18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Finnur Jónsson:

Það er langur vegur frá því, að minni fyrirspurn fylgdi nokkur tortryggni eða aðdróttanir til samvinnufélaga eða annarra, sem eiga að sjá um greiðslur þessara upphæða. Hitt er kunnugt, að fyrir hve litla upphæð, sem greidd er úr ríkissjóði til launamanna, jafnvel þótt lögboðin sé, þykir sjálfsagt að taka kvittun, og er hún lögð með ríkisreikningunum. Það hafa engar kröfur verið gerðar til þeirra, sem hafa flutt þessar vörur út, að þeir skili skrá yfir nöfn þeirra manna, sem framleitt hafa þessa vöru, eða hve mikið hver hafi framleitt, heldur leggi þeir fram vottorð um, hve mikið heildarmagn þeir hafa flutt út, og ég vil ítreka það, að ég tel, að í þessu felist ekkert öryggi um greiðslur þessa fjár, sem nemur hátt á annan tug milljóna. Ég vil mjög alvarlega beina því til hæstv. atvmrh., hvort hann vilji a. m. k. ekki fara þess á leit við kaupfélög og aðra útflytjendur í landinu, að þeir skili sundurliðaðri skrá um uppbótargreiðslur til stjórnarráðsins, jafnvel þótt ekki yrði heimtuð kvittun af hverjum manni, sem virðist þó eðlilegast að gera. Mér finnst það vera lágmarkskrafa, sem alþm. gera, hvort sem þeir hafa tekið þátt í þessari samþykkt eða ekki, að þeir fái að vita, hvernig þessar upphæðir skiptast á hvert býli í landinu.