09.09.1943
Efri deild: 14. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (1741)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Haraldur Guðmundsson:

Ég mun að sjálfsögðu greiða því atkv., að þetta frv. fari til umr. og n., en áður en það fer þangað, vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort ætlunin er, að þetta álag komi sem viðbótarhækkun á útsöluverð þessara vara, þ. e. a. s., hvort hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir, ef þetta frv. verður samþ., að hækka þurfi útsöluverð á mjólk og kjöti sem þessu gjaldi nemur. Ég býst við, að því verði svarað, að þetta skipti ekki miklu máli, af því að þetta gjald sé svo lítið. Það er rétt, ½% sýnist ekki ýkjamikið. Mér skilst þó, að þetta muni nema nokkrum hundruðum þúsunda króna eftir þeirri umsetningu, sem nú er. Hitt skiptir ekki minna máli, að verði frv. samþ., er trúlegt, að leitazt verði eftir að fá gjaldið hækkað aneð tilliti til, að það sýni sig, að tekjurnar reynist ekki nógar til þess, sem þær eru ætlaðar, og þá er hætt við, að það skipti mjög verulegu máli, hvort gert er ráð fyrir, að framleiðendur taki þetta af sínum hluta, eða hvort neytendur eiga að borga það. Þetta þætti mér æskilegt að fá upplýst.