08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

27. mál, fjárlög 1944

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er meðflm. hér að nokkrum brtt. En ég er 1. flm.brtt. á þskj. 546, VII, um að bæta á 13. gr. nýjum lið, til skipasmíðastöðvar í Reykjavík, gegn 3/5 úr hafnarsjóði Reykjavíkur, l millj. kr. Það er nú hér á leiðinni gegnum þingið lagafrv., sem vonandi kemst í gegn, sem nú er gengið í gegnum hv. Ed. og mun nú vera í sjútvn. hv. Nd., sem er frv. til l. um breyt. á hafnari. fyrir Reykjavíkurkaupstað. Það frv. er fram borið samkv. till. milliþn., sem sett var til þess að athuga um byggingu skipasmíðastöðvar. Og í því lagafrv. er svo fyrir mælt, eins og það nú liggur fyrir, eftir að því var breytt í hv. Ed., með leyfi hæstv. forseta:

„Til hafnargerða, skipakvía, dráttarbrauta og annarra mannvirkja í sambandi við skipasmíðastöð við Elliðaárvog veitist úr ríkissjóði 2/5 kostnaðar eftir áætlun, sem ríkisstjórnin hefur samþykkt, þegar fé er til þess veitt í fjárlögum, allt að 2 millj. króna, gegn 3/5 frá hafnarsjóði Reykjavíkur.“

Hér er sem sé um það að ræða að hefjast handa um mannvirki, sem allir þingflokkar, ef ég man rétt, hafa verið sammála um, að væru meðal þeirra, sem brýnust nauðsyn væri að ráðast í hér á landi. Ég þarf þess vegna ekki að ræða neitt sérstaklega um nauðsyn þessa verks út af fyrir sig. Það er þá aðeins hitt, sem um er að ræða: Er það rétt fyrir okkur nú þegar að hefjast handa með þetta á næsta ári, eða væri skynsamlegra af okkur að láta þetta bíða hvað snertir sjálfa bygginguna á skipasmíða- og skipaviðgerðastöð. Ef gengið er út frá því, að lok styrjaldarinnar muni verða á næsta ári, a. m. k. í Evrópu, þá munu á því ári verða hvað mestir markaðsmöguleikar fyrir okkur Íslendinga, og þess vegna mun vera brýn nauðsyn fyrir okkur að eiga þá sem allra stærstan skipaflota. Og til þess þurfum við að geta byggt og gert við sem mest af skipum fyrir okkur sem hægt er. Það er því litlum efa bundið, að ef hægt er sem fljótast að ráðast í þetta, þá er það heppilegast.

En það er ekki aðeins sá hluti verksins, sem gera þarf að koma upp þessum stöðvum. Því að það mun vera hægt að koma með þau gagnrök, að ekki muni vera hægt á skömmum tíma að koma dráttarbraut svo vel upp, að notazt gæti á næstu síldarvertíð. En þá er þó hitt, sem okkur ber alveg sérstaklega að athuga, og um það munu allir flokkar vera sammála, að það séu horfur á því, að þegar fer að líða á næst komandi ár, þá muni fara að verða vart atvinnuleysis, ekki aðeins úti á landi, eins og verið hefur, heldur líka hér í Reykjavík. Og þá leggst undireins sú spurning fyrir okkur, hvort þá eigi að fara í gamla horfið um að ráðast í hinar og þessar aðgerðir, sem meira og minna eru ónauðsynlegar, eða a. m. k. óarðberandi til þess að ráða bót á atvinnuleysinu. Nú þykist ég vita, að flestir muni hugsa sem svo, að það gangi alls ekki, að það verði atvinnuleysi eftir stríðið, það verði að sjá fólkinu fyrir vinnu. Og ef ekki hafa verið gerðar neinar ráðstafanir til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi eftir stríðið, þá má búast við, að þotið verði í að láta vinna að vegagerðum og brúagerðum o. þ. h. á vetrum. En þá virðist mér, að rétt væri að undirbúa þannig skipasmíðastöðvarbyggingu, að farið væri að ryðja og laga til við Elliðaárvog. Það heppilegasta, sem hægt væri að gera til þess að sá vinnukraftur, sem fer að losna úr þeirri vinnu, sem menn hafa verið í undanfarið, yrði vel notaður, hygg ég, að væri þessi undirbúningur. Og þess vegna gæti verið sérstaklega heppilegt, þegar fjárl. fyrir næsta ár eru afgreidd, að ætluð væri upphæð í þessu skyni. Það eru nú ekki áætlaðar neinar verulegar fjárhæðir til þess, sem áður var kallað atvinnubætur. Og það væri að vissu leyti vel farið, ef því meira fé væri ætlað til verklegra framkvæmda. Þessi till., sem við höfum leyft okkur að bera hér fram, miðar að því, að nú þegar séu af hálfu þingsins gerðar ráðstafanir til þess að undirbúa og hrinda í framkvæmd þessu nauðsynjamáli, sem allir þingflokkar hafa verið sammála um, að sé eitt af því fyrsta og bezta, sem við getum ráðizt í að stríðslokum. Enn fremur hefur þetta framlag þann kost í för með sér, frá sjónarmiði atvinnumálanna og ríkisins, að hafnarsjóður Reykjavíkur á að leggja fram 50% hærri upphæð en það, sem ríkið leggur fram. Og hafnarsjóður er ekki of góður til þess að gera slíkt. Ef þetta væri samþ., mundi það þýða, að ef ríkið legði fram 1 millj. kr. á næsta ári til þessara framkvæmda, þá mundi hafnarsjóður Reykjavíkur leggja fram 1½ millj. kr. til þeirra á móti, svo að þar mundu koma 2½ millj. kr., sem mundi þýða það, að mjög mikið mundi þá þegar verða að þessu verki unnið. Er kannske of mikið að segja, að helmingur verksins kláraðist á næsta ári, en þetta framlag mundi a. m. k. nægja til þess, að hægt væri að koma upp á næsta ári þurrkví og dráttarbraut, sem væri hægt að nota til að byrja smíði skipa í og gera við skip af fullum krafti.

Ég býst nú ekki við, eftir þeim góðu undirtektum, sem frv. um þetta mál hefur fengið í þinginu, að það muni mæta neinni verulegri mótspyrnu, að þingið sýndi nú þegar hug á því að vilja nú ekki láta sitja aðeins við lögin tóm, heldur hrinda verkinu í framkvæmd.

Ég man nú ekki eftir í svipinn, að af þeim 19 millj. kr., sem veittar eru á 13. gr., sé ein einasta milljón ætluð til Reykjavíkurkaupstaðar. Ég held, að það sé svo sem ekki neitt, sem veitt er þangað af framlögum til vegasamgangna, vita og annars slíks. Og þar sem Reykjavík leggur nú til um 2/3 hluta af tekjum ríkissjóðs, þá er það náttúrlega ekki til mikils mælzt, þó að þessi eina milljón væri nú lögð þar fram, gegn því, að hafnarsjóður Reykjavíkur leggi á móti 1½ millj. kr., og með þessu væri ráðizt í fyrirtæki, sem mundi koma sjávarútvegi allra landsmanna að mjög góðu haldi og hjálpa verulega til þess að hindra það, að atvinnuleysi komi aftur yfir þjóðina, og það á þann skynsamlegasta og eðlilegasta hátt, sem ég býst við, að allir þingflokkar séu sammála um. — Ég vonast þess vegna til þess, að allir hv. þm. geti orðið sammála um þessa brtt. og samþ. hana.