28.09.1943
Sameinað þing: 15. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Síðastliðinn föstudag bar hv. þm G.-K. fram fyrirspurn í sameinuðu þingi um það, hvar ríkisstjórnin væri á vegi stödd um öflun heimilda til að greiða niður framfærsluvísitöluna. Enn fremur sagði hann, að Sjálfstfl. vildi um sinn sætta sig við, að fé yrði lagt fram, að því tilskildu, að ríkisstjórnin aflaði sér tafarlaust heimildar til þess á Alþingi.

Eins og ríkisstjórnin hefur skýrt þingflokkunum frá bréflega, telur hún sig hafa skýlausa heimild í 4. gr. laga nr. 42/1943 til að lækka verð landbúnaðarvara á innlendum markaði gegn framlagi úr ríkissjóði. Þessi heimild er svo skýr og ótvíræð, að ekki verður um villzt. Stjórnin telur sig því ekki þurfa að afla nýrra heimilda í þessum efnum.

Ástæðan til þess, að stjórnin leitaði samþykkis flokkanna til að nota fé það, sem fengist af verðhækkun tóbaks, var sú, að ég gaf yfirlýsingu um það í efri deild, þegar lagabreytingin var þar til umræðu, að tekjurnar, sem af verðhækkuninni leiddi, skyldu ekki notaðar nema meiri hluti þingmanna væri því fylgjandi. Tveir stærstu flokkar þingsins gáfu til kynna, að þeir mundu ekki að svo stöddu hafa á móti, að þetta yrði gert. Skilyrði Sjálfstfl. var að vísu það, að ríkisstjórnin aflaði sér tafarlaust úrskurðar Alþ. um það, hversu lengi slíkar greiðslur séu inntar af hendi.

Ástæðan til þess, að ríkisstjórnin hefur ekki leitað slíks úrskurðar Alþ., er fyrst og fremst sú, að tveir stærstu flokkarnir samþykktu, að fé yrði lagt fram um sinn, þ. e. a. s., meðan athugaðar eru aðrar leiðir til úrlausnar. En önnur meginástæðan er sú, að stjórnin hefur ekki að svo vöxnu máli viljað setja Alþ. í þann vanda að kveða upp úrskurð um, hversu lengi þessar greiðslur skuli standa, meðan engum háttv. þingmanna er enn fyllilega ljóst, hvernig og hvenær hægt er að leysa dýrtíðarmálin til frambúðar og án þess að greiðslur úr ríkissjóði komi til. Meðan svo stendur, er varla hægt að ætlast til þess, að afstaða sé tekin til svo örlagaríkra ráðstafana sem þeirra, hvort hætta skuli verðbótum þeim, er nú halda verðbólgunni í skefjum.

Hins vegar eru greiðslurnar nú inntar af hendi án nokkurrar skuldbindingar af hendi ríkissjóðs, hversu lengi það sé gert. Af þeim sökum er ekkert því til fyrirstöðu, að ríkissjóður hætti greiðslunum á morgun, ef það þætti henta. Ríkissjóði hefur því ekki verið bundinn nokkur baggi í því efni, og Alþingi getur, hvaða dag sem því sýnist svo, ákveðið að greiðslunum skuli hætt.

Einnig af þessum ástæðum þykir ríkisstj. ekki aðkallandi þörf að leita úrskurðar Alþingis um málefni, sem það hefur gersamlega í hendi sér, — um málefni, sem þing og stjórn er að leita úrlausnar til frambúðar á öðrum og tryggari grundvelli en það er nú.

Því hefur verið haldið fram, að ekki geti komið til mála, að stjórnin noti áðurgreinda heimild um milljóna fjárgreiðslu meðan þingið situr, án þess að formlegt samþykki þess komi til á ný, að lagaheimildina megi nota. Ég verð að segja það, að ég er alveg á gagnstæðri skoðun. Ég álít, að einmitt vegna þess að þingið situr geti ríkisstjórnin notað sér slíka heimild til milljóna útgjalda, án þess að leita nýrrar heimildar, því að þá hefur þingið aðstöðu til að fylgjast nákvæmlega með málinu og taka í taumana, hvaða dag er það teldi sér henta.

