26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Finnur Jónsson:

Ég vildi vekja máls á því við hæstv. ríkisstj., að í Morgunblaðinu, sem út kom í morgun, er skýrt frá mjög veglegri dagskrá, sem á að hafa í ríkisútvarpinu 1. des., og verður að telja það mjög vel farið, að svo skuli gert. Hins vegar er skýrt svo frá í þessu blaði, að dagskráin hefjist klukkan 13 og ljúki klukkan 24, en ameríska og enska setuliðið annist tímann frá kl. 13-14, og verði dagsins minnzt þar á ýmsan hátt, en að því loknu taki ríkisstjóri Íslands til máls. Ég vildi nú spyrjast fyrir um það hjá ríkisstj., hvort hér mundi ekki fara eitthvað á milli mála um þessa frásögn, eða hvort ríkisstj. þyki vel við eiga, að dagskrá ríkisútvarpsins á fullveldisdegi okkar hefjist á því að okkar ágætu gestir byrjuðu dagskrána á undan ríkisstjóra.

Ég vona, að þetta hafi farið eitthvað á milli mála hjá blaðinu, því að þótt við viljum unna okkar gestum alls málfrelsis í útvarpinu og munum taka á móti öllum heillaóskum þeirra með ánægju, þá finnst mér ekki viðeigandi að þeir byrji dagskrána, ef þeirra útvarp er einn þátturinn í íslenzka ríkisútvarpinu á fullveldisdaginn, eins og fram kemur í Morgunblaðinu.