26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

dómsmrh. (Einar Arnórsson) :

Herra forseti. Ég var ekki hér í upphafi fundarins, en mér hefur verið sagt, að hv. þm. Ísaf. hafi gert fyrirspurn til mín út af dagskrá útvarpsins 1. des. n. k. Það var sagt hér í blöðunum í morgun, að setuliðin ensku og amerísku önnuðust útvarpsdagskrána þann dag milli kl. 13 og 14, og hv. þm. mun ekki hafa fundizt það viðeigandi, og beindi hann til mín fyrirspurn þessu viðvíkjandi.

Ég get lýst því yfir, að mér var alls ókunnugt um, hvernig ætlunin væri að haga þessu, þar til ég las frásagnir blaðanna í morgun. Eins og hv. þm. mun kunnugt, þá er það ekki ráðh., heldur útvarpsráð, sem ákveður dagskrá útvarpsins, en nú vill svo vel til, að hv. 1. þm. Reykv., sem er formaður útvarpsráðs, er hér viðstaddur og getur því væntanlega gefið upplýsingar um þetta. Mér hefði fundizt rétt, að ríkisstjóri hefði flutt sína ræðu áður en dagskrá setuliðanna byrjaði, í stað þess að gert mun ráð fyrir, að ræða hans komi þar næst á eftir, en eins og ég tók fram, þá er það ekki ráðh., sem ákveður þetta, en mér þætti vænt um, ef form. útvarpsráðs gæti gefið skýringu á þessu.