23.09.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ólafur Thors:

Ég vildi að sönnu mega gera ráð fyrir, að í jafnveigamiklu máli og þessu lægi nú þegar fyrir ákvörðun ríkisstj., en mér skilst á svari hæstv. forsrh., að vafasamt sé, að svo sé. Ég skal samt ekki á þessu stigi málsins setja út á, þótt hæstv. forsrh. telji rétt, að sá ráðh., sem þetta mál fellur undir, svari fyrirspurninni, og ég þakka hæstv. forsrh. fyrir, að hann vill flytja hæstv. fjmrh. boð um þessa spurningu, sem ég hef borið fram í nafni Sjálfstfl., í því trausti, að hann láti ekki standa á skýru svari. Þá vil ég árétta það, sem var áður sagt, að tveir flokkar hefðu neitað stjórninni um heimild til slíkra greiðslna og Sjálfstfl. tilskilið, að l. væru á ný samþ. á Alþingi.