10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

152. mál, alþýðutryggingar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Það kom nú fram hjá hæstv. forsrh., að honum fannst ég tala frá nokkuð þröngu sjónarmiði um skipun mþn., þó að hann hins vegar viðurkenndi, að frá því sjónarmiði væri þetta e. t. v. rétt, sem ég hefði sagt. En ég vil nú leggja áherzlu á það — og segi það í fullri vinsemd við hæstv. fors.og félmrh. —, að eins og skipulag okkar allt er upp byggt, — og þar skiptir ekki máli, hvort maður er óánægður með það skipulag eða ekki —, eins og þjóðfélagsfyrirkomulagið er, þá er það nauðsynlegt að hafa samstarf við þá pólitísku flokka, sem í landinu eru, til þess að mál sem þetta nái fram að ganga. Það verður ekki, nema þeir pólitísku flokkar, sem í landinu eru, veiti þeim, er að þessu vinna, atbeina og vilji gera þetta mál eða önnur að sínu máli, og sama gildir um mörg önnur mál. Það getur verið, að í slíku tilliti sé við einn flokk að eiga í dag, en annan á morgun. En ef samvinna flokka nógu margra er ekki fyrir hendi um mál, ná þau ekki fram að ganga á Alþ. Og ég veit, að hæstv. forsrh. er ljóst, að þetta er svo, þegar um vandasöm mál er að ræða. Og ég veit, að hæstv. ráðh. finnur til þess, að þau mál, sem honum eru fengin til framkvæmda, eru ekki öll honum fengin á þann veg, sem hann vildi, vegna þess að samvinnu hefur ekki verið komið á um þau frá upphafi, þrátt fyrir hans bezta vilja. Honum ætti því að vera allra manna ljósast, hvað það er nauðsynlegt, að flokkarnir séu fyrir fram og frá upphafi dregnir inn í samvinnu til undirbúnings málum, sem hann á að framkvæma. Það lýsir þess vegna sérstökum velvilja við mál og umhyggju fyrir því, að það nái fram að ganga, ef flokkur óskar eftir því að fá að fylgjast með málinu frá því fyrsta og eiga þátt í að skapa það til þess síðan að geta . fylgt því fram til sigur.

Og varðandi skipun þeirrar n., sem hér er um að ræða, og hv. samþingismaður minn, 5. þm. Reykv., brá nú á nokkurn galsa út af, sem er ekki að furða, þar sem nú er alláliðið kvölds og nokkur næturgalsi hlaupinn í menn, þá er það, eins og hæstv. forsrh. sagði, að þegar menn heyra, að þessir tveir menn, hv. 3. landsk. og hv. 5. þm. Reykv., eru í n., þá er mönnum ljóst fyrst og fremst, að þar eru pólitískir menn á ferð, þó að þeir geti haft ágæta hæfileika í þessu efni. Og ég vil fullyrða, að þriðji flokkurinn eigi þarna mann í n., þó að hann sé kannske að mörgu leyti lakari sem nm. en sjálfstæðismaðurinn, sem er í n., en er miklu tengdari sínum flokki en sjálfstæðismaðurinn í n. er Sjálfstfl., því að sá maður, sem í n. hefur verið kosinn sem framsóknarmaður, er í miðstjórn Framsfl. Allir aðrir flokkar en Sjálfstfl. eiga því mann í þessari n., sem eru hver fyrir sig í miðstjórn síns flokks. Við getum alveg sleppt fyrrv. hæstv. félmrh. úr þessari sögu. Og ég vil leggja áherzlu á, að það er ekki annað, sem við sjálfstæðismenn förum fram á, en að maður verði valinn í n. af Sjálfstfl., ekki til þess að útiloka Brynjólf Stefánsson, heldur til viðbótar, sem stæði Sjálfstfl. jafn nærri og nm. úr hinum flokkunum standa nærri sínum flokkum. Það er a. m. k. einn maður í n., sem enginn virðist vita, hvaða flokki tilheyrir. Ég held því miður, að hann sé ekki sjálfstæðismaður. Þetta er Kristinn Björnsson læknir. En hann er skipaður í n. vegna sérfræðiþekkingar sinnar eins og Brynjólfur Stefánsson. Við erum allir sammála um, að n. væri miklu verr skipuð, ef Brynjólfur Stefánsson væri ekki í n., alveg án tillits til þess, hvort sjálfstæðismaður kæmi í staðinn. Hins vegar vil ég segja það með allri virðingu fyrir samþm. mínum, hv. 5. þm. Reykv.; að ég veit ekki, hvort álitið yrði, að n. væri nokkuð lakar skipuð, þó að t. d. gamall tryggingaráðsmaður eins og hv. 8. landsk. (SigfS) væri í n. í staðinn fyrir hv. 5. þm. Reykv. Ég geri ráð fyrir, að hv. 5. þm. Reykv. muni manna fyrstur játa, að n. varðandi tryggingamál væri með því allteins vel skipuð. — Það eru fyrst og fremst þessir tveir menn, Kristinn Björnsson og Brynjólfur Stefánsson, sem hafa yfirburði sem sérfræðingar til þess að starfa í þessari n.

