04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti: Eins og þm. mun kunnugt, hafa blöðin þessa dagana flutt fregnir um það, að í hrauninu fyrir sunnan Hafnarfjörð hafi fundizt allmikið af saltkjöti og enn fremur, að allmargir menn hafi farið og sótt saltkjöt til heimilisnota. Ég skal ekki fara út í það að lýsa minni skoðun á því, að óskemmdum mat sé hent á þennan hátt — ef rétt er, en ég vildi aðeins leyfa mér að beina til ríkisstj. fyrirspurn um þetta. Ég skal taka það fram, að ég veit ekki, til hvers ráðh. ætti að beina þessari fyrirspurn, en vona, að þeir af ráðh., sem hér eru staddir, láti fyrirspurnina berast til hins rétta aðila, ef hann er ekki hér staddur. Fyrirspurnin er svo hljóðandi:

Hefur ríkisstj. látið fara fram rannsókn á því:

l. Hvaðan saltkjöt það, sem fundizt hefur í hrauninu innan við Krýsuvíkurveg, er komið og hver er eigandi þess.

2. Hvort kjötið er hæft til neyzlu eða hættulegt heilsu manna.

3. Er slík rannsókn hefur ekki þegar farið fram, ætlar þá ríkisstjórnin að hlutast til um, að hún fari fram án tafar?