Búnaðarfélag Íslands og Alþýðusamband Íslands hafa nú að beiðni ríkisstjórnarinnar skipað sex manna nefnd til að athuga möguleikana á því að lækka dýrtíðina með frjálsu samkomulagi milli þessara aðila. Mér skilst, að almennt sé litið á þetta sem spor í rétta átt, jafnvel af andstæðingum ríkisstj., hversu sem fer um árangurinn.

En meðan slíkar samræður fara fram og meðan verið er að þreifa sig áfram um varanlega og viðunandi lausn dýrtíðarmálanna, efast ég um, að til sé nokkur maður innan þessara veggja, sem vildi í fullri alvöru leggja til að gefa dýrtíðinni lausan tauminn. Meiri hl. Alþingis hefur tjáð sig því fylgjandi, að verðbólgunni sé haldið í skefjum fyrst um sinn á þann hátt, sem nú er gert, meðan leitað er annarra ráða. Það virðist því vera að öllu leyti eðlilegast, að notaðar séu þær heimildir, sem til eru, og þingið hafi það í hendi sér, hversu lengi þær séu notaðar.

Ef þingið hins vegar væri á móti því, að dýrtíðinni sé haldið í skefjum með fjár framlögum úr ríkissjóði, eins og sakir standa, þá er því innan handar, eins og ég hef áður bent á, að stöðva fjárgreiðslurnar, hvaða dag sem vera skal, með því að gera um það formlega ályktun eða nema úr lögum þær heimildir, sem ríkisstjórnin byggir ráðstafanir sínar á. En ef þingið gerir slíkar ráðstafanir án þess að jafnframt séu gerðar aðrar, sem haldið geta dýrtíðinni í skefjum, þá er sýnilegt, að þingið og ríkisstjórnin eiga ekki samleið.

Um það mun hafa verið rætt í öllum flokkum undanfarið, hvort bæta skuli bændum upp útflutningskjötið, svo að þeir fái fyrir það sama verð og gert er ráð fyrir af vísitölunefndinni. Hafa margir talið, að mikil sanngirni mæli með, að svo verði gert, að minnsta kosti innan ákveðinna marka. Ég veit ekki um afstöðu hv. þm. G.-K. í þessu efni, en ekki mundi ég vænta þess af honum að verða eftirbátur annarra í því að sýna bændum fulla sanngirni í þessu máli.

Ef svo færi, að þingið hyrfi að því ráði að verðbæta allt útflutta kjötið, þá mundi að sjálfsögðu verða út flutt allt kjöt, sem selst ekki innanlands. Sé ekki kjötinu til neytenda hér haldið í hóflegu verði, — þ. e. a. s., sé það ekki lækkað í verði með fjárframlagi úr ríkissjóði, — er hætt við, að neyzlan mundi minnka stórkostlega. Árangurinn af því yrði sá, að meginhluti kjötsins væri seldur á erlendum markaði og verðbættur af ríkissjóði, svo að erlendir neytendur fengju það keypt fyrir allt að helmingi lægra verð en almenningur hér á landi verður að greiða. Landsmenn mundu verða án þessarar hollu fæðu vegna þess, hversu dýrt hún er seld innanlands, en um leið mundu þeir verða að greiða stórfé til, að útlendingar geti fengið hana ódýrt.

Þetta er hin hliðin á málinu, og ég hygg, að fáa mundi fýsa að bera ábyrgð í þessu efni og standa fyrir svörum, ef málin tækju þá vendingu, sem ég hef nú drepið á.

