06.10.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér, áður en gengið er til dagskrár, að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ríkisstj. Ég býst við, að það heyri helzt undir viðsk.- og fjmrh. að svara þeim.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja, hvort seld er mjólk til setuliðsins, og, ef svo er, þá hve mikil. Ég vil taka það fram, að það er sérstaklega spurt um þetta sökum þess, að nú er mjólkurlaust í bænum.

Í öðru lagi á hvaða verði og hvort það er rétt, að setuliðið fái mjólkina við lægra verði en Íslendingar borga fyrir hana. Ég vil sérstaklega víta þessa sölu, ef hún á sér stað, þar sem það er slæmt fordæmi að selja vöru sama sem út úr landinu á lægra verði en landsmenn greiða fyrir hana.

Í þriðja lagi: Hvað líður innflutningi ameríska smjörsins? Hér hefur verið smjörlaust undanfarið, en neytendur hafa verið fullvissaðir um, að amerískt smjör yrði flutt til landsins.

Í fjórða lagi vil ég spyrja, hvort hæstv. ríkisstj. hafi gert nokkrar ráðstafanir til innflutnings á mjólkurdufti, ef Íslendingar geta ekki fullnægt mjólkurþörf sinni sjálfir og verða að fara að nota innflutt mjólkurduft eins og herinn.

Vænti ég, að hæstv. viðskmrh. svari þessum fyrirspurnum mínum.