08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

27. mál, fjárlög 1944

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. voru nú samþykktar það miklar fjárveitingar til verklegra framkvæmda og ýmislegs annars, að ég og fleiri munu hafa gert ráð fyrir, að ekki mundi bætast mikið við það við 3. umr., en hér liggur fyrir sandur af till. til verklegra framkvæmda, og má segja, að það sé talsverð freisting fyrir þm. að þoka áfram umbótamálum í sínu héraði, sem alls staðar blasa við augum og þörf er á. En ef meiri hl. af þessum till. verða samþ., er auðsætt, að við, sem höfum staðizt þessa freistingu, verðum afskiptir, að því er snertir okkar héruð, borið saman við ýmsa aðra. Ég hef þess vegna leyft mér að flytja till. til samræmis við aðra í þessu efni og geri ráð fyrir, að menn sjái, að svo langt er komið í þessum hlutum, að ekki er gerandi að fara mikið lengra, en út í það skal ég ekki fara nánar, en vík að þessum tveim till., sem ég hef flutt ásamt hv. þm. Mýr. (BÁ), samstjórnarmanni mínum í nýbýlastjórn ríkisins. Þessar till. eru á þskj. 609, og er sú till., sem ég er aðalflm. að, um að láta standa áfram sams konar heimild og er í fjárl. þessa árs um 100 þús. kr. til verðlagsuppbótar á endurbyggingarstyrki til sveitabýla, ef framlagið í 16. gr. 9. b. hrekkur ekki til. Þessu er þannig háttað, að nýbýlastjórn hefur ekki heimild til að veita til neinna húsbygginga á einstökum jörðum hærri upphæð en 1500 kr., en vegna þess hvað byggingarkostnaður hefur aukizt stórkostlega, hefur komið í ljós, að nýbýlastjórn á mjög erfitt með að framkvæma l. með þeim fjárframlögum, sem hún hefur fengið, því að nú er svo komið með byggingarkostnað, að það, sem kostaði 1500 kr. fyrir stríð, kostar nálega 5000 kr. nú, þ. e. a. s., nýbýlastjórn hefur heimild til að auka styrk til hvers sveitabýlis úr 1500 kr. upp í 5000 kr. Af þessu er auðsætt, að ef samræmið átti að haldast, hefði þurft að vera margfalt meira fjárframlag til þessara hluta en það, sem er, og við, sem störfum í þessari n., höfum ekki farið fram á fjárframlög neitt svipuð því, sem annars hefði þurft, vegna þess að miklu minna er um byggingar í sveitum á þessu ári en áður hefur verið og heldur en hefði verið, ef hægara hefði verið að fá byggingarefni og koma upp húsum. En ég þykist vita, að þm. geti séð, að það er engin hætta fyrir þá að samþykkja þessa heimild, vegna þess að hún verður því aðeins notuð, að hæstv. stj. verði unnt að framkvæma l. án þess að fá viðbótarfjárveitingu við það, sem er á 16. gr. Ég vænti þess, að þm. verði nú sammála um það eins og á síðasta þingi að láta þessa heimild standa í fjárl. óbreytta frá því, sem hún er í ár.

Þá flyt ég hér aðra brtt. með hv. þm. Mýr. um að hækka framlag til nýbýla um 50 þús. Eins og lögin eru nú, er ekki leyfi til að veita hærri styrk en 6 þús. kr. á býli og 6 þús. kr. lán. Þótt þetta væri nokkurn veginn nóg fyrir stríð, hrekkur það skammt fyrir þá, sem hafa lent í því að reisa nýbýli þessi verðhækkunarár, þegar hús, sem kostaði áður 8 þús. kr., er nú komið upp í 30 þús. Þá er vitanlega ókleift fyrir fátæka menn að standa undir þeim kostnaði, og liggur við, að þeir verði að ganga slyppir frá öllu, af því að þeir geta ekki klárað byggingarnar né gert býlin ábúðarhæf á svo skömmum tíma, sem þeim er nauðsynlegt. Í sjálfu sér er þessi upphæð ákaflega lítil borin saman við þörfina, en með henni mundi þó hægt að greiða nokkuð fyrir þeim mönnum, sem lakast eru staddir. Í nýbýlastofnun ráðast ekki aðrir á slíkum tímum en þeir, sem hafa sterka sjálfstæðisþrá og löngun til að bjarga sér, menn, sem ætla ekki að verða upp á aðra komnir né bætast í þann atvinnuleysingjahóp í kaupstöðunum, sem áður en varir kann að verða fullstór. Það þarf að styðja þá menn, sem sá dugur er í, svo að þeir þurfi ekki að hrökklast öreigar þaðan, sem þeir hafa kosið að reisa byggð og bú. Þessar tillögur eru báðar þannig vaxnar, að þær eru landsmál, en hvorki mál einnar stéttar né kjördæmis.