Það er einkennilegt, að stærsti stjórnmálaflokkurinn, sem til er í landinu, hefur engan fulltrúa í n., en allir aðrir flokkar hafa þá. Og þetta er einkennileg tilviljun. Og það er ljóst, ef leita á samstarfs flokkanna um framgang málsins, að ólíkt heppilegra er, að allir flokkar hafi jafna aðstöðu í þessari n., en einum flokki sé ekki bægt frá. Og ég hef ekki farið fram á það út af fyrir sig, að Sjálfstfl. tilnefni mann í n., heldur aðeins, að annaðhvort tilnefni flokkurinn mann í n. eða maður verði valinn í n., sem standi í svipuðu sambandi við flokkinn og flokksmenn annarra flokka í n. standa við sína flokka. (Forsrh.: Ég hef lofað að tala við hv. þm.). Já, tala við mig. Ef það verður á þeim grundvelli, sem ég nú lýsti, þá er ég mjög ánægður með það. — Þar að auki er það vitanlegt, að Jens Hólmgeirsson var skipaður í n., af því að Framsfl. taldi upphaflega, að fram hjá sér hefði verið gengið um skipun manna í n. Það er því fordæmi fyrir þessu, sem ég hef hér farið fram á til handa Sjálfstfl.

Varðandi svo það, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði, að hann hefði ekki haft samráð við flokksmenn sína viðkomandi starfi sínu í n., þá hef ég nú frekar haldið, að þeir hafi haft samráð við hann um það, hvað hann gerði, en að hann þyrfti að bera sig saman við þá um það, hvað hann gerði. Ég hygg því, að menn taki það sem gamanyrði, sem hann sagði um það efni. En varðandi það, að ekki hafi verið hægt að fá menn með ámóta þekkingu og hv. 5. þm. Reykv. og hv. 3. landsk., þá vil ég taka fram, að Gunnar Benediktsson hefur haft lengri setu í stjórn Sjúkrasamlags Reykjavíkur en hv. 5. þm. Reykv., svo að hefði það vakað fyrir að fá mann skipaðan úr þeirri stjórn, þá hefði kannske verið eðlilegra að velja hann heldur en viðvaning í þeim efnum eins og hv. 5. þm. Reykv. Ég tala nú ekki um, hvort það hefði ekki verið kurteislegra af fyrrv. hæstv. félmrh. að velja fyrrv. ráðh. eins og hv. 3. þm. Reykv., sem er framkvæmdastjóri sjúkrasamlags Reykjavíkur. Það gæti sumum sýnzt, að hann hefði svipaða aðstöðu til að starfa í þessari n. og hv. 3. landsk. þm. Ég ber ekki fræðiþekkingu hv. 3. þm. Reykv. saman við þekkingu Brynjólfs Stefánssonar. En ég hefði haldið, að fræðiþekking hv. 3. landsk. þm. og hv. 5. þm. Reykv. væri ámóta og þekking hv. 3. þm. Reykv. í þessu efni. Og afstaða þeirra hvers í sínum flokki, er ákaflega svipuð, svo að mér sýnist, að ekki hefði þurft að fara ákaflega langt til þess að fá vel skipaða n. með mönnum, völdum samkvæmt þekkingu og reynslu í þessu efni frá öllum flokkum og svo prýðilegum sérfræðingum sem þeim Brynjólfi Stefánssyni og Kristni Björnssyni, mönnum, sem eru ekki í því pólitíska vafstri eins og við hinir og líta á málið frá stærri sjónarhóli, — eins og líka hæstv. ráðh. finnst þeir hafa víðtækari sjóndeildarhring en við hinir. Það er ágætt að hafa þá með, en hafa svo hina fjóra til þess að draga málið gegnum þingið, þegar það þarf að fá afgreiðslu. Ég hygg, að það væri ekki lakasta leiðin til þess að koma málinu fram.