10.12.1943
Neðri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

dómsmrh. (Einar Arnórsson) :

Laust fyrir mánaðamótin síðustu rituðu 14 menn stjórnarskrárnefnd bréf. Þar segir m. a., að stofnun lýðveldis beri að haga svo, að í engu sé „vikið frá gerðum samningum og drengilegri málsmeðferð“.

Enn fremur segir þar svo:

„Ef Alþingi fellir samninginn úr gildi, án þess að fullnægt sé minnstu kröfum sambandslaganna, — og stofnar lýðveldi á Íslandi við þær aðstæður og á þann hátt, sem misbýður drengskapar- og sómatilfinningu þjóðarinnar og réttarvitund þeirri, sem henni hefur verið innrætt af ágætustu leiðtogum hennar í 100 ára sjálfstæðisbaráttu, munu þau hörmulegu tíðindi gerast, að Alþingi neyði þjóðina til þess að vera sundurlynda um úrlausn þessa stórmáls. Vér munum telja það siðferðislega skyldu vora að leggja málstað vorn fyrir alþjóð Íslendinga, svo að atkvæðagreiðsla um málið verði sem sönnust skýrsla um vilja þjóðarinnar. Oss er ekki nóg, að formlega sé stofnað lýðveldi á Íslandi. Vér vitum, að margvíslegar hættur geta steðjað að frelsi voru, þjóðerni og menningu. Og gegn þeim hættum verður aðeins barizt til þrautar með samhuga átökum þjóðar, sem er jafnófús að fremja rangindi sem þola rangindi. Vér erum ekki að rjúfa neina þjóðareiningu um lausn sjálfstæðismálsins. Sú eining hefur þegar verið rofin með því að fara að nauðsynjalausu með málin inn á brautir, sem allmikill hluti þjóðarinnar mun aldrei sætta sig við“.

Í fréttalestri útvarpsins s. l. föstudagskvöld var bréf þetta lesið í heild, þ. á m. þessar tvær tilvitnanir, er ég las upp. Þetta hefur sætt aðfinnslum ýmissa. Ekki þó svo að skilja, að útvarpið hafi á nokkurn hátt farið rangt með, heldur hitt, að ekki þótti sæma, að útvarpið birti orðrétta þá kafla bréfsins, er ég las.

Ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga, að útvarpið birti það úr nefndu bréfi, sem snerti sjálfa fréttina. Tel það rétt og sjálfsagt, enda sé gætt hlutleysis í frásögn. En hitt tel ég óviðeigandi, að birta þá kafla úr bréfinu, þar sem farið er meiðandi og móðgandi orðum um meiri hluta Alþingis og þann hluta þjóðarinnar, sem honum eru fylgjandi.

Þess vegna átti ég s. l. mánudagsmorgun tal við réttan aðila og benti honum á, að þessi meðferð útvarpsins hefði vakið gremju. Hann féllst á, að ekki hafi verið rétt að lesa þessa kafla, og lofaði hann að hafa gát á þessu framvegis, að ekki yrði lesin upp meiðandi ummæli um þing og stjórn.

Ég gef deildinni þessa skýrslu vegna fyrirspurnar, er fram hefur komið frá þm. N.-Ísf. varðandi þetta mál.