt um málið. Ég vænti þess því, að hv. frsm. sendi málið til stj. atvinnurekendafélagsins með þeirri ósk, að hún svari ekki síðar en á mánudag, en það ætti að vera nægur tími fyrir hana.

Þá vil ég benda á, að hv. frsm. hefur ekki fært nógu skýr rök fyrir afstöðu sinni varðandi 10. gr., en ég held því fram, að það geti valdið misskilningi, að tryggingarskyldar séu ekki húsabyggingar í sveitum, nema um meiri háttar aðgerðir sé að ræða. Þessi takmörkun getur valdið misskilningi, þegar farið verður að gera upp, hvað maður eigi að fá í bætur.

Þá vil ég snúa mér aftur að 11. gr. Ég er ekki sammála hv. frsm., að því er hana snertir, og tel, að þetta ætti að athuga miklu nánar. Það er enginn vafi á því, að ýmsir menn, sem fyrir slysum verða, munu koma með bótakröfur til Tryggingastofnunarinnar, en verður vísað frá, af því að hún er ekki skyld að greiða bætur samkvæmt l. Þess vegna mælist ég til, að tryggingin verði látin ná til allra þeirra manna, sem ráðnir eru við fyrirtæki eða félag föstum samningum, og sé ég ekki neina örðugleika á því, enda hefur þá tryggingin fengið árum saman iðgjöld frá þeim aðilum. Nákvæmlega sama er um sjómenn. Það er ekki hægt að hafa þá lögskráða, nema þeir séu raunverulega á skipum, en eins og kunnugt er, eru skipsmenn allir á fullum launum, þó að þeir séu teknir úr skránni um stundarsakir vegna ástandsins í heiminum. Væri ekkert óeðlilegt, þó að þessir menn væru tryggðir þann tíma, sem þeir eru að fara til og frá heimili sínu. Ég mælist til þess, að þetta verði athugað.

Hv. frsm. svaraði ekki athugasemdum mínum um 13. gr., en hann mun efalaust athuga það síðar. Að því er snertir víkkun á tryggingasviðinu, viðurkenni ég, að hægt er að athuga það mál síðar, og veit ég, að hv. frsm. hefur fullan hug á því.

Þá vil ég aðeins leiðrétta þann misskilning, að ég hafi sagt í ræðu minni, að útgerðarmenn eða atvinnurekendur hefðu yfirleitt álitið slysatryggingarnar nógu háar. Ég sagði ekkert um það, heldur sagði ég, að það, hve háar stríðsslysabætur væru, gæti ekki verið neinn mælikvarði á það, hve háar almennar slysabætur skyldu vera. Ég er hv. þm. sammála um það, að þær eru engan veginn nógu háar, og ég er ekki eini atvinnurekandinn, sem þá skoðun hefur. En hinar háu bætur á hafinu voru ekki settar fyrir neitt samkomulag um þessar bætur almennt, heldur í því skyni að fá menn til að sigla á ófriðarsvæðinu.

Ég sé ekki ástæðu til að gera fleiri athugasemdir um þetta mál, en vil ítreka þá till. mína, að málið sé sent atvinnurekendum til umsagnar, ekki aðeins vegna þess, hvernig n. er skipuð, heldur einnig með tilliti til þál. frá 21. maí.