10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

152. mál, alþýðutryggingar

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. — Ég get í öllum atriðum vísað til þess, sem hv. 6. þm. Reykv. hefur sagt um afstöðu Sjálfstfl. um þetta mál. Ég hefði óskað þess, að því hefði ekki verið hraðað eins mikið og gert hefur verið, vegna þess að við sjálfstæðismenn höfum ekki haft tækifæri, sem aðrir flokkar hafa haft, til þess að athuga þetta mál. Og þetta frv., ef samþ. verður, er svo merkilegur lagabálkur, að það skiptir tiltölulega litlu máli, hvort hann er afgreiddur 3 til 5 mánuðum fyrr eða síðar, í samanburði við það, að af hinu háa Alþ. sé allt vandlega athugað í sambandi við þetta mál. Við sjálfstæðismenn höfum þó ekki viljað bregða fæti fyrir þetta mál, til þess að sýna velvilja okkar til málsins. En þegar verið er að ræða og semja l. um alþýðutryggingar, þá grípur það inn á allmörg svið.

Ég hef komið hér fram með brtt. til þess að koma í veg fyrir, að í einni einustu gr. í þessum l., ef frv. verður samþ., sé farið að setja l. um málefni, sem þurfa svo miklu meiri undirbúnings við og n. er nú á rökstólum til þess að rannsaka til hlítar, þ. e. um það, hvaða skilyrði skuli sett vera fyrir því að setja upp lyfjabúðir og sjúkrahús og þess háttar hér á landi. Ég hafði skilið 35. gr. svo, að hún næði eingöngu til innra skipulags sjúkrasamlaganna, þannig að hún segði aðeins á þá leið við þau: Ykkur er þetta heimilt, en auðvitað því aðeins, að sá almenni löggjafi eða staðgengill hans leyfi það. En af viðtölum við samnm. mína í félmn. heyrðist mér, að það væri meiningin, að með þessu ákvæði 35. gr. væri sjúkrasamlögum heimilað alveg án tillits til þeirra l., sem um það gilda, sem að vísu eru orðin mjög gömul, þ. e. tilskipun frá 1762, eða síðari l., að setja á stofn lyfjabúðir. Ég álít, að slík heimild eigi alls ekki heima í svona l., ef ekki á að skilja þetta sem breyt. á l. um lyfjabúðir. Þess vegna vil ég taka fram, að ég álít, að þetta ákvæði eigi að eiga eingöngu við innra skipulag sjúkrasamlaga, en að það bindi á engan hátt stjórnina eða löggjafann til að veita leyfi til slíkra stofnana, sem talað er um í þessari gr.

Ég vona því, að þeir, sem eru mér sammála um það atriði, hvaða skilyrði þurfi til þess að setja á stofn lyfjabúðir eða sjúkrahús, greiði atkv. með brtt. minni, til þess að enginn vafi geti á legið í þessu efni. Því að það er áreiðanlega fyrir utan verksvið þeirrar n., sem var skipuð til undirbúnings breyt. á tryggingalöggjöfinni, og eins fyrir utan tilgang þessara l. um alþýðutryggingar að fara að setja í einni málsgr. ákvæði um hluti sem þessa, sem þarf að rannsaka mjög miklu nánar en orðið er í sambandi við þetta mál og eru mjög mikið rannsóknarefni. Enda hefði ekki setið á rökstólum sérstök n. í marga mánuði til þess að rannsaka það, ef ekki hefði verið álitið, að meira þyrfti í málinu að gera en að koma lagabreyt, í þessu efni sem smá-aukagetu inn í 50 greina lagabálk.