Ég skal fúslega viðurkenna, að það er hvorki varanleg né æskileg lausn að halda verðbólgunni í skefjum með fjárframlögum. En það getur verið lækning að því leyti, að það getur forðað frá hruni. Það er á sinn hátt líkt því að halda við viðnámsþrótti sjúklings með því að dæla í hann blóði, þangað til líkaminn getur sjálfur farið að veita sjúkdómnum mótstöðu.

Eins og sakir standa, tel ég það þjóðinni fyllilega mögulegt og án þess að nærri henni sé gengið, að halda uppi margumræddum fjárframlögum.

Þeir eru margir, sem látið hafa skína í það í ræðu og riti, að fjárframlög úr ríkissjóði til að halda verðbólgunni í skefjum sé hin mesta heimska, sem hvergi þekkist nema hér. Um það skal ég ekki deila, hvort hér sé um óviturlegar ráðstafanir að ræða, en hitt vildi ég segja, að slíkar ráðstafanir hafa verið gerðar víðar en hér og með svo góðum árangri, að furðu sætir.

Bretar tóku það ráð þegar í byrjun stríðsins að sporna gegn verðbólgu. Reynsla þeirra og annarra frá fyrra ófriði var á þá leið, að engin fórn til að fyrirbyggja verðbólgu væri eins dýr og verðbólgan sjálf. Þess vegna byrjuðu þeir strax á því að halda verðlagi í skefjum með því að hafa hönd í bagga með dreifingu nauðsynjavara og leggja fram fé úr ríkissjóði, þegar það sýndist henta til þess að hindra verðhækkun.

Samkv. heimildum, sem ég hef í höndum, hefur verið varið til dýrtíðarráðstafana á fjárhagsárinu, sem endaði 31. marz 1942 í Bretlandi, samtals 145 millj. sterlingspunda. Það jafngildir um 3800 millj. króna eða um 80 kr. á hvert mannsbarn í Bretlandi. — Þetta hefur skipzt þannig:

Hveiti og haframjöl

£ 35

millj.

Kjöt

– 23

Kartöflur

– 23

Mjólk

– 28

Egg

– 13

Sykur

– 16

Ef tiltölulega hefði verið varið hér á landi til dýrtíðarráðstafana til þess að halda verðlaginu í skefjum, þá mundi það nema nálega 10 millj. króna á ári.

Nú hefur verið varið á þessu ári til verðlækkunar á innlendum afurðum eins og hér segir:

Kjöt, frá áramótum til 15. sept.

3982000

Mjólk á sama tíma

2200000

Áætl. verðbætur á þessum vörum frá

15/9 til 31/12, að meðalt. um 900 þús.

kr. á mánuði í 3½ mánuð

3150000

Samtals

9332000

Á næsta ári mætti búast við að öllu óbreyttu, að verðbæturnar mundu nema 10–11 millj. kr. yfir árið.

Niðurstaðan verður þá sú, að áætlun ríkisstj. um fjárframlag til að halda verðbólgunni í skefjum næstu 12 mánuði er að tiltölu við fólksfjölda alveg í sama mæli og Bretar hafa greitt úr ríkissjóði hjá sér síðasta fjárhagsár til að forðast verðbólgu.

Hjá Bretum hefur þessi aðferð reynzt svo vel, að verðhækkun hjá þeim frá ófriðarbyrjun nemur aðeins 30 vísitölustigum, enda sést það glöggt á því, að þeir geta selt okkur kartöflur og flutt þær hingað fyrir 45–50 aura kíló, meðan heildsöluverð hér á staðnum á íslenzkum kartöflum er nú 1.12.

Í Bretlandi ásakar enginn ríkisstj. þar fyrir að hafa gert þær ráðstafanir, sem ég nú hef lýst. Þetta mál hefur nú orðið nokkru lengra en ég hafði gert ráð fyrir í fyrstu. En ég taldi rétt að gera grein fyrir þessu nú á þessu stigi málsins. En með þessu tel ég mig hafa svarað fyrirspurn hv. þm. G.-K. og jafnframt gert grein fyrir viðhorfi ríkisstj. í þessu máli.