06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil beina því til hæstv. ríkisstjórnar, hvort hún vildi ekki sjá til þess, að þetta mál sé tekið til umr. hér á Alþ. Ég álít það mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga, þegar við sem sjálfstæð þjóð erum byrjaðir að taka þátt í samræðum sem þessum á þessari ráðstefnu, að okkar fulltrúar komi þar ekki öðruvísi fram við atkvgr. en í samræmi við vilja ríkisstj. á hverjum tíma. Það getur verið hættulegt fyrir okkur, ef þeir fulltrúar breyta þar eftir eigin geðþótta eða eftir áhrifum frá einstökum mönnum, sem þeir þar verða fyrir áhrifum af. Þessi afstaða, sem okkar fulltrúi á þessari ráðstefnu hafði þar gegn Norðmönnum og öðrum smáríkjum í Evrópu og með Stóra-Bretlandi og Bandaríkjunum, verður lögð þannig út, sem Ísland sé að komast undir áhrif Bandaríkjanna og Stóra-Bretlands og að slíta sambandinu við Norðurlönd. Og ég hygg, að það sé mjög í ósamræmi við þá samúð, sem menn hafa hér gagnvart Norðmönnum, að taka afstöðu gegn till., sem fulltrúi Norðmanna bar þarna fram.

Ég vildi, að hæstv. ríkisstjórn vildi láta í ljós vilja sinn í þessu efni, hvort hann væri í samræmi við það, sem þessi fulltrúi gerði eða ekki. Ég kynni bezt við, að tilefni til umr. um það mál á þingi komi frá hæstv. ríkisstjórn.