25.10.1943
Neðri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi að gefnu tilefni beina því til hæstv. ríkisstjórnar, hvort hún gæti ekki orðið vélbátaeigendum, sem hafa keypt vélar frá Amerískt, að liði með útvegun varahluta. Síðan stríðið byrjaði, hefur verið keypt hér allmikið af amerískum mótorvélum í fiskiskip. Til þeirra þarf að sjálfsögðu varahluti, en með útvegun þeirra hefur gengið mjög illa. Hér er einnig nokkuð af brezkum vélum, en í þær mun ekki vera tilfinnanlega erfitt að fá varahluti. En þeim beiðnum, sem sendar hafa verið til Ameríku, hefur verið synjað. Nú vildi ég vita, hvort hæstvirt ríkisstjórn gæti ekki komið því til leiðar gegnum utanrmn., að útvegun þessara hluta mætti takast.